Á síðustu mánuðum hef ég siglt skútunni minni í nokkra hringi, ekki vitandi hvert ég væri að stefna, dregið niður seglin, hægt á og farið í var, en náð svo áttum og siglt þöndum seglum sem leið lá inn í næstu höfn. Þið skiljið hvað ég meina!
Eins og hjá mörgum þá átti 2020 að vera geggjað ár, nýr tugur að byrja og markmiðið mitt var að fagna tíu ára útgáfuafmæli Í boði náttúrunnar í sumar með veglegu afmælisriti. En í stað þess ákvað ég að stýra seglum eftir vindi og gera veglegt ferðablað. Svo veglegt að það er sama hvert á land þú ferð í sumar, þú munt alltaf finna urmul af hugmyndum og innblæstri fyrir leiðangurinn. Meira segja fyrir þá sem vilja fara í borgarferð í 101 Reykjavík!
Í miðju öldurótinu þá ákvað ég líka að breyta um nafn á blaðinu. Já, einu sinni enn! Í mínum huga er mikilvægt að vera stöðugt að lesa í veður og vinda og leiðrétta stefnuna. Mér fannst tíu ára afmælið góður tímapunktur til að endurhanna útlitið og setja slagorðið okkar, Lifum betur – eitt blað í einu, í hausinn. Í boði náttúrunnar stígur því niður og verður undirtitill, eins og á fyrstu blöðunum.
Fyrir nokkrum árum, eða á erfiðum tímapunkti í útgáfustarfseminni, var ég farin að spyrja spurninganna „af hverju“ og „hver er tilgangurinn“. Svona hefðbundnar spurningar þegar maður hefur unnið of mikið, of lengi. Svarið kom til mín í þessum einföldu orðum, Lifum betur og svo bætti ég við, eitt blað í einu. Þarna fékk ég skilninginn og tilganginn til að halda áfram. Þetta er það sem ég hef verið að reyna að gera allt mitt líf, lifa aðeins betur. Svo veit ég ekkert meira gefandi en að miðla og gefa fólki innblástur og fróðleik, sem getur einnig bætt líf þeirra á einhvern hátt, sama hversu stórt eða lítið það er. Í haust ætla ég að taka stórt skref sem tekur þessa hugsjón mína enn lengra. Ég vona að ég sjái þig í Laugardalshöll í haust þar sem ég býð fólki upp á fyrirlestra, sýningu á grænum og heilbrigðum vörum ásamt örnámskeiðum. Ef þú tekur aðeins eina hugmynd úr blaðinu eða ferð heim með einn hlut af sýningunni, sem bætir líf þitt og/eða umhverfi, þá er ég sátt.
Ég vona að við höldum áfram að sigla saman í endalausri leit að spennandi nýlendum, stöðugt að leiðrétta stefnuna og umfram allt að njóta ferðarinnar.
Góða ferð í sumar!
Ritstýra