AUSTFIRSKU ALPARNIR

AUSTURLAND

Tignarleg fjöll og fossar, skógar og óþrjótandi gönguleiðir eru aðeins nokkrar af fjölmörgum ástæðum þess að heimsækja Austurland. Falleg þorp, hvert með sínu sniði, iða af mannlífi. Hvergi eru fleiri hreindýr en hérna og aðgengi að lundaskoðun er með því besta á landinu.

22,721 km²
13,173 íbúar
4% landsmanna
east.is

LEIÐAVÍSIR UM AUSTURLAND
GRÆNIR HANDVALDIR STAÐIR SEM STUÐLA AÐ BETRI UPPLIFUN, SJÁLFBÆRNI OG GLEÐI! 

Fjaran í Atlavík.

NÁTTÚRA

1. INNRA-HVANNAGIL
Við veg 94, á leið til Borgarfjarðar eystri, er litríkt gil í einungis 5 mín. göngutúr frá bílastæðinu. Hér skapa ríólít og blágrýti heillandi listaverk, sem er engu líkt.

2. STÓRURÐ
Magnað sjónarspil sléttra grasbala, túrkísblárra tjarna og risavaxinna bjarga blasir við eftir rúmlega tveggja tíma göngu frá vegi 94. Í kring gnæfa stórbrotin Dyrfjöllin, sem fullkomna þessa einstöku náttúruperlu.

3. PÁSKAHELLIR
Skammt frá Norðfjarðarvita á Neskaupstað er hellisskúti í flæðarmálinu, sem brimið hefur sorfið inn í björgin. Í hellisveggjunum eru holur eftir trjáboli, sem hraun rann yfir fyrir um tólf milljónum árum. Um 10-15 mín ganga er frá bílastæði.

4. HENGIFOSS
Létt tveggja tíma ganga frá bílastæði við veg 933 er að þessum næsthæsta fossi landsins. Hann er umlukinn háum klettaveggjum með áberandi rauðum jarðlögum, sem voru forðum skógar sem brunnu þegar hraun rann yfir.

5. HALLORMSSTAÐARSKÓGUR
Stærsti og elsti skógur landsins, sem hefur að geyma yfir 70 trjátegundir. Þegar skógurinn var friðaður, um aldamótin 1900, var hann gerður að þjóðskógi Íslendinga. Friðunin var fyrsta skref þjóðarinnar í átt að náttúruvernd.

6. STUÐLAGIL
Eftir að vatnsmagnið í Jökulsá á Dal, eða Jöklu, minnkaði með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar kom þetta magnaða stuðlabergsgil í ljós. Vegur 923 liggur að Grund en frá bílastæðinu er fimm mínútna ganga eftir bröttum stíg að gilinu. Til að komast ofan í gilið er ekið að því austanmegin, að bænum Klausturseli en þaðan er gönguleið niður í gilið.

7. KLIFBREKKUFOSSAR
Hver fossinn á fætur öðrum steypist niður hlíðarnar og mynda þannig einstaka fossasyrpu. Hægt er að njóta fegurðarinnar frá vegi 953 í botni Mjóafjarðar eða fara í stutta göngu upp með fossinum.

8. FJARAN VIÐ ÞVOTTÁRSKRIÐUR
Ótrúlega falleg og myndræn strönd við þjóðveginn með risastórum kletti í fjöruborðinu. Hér er frábært að fara úr skónum og leika sér við öldurnar.

Torfbærinn Sænautasel á Jökuldalsheiði.

MENNING OG AFÞREYING

9. SÆNAUTASEL
Sænautasel var byggt árið 1843 og margir telja selið fyrirmyndina að heiðarbúskap Bjarts í Sumarhúsum í Sjálfstæðu fólki. Hægt er að fá lifandi leiðsögn og kaffi, kakó og lummur í torfbænum, í 5 km akstri frá þjóðveginum.
Merki, Jökuldalsheiði
853 6491 / Facebook

10. SKAFTFELL MENNINGARMIÐSTÖÐ
Listalífið blómstrar á Seyðisfirði og í Skaftfelli er starfsemin helguð myndlist með áherslu á sjónlistir og samtímalist. Í húsinu eru gestavinnustofur fyrir listamenn og kaffihús í kjallara með myndlistarbókasafni.
Austurvegi 42, Seyðisfirði
472 1632 / Facebook

11. ÍSLENSKA STRÍÐSÁRASAFNIÐ
Hér er horfið aftur til seinni heimsstyrjaldarinnar þegar 4000 hermenn komu til Reyðarfjarðar á meðan íbúarnir voru einungis 300. Áhrifin á samfélagið og menninguna má skoða í upprunalegum bröggum þar sem bíósýning, myndir og stíðsmunir segja þessa einstöku sögu.
Heiðarvegi 37, Reyðarfirði
470 9063 / fjardabyggd.is

12. SKRIÐUKLAUSTUR
Gunnar Gunnarsson skáld lét byggja herragarðshús í Alpastíl 1939. Þar eru sýningar um skáldið, auk listsýninga ásamt fróðleik um rústir munkaklausturs frá 16. öld, sem er fyrir utan húsið.
Kaffihús er á neðri hæð.
Skriðuklaustri, Fljótsdal
471 2990 / skriduklaustur.is

13. EGGIN Í GLEÐIVÍK
Við höfnina á Djúpavogi er útilistarverk eftir Sigurð Guðmundsson, sem samanstendur af 34 risavöxnum skúlptúrum úr slípuðu graníti, sem líkja eftir eggjum jafnmargra varpfugla í Djúpavogshreppi.
Höfnin, Djúpavogi

Nielsen restaurant á Egilsstöðum er í elsta húsi bæjarins sem nýlega hefur verið uppgert.

VEITINGAR

14. ELDHÚSIÐ RESTAURANT
Á Gistihúsinu Lake hótel við Lagarfljót finnur þú sannkallaða matarparadís í einstaklega fallegu umhverfi. Á matseðlinum má finna hefðbundna íslenska rétti í nútímalegum búningi og framandi kræsingar, sem gleðja augu jafnt sem maga.
Egilsstöðum 1-2, Egilsstöðum
471 1114 /
gistihusid.is

15. NIELSEN RESTAURANT
Í elsta húsi bæjarins er boðið upp á notalega og afslappaða matarupplifun og hægt að sitja úti á verönd þegar veður leyfir. Kári, fyrrum yfirkokkur á Michelin-stjörnustaðnum Dill, töfrar fram rétti þar sem hráefni úr héraði nýtur sín.
Tjarnarbraut 1, Egilsstöðum
471 2001 / nielsenrestaurant.is

16. AUSTRI BRUGGHÚS
Handverksbrugghús heimamanna með hátt í 20 mismunandi tegundum af bjór, sem spennandi er að smakka. Notast er við hráefni úr nágrenninu. Hver vill ekki smakka Skrúð, japanskan hríslager, Herðubreið, lífrænan pils, Steinketil eða Skessu? Boðið er upp á skoðunarferðir um brugghúsið.
Fagradalsbraut 25, Egilsstöðum
456 7898 / Facebook

17. HÓTEL HALLORMSSTAÐUR
Í miðjum skógi með frábæru útsýni er að finna hið þekkta kvöldverðarhlaðborð hótelsins. Ekki fyrir hlaðborð? Á annarri hæð er veitingastaðurinn Kol, bar & bistro, sem býður upp á fjölbreyttan matseðil og flotta kokteila. Mælum með pallinum á góðviðrisdögum.
Hallormsstaður
470 0100, 471 2400
701hotels.is

18. KLAUSTURKAFFI
Íslenskt heimagert hlaðborð eins og það gerist best. Með áherslu á hráefni úr héraði, s.s. ljúffengar hreindýrabollur, hrútaberjaskyrtertu og lerkisveppasúpu. Boðið er upp á hádegis- og kaffihlaðborð með heimabökuðu brauði og kökum, sem enginn fer svangur frá.
Skriðuklaustri, Fljótsdal
471 2992 / skriduklaustur.is

19. BEITUSKÚRINN
Þessi skemmtilegi veitingastaður, kaffihús og bar er á einstökum stað við sjávarmálið með fallegu útsýni yfir fjörðinn. Á matseðlinum eru fiskréttir og pítsur en við mælum sérstaklega með sjávarréttapönnunni, hún svíkur engan.
Egilsbraut 26, Neskaupstað
865 5868 / Facebook

20. SESAM BRAUÐHÚS
Framsækið handverksbakarí í hjarta Reyðarfjarðar með góð súrdeigsbrauð úr íslensku byggmjöli, sætabrauð og heita rétti í hádeginu. Frábært gúmmilaði fyrir svanga ferðalanga.
Hafnargötu 1, Reyðarfirði
475 8000 /
sesam.is

21. HAVARÍ
Skapandi hugsun og lífrænn landbúnaður koma saman á matstofu Berglindar og Svavars, þekktur sem Prins Póló. Þau bjóða upp á veitingar úr staðbundnu hráefni og tónleika, ef heppnin er með þér. Gríptu Bulsu (grænmetispylsu) og Bobb (poppaðar byggflögur) fyrir ferðalagið.
Karlsstöðum, Berufirði
663 5520 /
havari.is

22. HÓTEL FRAMTÍÐ
Hlýlegur veitingastaður í sögufrægu húsi með útsýni yfir höfnina. Réttur dagsins fer eftir því hvað veiddist þann daginn; þorskur, silungur, lúða, koli eða ýsa. Hér er eitthvað gott fyrir alla, meira að segja pítsur.
Vogalandi 4, Djúpavogi
478 8887 /
hotelframtid.com

Kaupfjelagið á Breiðdalsvík.

VERSLUN Í HEIMABYGGÐ

23. ASPARHÚSIÐ VALLANESI
Í einstöku timburhúsi, byggðu úr öspum úr skógrækt Vallaness, er verslun og veitingar að hætti Móður jarðar. Hér fæst lífræn matvara, brakandi ferskt grænmeti, kornvörur, olíur, aldinmauk og fleira, auk ljúffengra grænmetisrétta úr íslensku hráefni.
Vallanesi, Fljótsdal
471 1747 / vallanes.is

24. FJÓSHORNIÐ EGILSSTÖÐUM
Hér er sannarlega hægt að kaupa beint frá býli. Á boðstólnum er nautakjöt frá Egilsstaðabúinu, hamborgarar, heimagerður fetaostur, jógúrt og gamaldags skyr. Notalegt kaffihús er á staðnum með léttar veitingar og bakkelsi.
Egilsstöðum 1, Eiðar, Egilsstöðum
471 1508 / Facebook

25. KJÖT- OG FISKBÚÐ AUSTURLANDS
Fiskborðið er pakkað af spriklandi ferskum fiski, nánast beint úr bátnum. Ásamt tilbúnum fiskréttum er hægt að fá austfirskt lamb og nautakjöt á grillið.
Kaupvangi 23b, Egilsstöðum
471 1300 / Facebook

26. HÚS HANDANNA
Umhverfisvæn og listræn lífsstílsverslun með fjölbreytta flóru af íslenskri vöruhönnun, s.s. list, handverk og austfirskar krásir. Hér færðu sjampóstykki í ferðaboxi, vaxklúta fyrir samlokuna, jurtalitaðan lopa, smart ullarsokka og margt fleira í ferðalagið. 
Miðvangi 1-3, Egilsstöðum
471 2433 / Facebook

27. KAUPFJÉLAGIÐ
Það er eins og tíminn stöðvist þegar þú kemur inn í Kaupfjélagið en þar er undir einu þaki kaffihús, matvöruverslun og minjagripaverslun. Hér færðu nýbakað brauð, ferskan fisk, gaskúta, póstkort, ís kaffi, eða hvað sem er.
Sólvöllum 25, Breiðdalsvík
475 6670 / breiddalsvik.is

Vök Baths eru heitar náttúrulaugar í fallegri náttúru við Urriðavatn.

LAUGAR OG SPA

28. BAÐHÚSIÐ SPA: Lítil og falleg heilsulind í Gistihúsinu Egilsstöðum með heitri smálaug, sána, köldum potti og hvíldarsvæði. Tilvalið til að dekra við sig, þvo af sér ferðarykið og borða svo á einum af betri veitingastöðum landsins, Eldhúsinu.
Egilsstöðum 1, Egilsstöðum
471 1114 / lakehotel.is/heilsulind

29. VÖK BATHS: Að baða sig í fljótandi, heitum náttúrulaugum úti í miðju ísköldu Urriðavatni er sannkölluð náttúruupplifun. Við ströndina eru heitir pottar, köld úðagöng, gufubað, laugabar og bistró. Sjálfbærni og virðing fyrir umhverfinu er hér í fyrirrúmi.
Urriðavatn / 5 km frá Egilsst.
470 9500 / vok-baths.is

30. SELÁRDALSLAUG: Í fallegu gljúfri við bakka Selár er notaleg laug, rómuð fyrir umhverfi sitt, byggð af félagsmönnum í Ungmennafélagi Vopnafjarðar og vígð árið 1950. Við laugina er sólpallur og nestisaðstaða, heitur pottur og barnalaug.
Selárdal, Vopnafirði (dreifbýli)
473 1499

Berunes er ferðaþjónusta á norðurströnd Berufjarðar með glæsilegu sjávarútsýni.

TJALDSTÆÐI

31. BORGARFJÖRÐUR EYSTRI: Tjaldsvæðið er fyrir ofan þorpið í skjóli kletta, sem nefnast Álfaborg. Þar mun álfadrottningin Borghildur búa. Frá tjaldsvæðinu er stutt ganga upp á Álfaborgina en þar er gott útsýni og hringsjá.
Álfaborg, Borgarfirði eystri
472 999 / 857 2005

32. STÓRA-SANDFELL: Gamalgróin fjölskyldurekin ferðaþjónusta, 17 km frá Egilsstöðum þar sem hægt er að tjalda í skóglendi eða leigja smáhýsi. Hér eru ótal gönguleiðir og hestaleiga á staðnum.
Stóra-Sandfelli 3, Skriðdal
471 2420 / 661 3552 / storasandfell.is  

33. HALLORMSSTAÐASKÓGUR: Í skóginum eru tvö tjaldsvæði, í Atlavík og Höfðavík. Skógurinn er þekktur fyrir mikla veðursæld og er vinsæll til útivistar með ótal merktum gönguleiðum.
Hallormstað
470 2070 / 849 1461

34. BERUNES: Notaleg ferðaþjónusta með gistingu í umhverfisvottuðu farfuglaheimili ásamt tjaldstæði með fallegu útsýni yfir Djúpavog. Hér er einnig góður veitingastaður, sem kemur skemmtilega á óvart.
Berunesi 1, Djúpavogi
478 8988 / berunes.is

Mjóeyri á Eskifirði býður uppá fjölbreytta gistingu og afþreyingu.

GISTING

35. STÓRI–BAKKI: Gamall sveitabær sem búið er að gera smekklega upp. Stórt eldhús með öllum áhöldum, og öll aðstaða hin besta. Einnig hægt að leigja smáhýsi þar sem allt er til alls. Leikvöllur fyrir börnin og á staðnum eru kálfar, hænur og hestar, sem má klappa, auk hestaleigu.
Stóri-Bakki, Egilsstöðum (dreifbýli)
847 8288 / Facebook

36. GISTIHÚSIÐ LAKE HÓTEL: Fjölskyldurekið hótel við bakka Lagarfljóts, en saga þess nær aftur til ársins 1903. Í boði eru fjölbreytt herbergi, heilsulind og framúrskarandi veitingastaður.
Egilsstöðum 1-2, Egilsstöðum
471 1114 / gistihusid.is

37. HILDIBRAND HÓTEL:
Smart íbúðahótel með bjartar og fallegar íbúðir í mismunandi stærðum fyrir stórar sem smáar fjölskyldur. Fullbúið eldhús, góðar stofur og stórar svalir með fögru útsýni.
Hafnarbraut 2, Neskaupstað
4777 1950 / 865 5868 /
hildibrandhotel.com

38. MJÓEYRI: Gisting á notalegu gistiheimili og í fallegum sumarhúsum með heitum potti í flæðarmálinu. Á Mjóeyri er fjölbreytt afþreying, golfvöllur, sundlaug, söfn og gönguleiðir. Á veitingahúsinu, Randulffssjóhús, er áhersla á ferskan mat úr firðinum.
Strandgötu 120, Eskifirði
4771247 / 6960809 / mjoeyri.is

39. HÓTEL HALLORMSSTAÐUR: Eitt glæsilegasta hótel Austurlands, sem samanstendur af 63 herbergjum með sér salernis- og sturtuaðstöðu. Aðeins er um hálftímaakstur frá Egilsstöðum að hótelinu, sem er í fögru umhverfi.
Hallormsstað
471 2400 / foresthotel.is 

40. HAVARÍ GISTIHEIMILI: Nýlegt gistiheimili með rúmgóðum herbergjum og morgunmatur er innifalinn. Sameiginlegt alrými þar sem hægt er að elda.
Karlsstöðum, Berufirði
663 5520 / havari.is

41. HÓTEL FRAMTÍÐ: Fjölbreyttir gistimöguleikar í fallegu húsnæði og hægt að velja um herbergi, smáhýsi eða íbúðir. Mjög góð aðstaða fyrir þá sem kjósa svefnpokapláss. Hér er allt til alls til að gera dvölina þægilega og ánægjulega.
Vogalandi 4, Djúpavogi
478 8887 / hotelframtid.com

HOSTEL.IS: Farfuglaheimili má finna um allt land en þau bjóða upp á hagkvæma og fjölbreytta gistimöguleika. Í sumar er lögð sérstök áhersla á fjölskylduvæna gistingu og boðið er upp á rúmgóð fjölskylduherbergi með sameiginlegu eldhúsi. Börn yngri en 16 ára gista frítt með fjölskyldunni. Sjá sumartilboð.
575 6700 / hostel.is

HEY ÍSLAND: Ferðaþjónusta bænda býður upp á 160 gistimöguleika, allt frá litlum kósí stöðum fyrir pör yfir í stórar einingar, fullkomna fyrir hópa. Af hverju ekki að prófa bændagistingu, sumarhús, íbúðir, eða splæsa í flott sveitahótel? Alltaf umvafin fallegri íslenskri sveit.
570 2700 / hey.is

ANNAÐ

SUNDLAUGAR
Eskifjörður
Fáskrúðsfjörður
Neskaupstaður
Seyðisfjörður
Djúpivogur
Egilsstaðir

ON HRAÐHLEÐSLUSTÖÐVAR
Skjöldólfsstaðir, Egilsstöðum
Egilsstaðir, Miðvangi 5-7
Stöðvarfjörður, Fjarðarbraut
Djúpivogur, Vogalandi

VÍNBÚÐIN
Djúpivogur, Búlandi 1
Egilsstaðir, Miðvangi 2-4
Fáskrúðsfjörður, Skólavegi 59

NETTÓ
Egilsstaðir, Kaupvangi 6

Tögg úr greininni
, , ,