Dagsferðir frá Reykjavík bjóða upp á tækifæri til að upplifa náttúruna og ýmis ævintýri og maður endar aftur heima í koti að kvöldi. Hér ferðumst við um Krísuvíkur svæðið og Suðurland á nýjan hátt eins og túristar sem vilja sjá, borða og gera eitthvað einstakt!
TÚRISTAFERÐIN / 156 KM
Á þessari hringleið er að finna hveri, kirkjur og ótrúlegt landslag.
LEIÐIN» Beygt til vinstri út af Reykjanesbrautinni rétt áður en komið er að álverinu í Straumsvík, Krísuvíkurafleggjarann. Vegur 5 ekinn þó nokkurn spöl og eftir að ekið er fram hjá Kleifarvatni er tekin beygja í átt að Þorlákshöfn á veg 427. Frá Þorlákshöfn er ekið til Eyrarbakka og þaðan á Selfoss og svo til Hveragerðis. Loks er keyrt aftur heim til Reykjavíkur á þjóðvegi 1.
TAKA MEл Sundföt, gönguskó, hlýja úlpu, myndavél og Handpicked Iceland kortin frá Í boði náttúrunnar. Þar eru grænir handvaldir staðar um allt land sem stuðla að betri upplifun og hamingju.
HUGMYNDIR AÐ STOPPUM
- Kleifarvatn» Fallegt og djúpt vatn þar sem hægt er að veiða og mögulega sjá skrímslið sem þar býr!
- Háhitasvæðin Seltúni» Fallegar gönguleiðir milli hveranna.
- Strandarkirkja» Þykir launa áheit vel. Í fjörunni fyrir neðan kirkjuna má sjá seli á skerjum og í sjónum.
- Sundlaugin í Þorlákshöfn» Nýleg sundlaug; rennibrautir, gufa o.fl.
- Hipstur» Allt hráefnið er ferskt og réttirnir gerðir frá grunni. Við mælum með sveppabrauðinu þeirra en um er að ræða súrdeigsbrauð, hlaðið steiktum sveppum, radísum, sósu og piparrót. Alveg geggjað!
- Listasafn Árnesinga í Hveragerði» Alltaf flottar sýningar í gangi
- Litla kaffistofan» Alltaf stemming að stoppa í þessari einstöku vegasjoppu og fá sér kaffi og kleinu á leiðinni heim.
Góða ferð!