Númi Þorvarsson hefur búið í Noregi undanfarin 14 ár og stundar myndlistarnám við Listaháskólann í Bergen. Hann byrjaði að taka myndir þegar hann fékk að gjöf sína fyrstu myndvél árið 2000 og hefur myndað af miklu kappi síðan.
Hver voru þín fyrstu skref sem ljósmyndari?
Þetta byrjaði allt með því að ég fékk gefins Nikon FG20 myndavél og Mamiya 645 myndavél frá föður mínum. Á þeim tíma hafði ég ekki hugmynd um af hverju ég ætti að taka myndir svo að ég fór að mynda mitt daglega líf. Ég tók myndir af öllu sem átti sér stað eða ég sá í vinnunni eða heima við og tók margar myndir af vinum og fjölskyldu. Á þessu tímabili kviknaði fyrst áhugi minn fyrir tæknilegu hliðinni af ljósmyndun og ég tók mig til bjó til mitt fyrsta myrkarherbergi.
Hver var kveikjan af þessum myndum?
Serían Eyðibýli var skólaverkefni sem ég vann á meðan ég stundaði nám við listaháskóla í Osló. Þetta er í raun sería um týpógrafíu sem er innblásin af verkum hjónanna Bernd og Hillu Becker sem unnu með endurtekningu í ljósmyndum sínum af iðnaðarbyggingum og vatnsturnum. Ég ákvað því að fara til Íslands eina helgi í Nóvember 2007 og sjá hvað ég myndi finna mörg eyðibýli og gera tilraun til þess að skapa þessa endurtekningu sem mér fannst svo falleg, í mínum ljósmyndum.
Hverju ertu að reyna að ná fram í seríunni?
Ég geri mér grein fyrir því að öll húsin eiga langa sögu en það var ekki nauðsynlegt fyrir mig að þekkja hana. Vonandi búa áhorfendur til sína eigin sögu um húsin. Þessi ljósmyndasería hefur enga pólitískan eða sögulegan tilgang og á ekki að benda á, eða varpa upp spurningum um af hverju þessi hús hafa lagst í eyði. Þetta er frekar tilraun til þess að sjá fegurðina í því sem eftir stendur.
Hvaða tæki og tól notaðir þú?
Í þessari seríu notaði ég Hasselblad 501c í fyrsta skipti og varð hugfanginn af hinum fullkomna 6×6 ramma. Síðan þá hef ég einungis notast við þetta snið og náttúrulega birtu. Serían var svo sýnd í galleríi í Barselóna árið eftir og fékk frábærar viðtökur. Eftir það fjárfesti ég loks í myndavél og keypti mér Rolleiflex f 2.8 með 6×6 ramma, og er það eina myndavélin sem ég hef notað síðan þá.
Þessi grein birtist í tölublaði Í boði náttúrunnar, Vetur 2013/14. Kauptu eintak HÉR