Árið 2008 fól vinnuhópur á vegum bresku ríkisstjórnarinnar samtökunum New Economic Foundation að fara yfir rannsóknir á áhrifaþáttum vellíðanar og finna aðferðir til að auka vellíðan og lífshamingju. Samtökin fóru yfir rannsóknir ríflega 400 rannsakenda víða um heim og tóku saman þær aðferðir sem höfðu sterkastan rannsóknargrunn að baki. Fimm leiðir að vellíðan, eða „Five Ways to Wellbeing“, eru afrakstur þeirrar vinnu og má sjá þær hér:
1. Myndaðu tengsl
Myndaðu tengsl við fólkið í kringum þig, fjölskyldu þína, vini, samstarfsfólk og nágranna. Ræktaðu tengslin heima hjá þér, í vinnunni, í skólanum og þínu nánasta umhverfi. Líttu á þessi tengsl sem hornsteina lífs þíns og gefðu þér tíma til að hlúa að þeim. Að byggja upp þessi tengsl styrkir þig og auðgar líf þitt á hverjum degi.
Leiðir til að efla tengslin eru fjölmargar. Tilvalið er að gera eitthvað saman og skapa með því góðar minningar. Það eflir líka tengslin að hjálpast að við þau verkefni sem fyrir liggja.
2. Hreyfðu þig
Farðu út að ganga eða í sund. Njóttu útivistar. Hjólaðu. Farðu í leiki. Ræktaðu garðinn. Dansaðu. Hreyfing færir þér vellíðan og mikilvægast er að finna hreyfingu sem þú hefur gaman af og hentar líkamlegu ástandi þínu og getu.
Það eykur líkurnar á að það takist ef þú færð vin eða ættingja til að vera með þér í hreyfingunni. Flestum finnst bæði skemmtilegra og auðveldara að hreyfa sig með öðrum.
3. Vertu vakandi
Haltu í forvitnina. Taktu eftir hinu óvenjulega. Veittu árstíðabreytingum athygli. Njóttu augnabliksins, hvort sem þú ert úti að ganga, að borða hádegismat eða tala við vini þína.
Vertu vakandi fyrir veröldinni í kringum þig og hvernig þér líður. Að leiða hugann að því sem þú upplifir hjálpar þér að meta það sem skiptir þig máli.
4. Haltu áfram að læra
Prófaðu eitthvað nýtt. Rifjaðu upp gamalt áhugamál. Skráðu þig á námskeið. Taktu að þér ný verkefni. Lærðu að spila á hljóðfæri eða elda uppáhaldsmatinn þinn. Settu þér markmið sem þú munt hafa gaman af að ná. Það er skemmtilegt að læra nýja hluti og eykur sjálfstraustið.
5. Gefðu af þér
Gerðu eitthvað fallegt fyrir vil þinn eða ókunnuga manneskju. Sýndu þakklæti. Brostu. Gefðu af tíma þínum. Taktu þátt í félags- eða sjálfboðastarfi. Hikaðu ekki við að taka að þér verkefni fyrir félagsskap sem þú tengist eða hefur áhuga á. Horfðu út á við og líka inn á við. Að líta á sig og hamingju sína sem hluta af stærra samhengi getur verið einstaklega gefandi og eflir tengslin við fólkið í kringum þig.
FENGIÐ AF HEILSUVERA.IS
Fleiri greinar um heilsu og vellíðan:
Kulnun – settu lífið í hleðslu
Þurfa ofurmenni bara 5 tíma svefn?
LIFUM BETUR – MARTHA ERNSDÓTTIR