Mannfólkinu er ekki eiginlegt að vera í vatni og synda en að vera umlukinn vatni hefur þó, að flestra mati, sérstakega góð áhrif á líkama og sál. Með því að slíta sig úr viðjum vanans og halda áfram að læra er svo hægt að fá enn meira út úr sundferðinni.
HIN FULLKOMNA ÍÞRÓTT
Að kalla sundið hina „fullkomnu“ íþrótt er kannski fullsterkt til orða tekið en það er erfitt að finna aðra íþróttagrein sem getur borið þennan titil. Sundið þjálfar hjarta og lungu betur en flestar íþróttir, eykur vöðvastyrk, þol, sveiganleika og minnkar stress og er sérstaklega góð forvörn gegn vöðvabólgu. Í sundi notum við fleiri vöðva en í nokkurri annarri íþrótt, að gönguskíðum undanskildum. Þrátt fyrir það fer sundið betur með liðamót en nokkurt annað sport og er nær meiðslalaust, sem er ólíkt íþróttum á landi þar sem bak-, hné- og önnur meiðsl eru algeng. Svo geta nær allir, burtséð frá formi, þyngd eða aldri, stundað sund.
Flest vitum við að sund er gott fyrir okkur en það er oft og tíðum ekki síður andlegi ávinningurinn sem dregur okkur í tíma og ótíma ofan í sundlaugina. Hópurinn sem stundar sund reglulega sér til heilsubótar er mjög stór hér á landi. þrátt fyrir það myndu flestir svara neitandi ef þeir væru spurðir hvort þeir hefðu bætt sig í sundi á einhvern hátt síðastliðið ár. Kannski farið á skriðsundsnámskeið, aukið vegalengdina eða úthaldið eða jafnvel séð einhvern líkamlegan ávinning. Ég verð að játa að ég var ein af þeim sem hugsuðu ekkert út í slíkt. Ég var vön að synda í ákveðinn tíma, tók smásprett í lokin og dýfði mér í pottinn í nokkrar mínútur og hugsaði ekki meira út í það. En dag einn ákvað ég að breyta þessu og nýta sundið betur, m.a. til að byggja upp vöðva, eða a.m.k. viðhalda þessum litlu sem fyrir voru. Það fyrsta sem mér datt í hug var að kaupa mér sundblöðkur til að synda með á fótunum og styrkja þannig lær- og magavöðvana. Því næst fór ég á netið til að kynna mér einhverjar sund-rútínur sem ég gæti tekið upp en komst að óvæntri niðurstöðu; ég hafði gleymt einum mikilvægasta vöðva líkamans, heilanum!
TERRY LAUGHLIN og reglurnar fimm
Það var bókin Total Immersion eða Algerlega umlukin (í slæmri þýðingu) eftir sundþjálfarann Terry Laughlin sem setti hugmyndir mínar um stinnan líkama í smá biðstöðu. Ég lagði sundblöðkurnar á hilluna í bili og fór að skoða og æfa mig í því sem Terry kennir. Hugmyndafræði hans snýst ekki um það að byggja upp vöðva og kraft til að komast hraðar áfram heldur minnka mótstöðuna og þjálfa sundtæknina, spara líkamlega orku og vera í núinu eða svokölluðu FLÆÐI.
Terry Laughlin kenndi sjálfum sér að synda þegar hann var um átta ára að aldri. Sem unglingur fór hann að æfa sund með það eitt að leiðarljósi að synda hraðar, sem aftur þýddi fleiri og lengri æfingar og áherslu á að byggja upp vöðva og þol. Það var ekki fyrr en hann hætti að æfa upp úr tvítugu, fór að þjálfa aðra og horfði á sundtökin frá bakkanum að hann áttaði sig á mikilvægi tækninnar. Með óþrjótandi tilraunum tókst honum að finna leið til að kenna aðferðir sínar með mjög góðum árangri; aðferðum sem hann lýsir í bók sinni Total Immersion sem kom út þegar hann var um þrítugt. Hann fór aftur að æfa sund sjálfur sér til ánægju og hefur tekið þátt í allmörgum maraþonkeppnum í sundi. Hann var 55 ára þegar hann tók í annað sinn þátt í um það bil átta klukkustunda löngu sundi í kringum Manhattan og gerði það með mun færri sundtökum en aðrir þátttakendur og á betri tíma. Sundaðferðir hans einskorðast þó ekki við þá sem eru að æfa sund heldur henta líka þeim sem eru að synda sér til ánægju og heilsubótar.
Eins og sjá má er sundið fyrir Terry mun meira en að fara frá einum bakka til annars, brenna kaloríum, byggja upp vöðva eða vinna keppni. Á síðustu árum hefur áhugi hans beinst meira að mikilvægi þess að finna tilganginn og hamingjuna í lífinu og hann hefur fundið leið til þess í gegnum sundið.
Terry hefur samið fimm grunnreglur sem vert er að hafa í huga þegar bæta á sundið og bendir á að hægt sé að yfirfæra þessar reglur á lífið sjálft og gera það þannig líka betra.
1. Æfðu út frá hagkvæmni og sjálfbærni. Reyndu að gera minna áður en þú gerir meira. Minnkaðu mótstöðuna áður en þú eykur kraftinn.
2. Æfðu aldrei baráttu. Vinndu með en ekki á móti vatninu.
3. Einbeittu þér meira að heilanum en líkamanum. Að vinna betur áður en þú vinnur meira. Að þjálfa heilann er lykillinn að bættri færni, þoli og hraða.
4. Sund á að láta þér líða vel líkamlega. Hvort sem það er á meðan á sundinu stendur, strax á eftir eða löngu á eftir. Ef ekki, þarftu að skoða fyrstu þrjá liðina betur.
5. Sund á að skapa vellíðan. Ef þú upplifir langvarandi gremju eða finnst þér vera að mistakast af einhverjum ástæðum, þarftu að skoða aftur fyrstu þrjá liðina.
TÆKNI
Gleymdu öllu sem þú hefur lært um sund!
Ef þú kannt ekki að meta sund, finnst það leiðinlegt, jafnvel óþægilegt eða bara frústrerandi, liggur ástæðan oftast í því hvernig þér var kennt að synda eða kennt að hugsa um sund. Ég kannast við þetta af eigin raun. Ég synti ekki í mörg ár eftir að hafa æft sund í fimm ár. Mér fannst ég ekki geta farið í sund nema synda langar vegalengdir, telja ferðirnar samviskusamlega og svo beið ég eftir því að vera búin í stað þess að njóta þess að synda. Það var ekki fyrr en ég fór að slaka á kröfunum að ég fór að njóta þess að stunda sund á ný.
Total Immersion-aðferðin hefur opnað augu mín fyrir enn fleiri nýjum hliðum á sundinu og boðið upp á nýjar áskoranir í sundlauginni sem gaman er að takast á við. Terry kennir til dæmis bæði skrið- og bringusund á annan hátt en ég var vön. Hann reynir að líkja eftir því hvernig fiskar synda og vill meina að við eigum að hugsa okkur að við séum að synda með öllum líkamanum, ólíkt hefðbundnu aðferðinni þar sem handadeildin sér um að toga, fótadeildin um að ýta og líkaminn þar á milli og dregur mann bara niður.
Það eru þrjú atriði sem Terry telur mjög mikilvægt að skilja varðandi sund almennt áður en tæknin er tekin fyrir.
ORKUSPARNAÐUR: Ef við skoðum orkunýtinguna þá notar flest sundfólk 3% orkunnar (hestöfl) til að koma sér áfram í lauginni, á meðan höfrungar nýta 80%. Sem segir okkur að við gætum hæglega nýtt orkuna betur. Einfaldasta leiðin í orkusparnaði er að fækka handatökunum. Því fleiri handatök því meiri orka fer í að hreyfa við vatninu. Því minna busl og færri loftbólur því betri nýting á orkunni og við getum synt lengur án þess að verða uppgefin.
STRAUMLÍNULAGAÐUR: Vatn er 1.000 sinnum þykkara en andrúmsloftið og því mikilvægt að minnka mótstöðuna og reyna að gera líkamann eins straumlínulagaðan á sundinu og mögulegt er og ná góðu jafnvægi og floti í vatninu. Það er mun mikilvægara en að einbeita sér að því að toga sig áfram.
HEILALEIKFIMI: Um og upp úr fertugu fer vöðvakrafturinn þverrandi. Góðar æfingar geta tafið þessa þróun en ekki stoppað hana. Rannsóknir sýna aftur á móti að við getum haldið áfram að vinna með og bætt heilastarfsemina fram að sjötugu. Þess vegna mælir Terry Laughlin með því að við beinum athyglinni meira að heilanum og taugakerfinu en vöðvunum. Það gerum við með því að æfa sundtæknina, einbeita okkur að því sem við erum að gera og komast í flæði.
FLÆÐI eða rútína
Dagarnir hjá okkur eru að miklu leyti byggðir upp á rútínu sem við höfum komið okkur upp í gegnum árin. Eftir því sem við höfum farið lengur í gegnum sömu rútínuna leysum við þau verkefni allt að því hugsunarlaust. Um leið og við mætum í sundlaugina byrjar ákveðin rútína hjá flestum. Við förum úr fötunum og setjum þau í skápinn „okkar“, komum handklæðinu fyrir á sínum vanalega stað og förum í sömu sturtuna, ef hún er þá laus, og þaðan út í laug þar sem við förum í gegnum okkar vanalegu sundrútínu, förum í pottinn og spjöllum við sama fólkið sem er í sinni eigin rútínu. Rútínan er ekkert slæm út af fyrir sig og ef fólki líður vel eftir sundsprettinn sinn þá er það nóg fyrir marga. En við getum ekki metið til fullnustu upplifunina sem við förum í gegnum nema með því að veita henni alla okkar athygli og til þess þurfum við að nota heilann. Ef vel tekst til getum við framkallað svokallað flæði sem svo aftur getur veitt okkur djúpa andlega vellíðan og gert okkur að virkari þátttakendum í eigin lífi.
Sálfræðingurinn Mihaly Cxikszentmihalyi þróaði hugmyndafræðina um flæði. Hann lýsir því þannig að viðkomandi er með fulla athygli og sem eitt með því sem hann er að gera. Þessi einbeitta athygli er líka stundum kölluð gjörhygli og hún er eiginleiki sem við getum öll þjálfað með okkur. Við þurfum bara að einsetja okkur að beina athyglinni að líðandi stund, vera hér og nú; taka eftir því sem við finnum og skynjum í stað þess að leyfa huganum að ráfa út og suður eftir eigin höfði!
Flest okkar hafa verið í flæði einhvern tíma í lífinu við einhverjar ákveðnar aðstæður. Til dæmis þegar við sökkvum okkur svo djúpt í skemmtilegt verkefni að við gleymum hvað tímanum líður og öllu öðru í kringum okkur. Oft krefjast slík verkefni ákveðinnar færni sem maður nýtur að takast á við en um leið er það áreynslulaust. Útkoman er ekki aðalatriðið heldur er það ferlið sem heltekur mann og þegar verkefninu er lokið líður manni vel; er fullur sjálfstrausts og gleði. Flæði getur komið fram hvar og hvenær sem er, hvort sem það er í leik, vinnu eða einföldum rútínuverkefnum eins og að vaska upp eða synda. Til þess að komast í flæði er gott að setja sér markmið; t.d. að synda svo og svo lengi eða vinna í ákveðinni tækni þann daginn, hella sér svo út í verkefnið og gefa því þá alla sína athygli, taka eftir því sem er að gerast í líkamanum og umhverfinu og njóta upplifunarinnar og friðarins sem skapast oft innra með þeim sem fara í flæði. Hvatningin til að synda verður meðal annars að komast í þetta flæði sem verður hin raunverulega umbun. Hraði og þol mun þá aukast nánast af sjálfu sér.
Terry líkir flæði í sundlauginni við hugleiðslu þar sem fókuserað er á eitthvað ákveðið, til dæmis talningu sundtaka, sem virkar þá eins og nokkurs konar mantra sem er síendurtekin og kemur heilanum í ákveðið slökunarástand. Margar rannsóknir á heilastarfseminni í tengslum við gjörhygli og hugleiðslu hafa sýnt fram á að slík iðkun örvar til dæmis minnið, ekki bara um stundarsakir heldur hefur varanleg áhrif.
Vissulega getur verið þægilegt, og jafnvel gagnlegt, að nota tímann í sundlauginni til að hugsa, fá hugmyndir eða greiða úr hinum og þessum flækjum. Þótt það sé ekki auðvelt til að byrja með, og átti ég meira að segja erfitt með að telja sundtökin, þá þarf heilinn stundum einfaldlega á hvíld að halda, hvíld frá hinu vanalega áreiti, um leið og við virkjum önnur svið heilabúsins. Öll höfum við gott af því að vera oftar í núinu, tengjast líkamanum og þeim upplifunum og tilfinningum sem við erum að fara í gegnum hverju sinni og ekki verra ef það örvar heilann í leiðinni!
Í næstu viku verður svo grein með góðum ráðum um hvernig hægt er að bæta skriðsund og bringusund frá bæði Terry Laughlin og Guðmundi Hafþórssyni sundþjálfara.
Greinin birtist árið 2010 í vetrarblaði Í boði náttúrunnar. Annað efni í því tölublaði: Matargjafir, Söl og þari, uppskeran á diskinn, ilmkjarnaolíur o.fl. Kauptu eintak af blaðinu HÉR, aðeins 850 kr. Frí heimsending!