Gulrótasúpa og klassískur Hummus

UPPSKRIFT Helga María Ragnarsdóttir

Í morgun rak ég augun í fullan poka af lífrænum gulrótum sem ég keypti mér í síðustu viku. Þær voru svo fallega skær appelsínugular og fínar og ég hugsaði nánast ekki um annað í dag en það að ég yrði að búa til eitthvað gott úr þeim. Þar sem ég er mjög hrifin af súpum var fátt annað í stöðunni en að útbúa bragðgóða gulrótasúpu. 

GULRÓTASÚPA
5 bollar niðurskornar gulrætur
2 smátt skornir gulir laukar
2–3 saxaðir hvítlauksgeirar
1 msk engifer
1/2 L grænmetissoð
1 dós kókosmjólk
salt og pipar eftir smekk
ólífuolía til steikingar

1. Ég byrjaði á því að steikja laukinn og hvítlaukinn í olíunni í sirka fimm mínútur.
2. Næst bætti ég gulrótunum útí og hrærði þeim vel saman við.
3. Eftir sirka mínútu bætti ég grænmetissoðinu útí og beið þar til suðan kom upp.
4. Þegar súpan var byrjuð að sjóða lækkaði ég hitann og leyfði henni að malla í hálftíma
5. Þegar gulræturnar voru orðnar vel mjúkar slökkti ég undir, hellti kókosmjólkinni útí og kryddaði með salti og pipar.
6. Ég setti súpuna í blandarann og blandaði þangað til hún var orðin silkimjúk. Ef þið eigið töfrasprota mæli ég með því að nota hann frekar, en blandari virkar mjög vel.

Heimagerður Hummus

Ég átti nýbakað brauð úr bakaríi hérna í grendinni og ákvað því að útbúa uppáhalds hummusinn minn líka. Mér hefur ekki gefist mikill tími uppá síðkastið til að elda mér almennilegan kvöldmat svo ég naut þess gríðarlega og borðaði hægt og vel.

HUMMUS
2 bollar kjúklingabaunir
2 rifnir hvítlauksgeirar
1/3 bolli tahini
Safi úr einni sítrónu
2 msk ólífuolía
Vatn eftir þörf
Salt eftir smekk

 

Ég skellti þessu öllu í matvinnsluvélina og blandaði þangað til ég fékk þá áferð sem ég vildi. Ég varð að bæta smávegis af vatni útí því ég vil ekki hafa hummusinn minn of þykkan. Það er best að smakka til og prófa sig áfram.

Það má bæta kryddi í hummusinn ef maður vill. Mér finnst mjög gott að setja nokkra dropa af tabasco sósu eða örlítið af reyktu paprikukryddi.

Tögg úr greininni
, , , , , ,

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.