Lífsstíll og lífsgildi/Lifum betur er fastur liður hér á síðunni þar sem við spyrjum samferðafólk spjörunum úr og fáum innsýn í þeirra lífsvenjur. Með slíku samtali fáum við hugmyndir og innblástur og ekki síður fyrirmyndir á okkar oft á tíðum hlykkjóttu vegferð – til þess að lifa betur.
Gyða Dröfn Sveinbjörnsdóttir starfar sem vörumerkjastjóri hjá Danól, auk þess er hún bloggari, áhrifavaldur og rekur barnanetverslunina Valhneta.
Gyða Dröfn hefur ávallt hugað vel að heilsunni og leggur mikið upp úr heilsusamlegum lífstíl. Eldhúsið er hennar staður, en Gyðu finnst mjög gaman að prufa sig áfram í matargerð og er dugleg að deila með fylgjendum sínum hollum og girnilegum uppskriftum.
Lýstu sjálfri þér í þremur orðum?
Ég bað mömmu um hjálp við þessa spurningu og hún sagði: ákveðin, góðhjörtuð og úrræðagóð. Ég held hún sé nokkurn veginn með þetta en ég myndi sjálf bæta við orðinu forvitin sem mér finnst einkenna mig á margan hátt.
Morgunrútínan þín?
Ég vakna yfirleitt á milli 7 og 8 (eftir því hvað ég snooza mikið) og fer svo fram og drekk mjög stórt glas af köldu vatni. Síðan fer ég í sturtu og út með hundana okkar. Eftir það tek mig til fyrir daginn.
Uppáhaldsmorgunverður?
Hafragrautur, alveg hiklaust! Ég borða reyndar yfirleitt aldrei strax á morgnana, oft bara á milli 11 og 12 en þá fæ ég mér hafragraut með skeið af próteindufti út í eða góðri olíu.
Hvernig viltu kaffið þitt?
Svart! Því sterkara, þeim mun betra, hvorki mjólk né sykur. Helst tvöfaldan ekta ítalskan espresso.
Matarspeki?
Að borða mat sem skemmist, áður en hann skemmist. Ég heyrði þessa setningu fyrir einhverju síðan og mér finnst hún segja allt sem segja þarf. Með því er átt við að borða sem mest af mat eins og hann kemur fyrir í náttúrunni, og sem minnst af mikið unnum mat. Ég er grænmetisæta og borða ekki kjöt, en reyni að „borða regnbogann“ sem oftast og hafa diskinn minn fullan af grænmeti í mismunandi litum.
Hreyfingin þín?
Ég reyni að fara 5-6x í viku í ræktina, þá til að lyfta eða fara í skemmtilega hóptíma. Ég stunda yoga allavega einu sinni í viku en mig langar að gera meira af því. Svo finnst mér dásamlegt að fara út í göngutúra og fjallgöngur.
Ómissandi í eldhúsið?
Kaffivél og blandari – gæti ekki lifað án þeirra!
Þrennt matarkyns sem þú átt alltaf til?
Góð olía, hafrar og hnetusmjör.
Ráð sem þú hefðir vilja gefa yngri sjálfri þér?
Að fyrst og fremst er það heilsan sem skiptir máli, og hún snýst alls ekki um að vera í einhverju ákveðnu formi eða líta út á ákveðinn hátt. Það skiptir svo margfalt meira máli að líða vel en að líta vel út.
Ef við höfum ekki heilsuna, þá höfum við ekki neitt, og þá skiptir engu máli hvernig við lítum út.
Ég hefði líka haft gott af því að heyra ráðið sem ég nefni svo hér í næstu spurningu.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið?
Ekki segja kannski, ef þú vilt segja nei.
Þrjár manneskjur sem veita þér innblástur?
Ég sæki innblástur úr svo ótrúlega mörgum áttum að mér finnst mjög erfitt að nefna ákveðnar manneskjur. Mér finnst við geta lært eitthvað af öllum og ég reyni að hafa það hugfast í daglegu lífi. Það hafa allir bæði kosti og galla og maður getur svo sannarlega lært af hvoru tveggja – hverju maður vill líkjast og hverju maður vill alls ekki líkjast.
Sannleikurinn á bak við velgengni?
Að læra af mistökunum og gera betur næst. Mistök eru einskis virði ef maður lærir ekki af þeim, en án þess að gera þau getur maður aldrei orðið betri. Markmiðasetning er líka mjög mikilvæg, og að standa með sjálfum sér og vera trúr því sem maður trúir á.
Hvað gerir slæman dag betri?
Knús frá hundunum mínum, þeir gera allt betra. Góður göngutúr með podcast í eyrunum hjálpar mér svo að núllstilla mig, en bæði hreyfingin og ferska loftið gera manni gott.
Hvernig hugar þú að andlegri heilsu?
Ég fer í yoga og reyni eftir fyllsta megni að æfa mig í að vera til staðar í núinu og leyfa huganum ekki að reika. Það er ótrúlegt hvað það gerir fyrir allan kvíða og áhyggjur að geta tekið sjálfan sig út úr þessum tilfinningum í smástund og verið bara til staðar í núinu. Annars eru göngutúrar og eldamennska algjörlega mín hugleiðsla. Þegar ég er að elda og stend í eldhúsinu að skera niður grænmeti eða malla eitthvað gott þá á ég minn tíma, og næ að vera í núinu og gleyma stund og stað.
Uppáhaldsheilsuuppgötvun?
Pottþétt þegar ég uppgötvaði töfradrykkinn matcha! Matcha gefur mér góða orku, sem er öðruvísi en orka sem maður fær til dæmis úr kaffi. Það bæði gefur orku en róar hugann á sama tíma, svo allar hugsanir verða skýrari. Matcha er grænt teduft sem maður leysir upp í vatni, og mér finnst best að drekka það heitt með flóaðri haframjólk.
Hvað er það besta við að búa á Íslandi?
Hreina vatnið okkar, maður kann alltaf jafn mikið að meta það eftir að maður hefur verið erlendis. Og hvað við höfum greiðan aðgang að fallegri náttúru til útiveru nánast hvar og hvenær sem er.
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á landinu?
Akureyri, þar sem ég er uppalin. Það er alltaf jafn gott að koma „heim“. Mér þykir líka mjög vænt um Mývatnssveit þar sem ég eyddi miklum tíma þegar ég var yngri, náttúran þar er svo stórbrotin.
Hvert er þitt framlag að bættum heimi?
Ég hef verið grænmetisæta í rúmlega 2 ár, og ég tel að minnkuð kjötneysla stuðli svo sannarlega að bættum heimi. Ég er dugleg að sýna frá grænmetisuppskriftum á mínum miðlum og vonast til að veita fólki innblástur til að draga úr kjötneyslu. Þó að maður gerist ekki grænmetisæta þá þarf alls ekki að vera kjöt í hverri einustu máltíð og það er hægt að útbúa fjölbreyttar og góðar máltíðir bara úr grænmeti!
Hvar líður þér best?
Eiginlega á tveimur alveg andstæðum stöðum! Heima hjá mér í Garðabæ eða Akureyri, eða þá á ferðalagi að uppgötva nýja menningarheima.
Draumaferðalag? Svo mörg! Mig dreymir um að ferðast um allan heim og það eru fá lönd sem mig langar ekki að heimsækja. Efst á listanum þessa stundina er Japan, en ég hef mjög mikinn áhuga á japanskri menningu og tók meira að segja námskeið í japönsku, svo þangað verð ég að fara fljótlega.
Uppáhaldsárstíð?
Haustið er minn tími. Eins ljúft og elsku sumarið getur verið þá líður mér best í rútínunni sem fylgir haustinu.
Uppáhaldsbók?
Matcha bókin mín sem ég er búin að lesa nokkrum sinnum.
Mantra/mottó?
Never a failure, always a lesson.
Verkefni sem eru á döfinni hjá þér?
Fyrir utan dagleg verkefni í leik og starfi þá langar mig að setjast niður og gefa mér tíma í að setja mér markmið fyrir árið. Að skrifa niður markmiðin sín gerir þau svo mikið raunverulegri og að meiri skuldbindingu. Eitt af þeim markmiðum sem ég hef þegar ákveðið fyrir árið er að læra að baka súrdeigsbrauð. Mig hefur lengi langað að kunna að baka gott súrdeigsbrauð, enda finnst mér fátt jafnast á við nýbakað brauð með hummus eða avocado.
Uppáhaldsuppskriftin
Ég á eina alveg ótrúlega einfalda og góða uppskrift af avocado spagettí sem hefur fylgt mér í nokkur ár, og er alltaf jafn geggjuð. Hér kemur hún:
Avocado spagettí
Fyrir 2-3
300 g spagettí
3 lítil avocado
2-3 msk ólífuolía
1-2 msk sítrónusafi
15-20 lauf af basilíku
Salt
Ferskir kirsuberjatómatar, niðurskornir
Spagettíið er soðið samkvæmt leiðbeiningum. Næst set ég avocado, ólífuolíu, sítrónusafa og basilíku í blandara og blanda þangað til það er orðið að mauki. Smakkið endilega til og bætið við basilíku eða sítrónu eftir því sem ykkur finnst, ásamt salti. Þegar spagettíið er tilbúið er vatninu hellt af. Næst helli ég maukinu saman við spagettíið og hræri tómötunum saman við. Tilvalið að bera fram með heitu hvítlauksbrauði!
Fylgist með Gyðu Dröfn á Instagram hér og á blogginu hennar hér.
Lestu fleiri Lifum betur viðtöl hér:
1 athugasemd