Mörg okkar hafa skoðanir, viðhorf eða trú á því hvað við teljum okkur eiga skilið eða geta gert í lífi okkar. Út frá því byggjum við oft drauma okkar og áætlanir um hvernig við ætlum að eyða tíma okkar og dögum og hvernig við stefnum að því að upplifa það sem við þráum. Draumar okkar og áætlanir takmarkast því miðað við það sem við teljum okkur trú um að við getum gert og eigum skilið að upplifa. Það er því mikilvægt að vera meðvitaður um þessi viðhorf okkar. Þessar skoðanir, viðhorf og trú mótast oft af fortíð okkar, barnæsku og svo samfélaginu/umhverfi okkar, því sem við lærðum í gegnum líf okkar að við eigum skilið eða getum gert og hvað samfélagið ,,segir” okkur að við getum gert og eigum skilið.
Hverjar eru þessar skoðanir? Hvaða viðhorf eru þetta sem við höfum? Hverju trúum við að við getum gert og eigum skilið? Hvað segja þessi líka mikilvægu skilaboð innra með okkur um okkur og líf okkar?
Eigum við skilið að þræla fyrir draumum okkar? Vinna eins og skepna fyrir þeim? Eigum við bara skilið að líða vel og vera hamingjusöm ef við erum dugleg? Teljum við okkur eiga ást, umyggju og kærleika skilið ef við erum dugleg? Teljum við okkur eiga draumana okkar skilið ef við vinnum hart að þeim, þ.e. getum ferðast, farið á tónleika, notið hvers og eins dags ef við vinnum hart að því?
Teljum við okkur e.t.v. ekki geta upplifað æðstu draumana okkar? Leyfum við okkur e.t.v. ekki einu sinni að ímynda okkur að við gætum upplifað draumana okkar sem við þráum innst inni? Göngum við svo langt að við sættum okkur bara við það sem kemur til okkar eða sættum okkur bara við slæmt af því að við teljum okkur trú um að við eigum ekki betra skilið?
Sættum við okkur við að lifa lífi í hvorki ánægju né depurð til þess að þurfa ekki að verða fyrir vonbrigðum í lífinu? Til að forðast sársauka…
Það er hollt og gott að kíkja á þessi viðhorf sín sem maður hefur til sjálfs síns og tilverunnar og í framhaldi af því hvet ég ykkur til að skoða hvort þið eruð tilbúin til að trúa öðru um sjálf ykkur og lífið. Hvort þið séuð tilbúin til að trúa því að þið eigið skilið að upplifa vellíðan án þess að þræla fyrir því og hvort þið séuð tilbúin til að trúa því að þið eigið skilið að upplifa drauma ykkar og upplifa meira en bara ,,ekki óhamingju”, heldur hamingju.
Við mótum okkur oft viðhorf, skoðanir og trú í gegnum lífið sem hindra okkur í að upplifa lífið sem við viljum verulega upplifa. Þar kemur einnig inn í að samfélagið hefur áhrif á þessar hugmyndir og við getum villst í þessum skilaboðum og talið okkur trú um að við viljum lifa lífinu öðruvísi, eins og aðrir lifa því.
Megið þið finna viljann innra með ykkur til að breyta þeim viðhorfum sem þið hafið sem hindra ykkur í að upplifa vellíðan og drauma ykkar.