Snorri Ásmundsson myndlistamaður hefur hugleitt árum saman bæði heima við en einnig töluvert á almannafæri. Hann hefur nýtt sér hugleiðsluna á margvíslegan hátt til að kyrra hugann og göfga andann og finnst mikilvægt að sem flestir nýti sér þetta frábæra tól:
Af hverju fórstu upphaflega að hugleiða ?
Ég fór fyrst að hugleiða til að kyrra hugann og fékk strax tröllatrú á hugleiðslu.
Hvernig hugleiðir þú og hve lengi í senn?
Ég hugleiði með því að hæga á öllum líkamanum og tæma hugann og fer með möntrur á meðan ég anda inn og út…eins og t.d. (anda inn) sleppa og (anda út) treysta. Ég hugleiði frá nokkrum mínútum upp í korter. En ég hef auðvitað hugleitt lengur alveg upp í tvo klukkutíma.
Hvar finnst þér best að hugleiða og af hverju?
Þar sem ég er hverju sinni og mér finnst best að hugleiða sitjandi í lótusstellingu.
Hvað gerir hugleiðsla fyrir þig?
Hugleiðsla kemur sér alltaf vel til dæmis þegar maður er að hlusta á innsæið og hlusta á Guð/lífið. Ég trúi að hugleiðsla og jàkvæðar möntrur lækni og heili næstu allt!
Getur þú nefnt dæmi þar sem að hugleiðslan kom sér sérstaklega vel?
Ég hugleiddi í píramídanum mínum á nokkrum torgum, í Reykjavík og Feneyjum um árið 2 klukkutíma í senn og það var mögnuð reynsla og gjörningur í senn.
Hverju mælir þú með fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í hugleiðslu?
Ég mæli með að fólk mikli ekki hugleiðslu fyrir sér því hún er einföld og býr til meiri tíma frekar en að taka tíma. Hún er hvíld frá sjálfinu og tengir mann við alheimsorkuna og alheimsvitundina ef menn vilja. En 5 mínútna hugleiðsla 2 sinnum a dag er gott fyrir byrjendur.
Það eru yfir 70 fríir hugleiðsluviðburðir á FRIÐSÆLD Í FEBRÚAR 8-14 feb. Sjá dagskrána hér