Ilmandi eggjabaka Elfu

UPPSKRIFT Hadda Björk Gísladóttir MYNDIR Karl Petersson

Eggjabaka Elfu (fyrir 8-10 manns)

Hadda Björk Gísladóttir talar um að ilmandi eggjabaka Elfu sé ein af uppáhaldsuppskriftunum hennar. Elfa systir hennar deildi uppskriftinni með henni fyrir um 25 árum síðan. Deigið er dúnmjúkt með stökkri skorpu og fyllingin gómsæt. Mælt er með því að fylgja uppskriftinni alveg eftir fyrst um sinn áður en henni sé breytt og gerðar tilraunir með annað grænmeti.

Deig
200 gr kotasæla
200 gr smjör
260 gr hveiti 
1/4 tsk salt

Fylling
2 msk smjör
1 geiri hvítlaukur, fínt skorinn
1 laukur, fínt skorinn
400 gr dós af heilum tómötum 
1/2 bolli svartar ólífur
1 tsk oreganó (þurrkað er fínt en ferskur sproti er betri)
3 egg
250 ml rjómi
1 bolli rifinn ostur
salt og pipar eftir smekk

Deig
Forhitaðu ofninn í 180° C. Skerið smjörið í kubba og látið það sitja í nokkrar mínútur.
Blandið saman hveiti og salti og hnoðið smjörinu í mixtúruna með höndunum þar til  allt hefur blandast saman. Áferðin ætti að vera eins og grófir brauðmolar. 
Blandið kotasælunni saman við þar til deigið er mjúkt og jafnt. Setjið inn í ísskáp í klukkustund. 
Þegar það er tilbúið, rúllið það út með kökukefli og setjið í bökunarform. 

Fylling
Steikið lauk og hvítlauk í nokkrar mínútur í smá olíu. 
Bætið við tómötum og restinni af hráefnunum og hrærið saman. Ausið blöndunni ofan á deigið í bökunarforminu. Látið ólífurnar vera sjáanlegar efst á bökunni. 
Bakið í 50-60 mínútur og berið fram þegar bakan er við stofuhita.

Í Hrífunesi Guesthouse, sem staðsett er milli Vík og Kirkjubæjarklausturs, blasir landslagið við allt um kring enda fullkominn áningarstaður fyrir ferðamenn sem vilja skoða og upplifa náttúru landsins. Haukur og Hadda, eins og þau eru kölluð, hafa gert upp og rekið gistiheimilið síðan 2010 og hefur mikil uppbygging átt sér stað síðan. En þau bjóða ekki einungis upp á gistingu heldur ljósmyndaferðir, þar sem Haukur fer með ferðamenn um nágrennið í þeim tilgangi að fanga fegurðina. Maturinn sem Hadda hefur veg og vanda að má svo kalla sanna matarupplifun, sem gestir þeirra hafa mært í hástert, og er ómissandi partur af dvölinni í Hrífunesi. Þau tóku sig saman ekki alls fyrir löngu og gerðu skemmtilega matreiðslu- og ljósmyndabók, sem segir sögu þeirra, staðarins og nágrennis á einstaklega fallegan og girnilegan hátt.

lax með engifer

Sjá einnig grein Lax með engifer

Þessi grein er úr sumarblaði Lifum betur – í boði náttúrunnar 2021.