Innigarðar og ræktun

INNIGARÐAR + LIFUM BETUR

TEXTI Sigríður Inga Sigurðardóttir MYNDIR Guðbjörg Gissurardóttir

María Norðdahl hjá Innigörðum segir áhuga á matjurtaræktun hafi aukist mikið undanfarin ár. Innigarðar er sannkölluð græjubúð allra ræktenda því þar fæst hvaðeina sem þarf fyrir ræktun, eða allt frá fræjum upp í fjarstýrð vökvunarkerfi fyrir gróðurhús.

Forræktun og góður jarðvegur

„Við erum með fjölbreytt úrval af lífrænt ræktuðum fræjum fyrir alls konar krydd, salöt, grænmeti og blóm. Það má sá fræjunum beint ofan í moldina en ég mæli með forræktun, sé þess kostur, því sumarið á Íslandi er svo stutt,“ segir María, annar eigandi Innigarða.

„Hjá okkur fæst gæðajarðvegur, sem er í senn loftríkur og léttur og með nákvæmri innihaldslýsingu. Góður jarðvegur er grunnurinn að vel heppnaðri ræktun. Við byrjum alltaf á að finna út hvað á að rækta og gefum fólki góð ráð í takt við það. Sumir ræktendur eru svo spenntir að þeir koma strax í ársbyrjun að kaupa fræ til að undirbúa sig og skipuleggja ræktunina fyrir vorið,“ segir María. En óhætt er að segja að þjónustan hjá Innigörðum sé framúrskarandi góð.

Áhugi fólks hefur aukist

María nefnir að áhugi fólks á ræktun sé með allra mesta móti þessa dagana. „Við fundum fyrir því áður en kórónuveirufaraldurinn skall á, ekki síst meðal ungs fólks og þessi áhugi hefur bara aukist. Þetta er góð þróun sem vonandi heldur áfram. Það er svo mikil gleði fólgin í því að setja niður fræ, fá góða uppskeru og gera úr henni mat.“

Hjá Innigörðum fást blómapottar í fallegum litum, sem mikil prýði er af. Blómapottar úr endurunnu plasti hafa vakið mikla athygli, en þeir eru einstaklega smekklegir og sóma sér vel úti á svölum, á pallinum eða á tröppunum.

Við fundum fyrir því áður en kórónuveirufaraldurinn skall á, ekki síst meðal ungs fólks og þessi áhugi hefur bara aukist. Þetta er góð þróun sem vonandi heldur áfram

Ræktun gerð auðveldari

Þá er ræktun í gróðurhúsum alltaf vinsæl, að sögn Maríu. „Þessa dagana eru margir að kaupa sér gróðurhús eða eru þegar með slík hús við sumarbústaðinn sinn. Hjá Innigörðum fást alls konar tæki og tól til að gera ræktun í gróðurhúsum auðveldari. Við erum t.d. með tímastilli sem setur af stað vökvun á ákveðnum tíma. Það sparar fólki ferðir upp í bústað til að vökva. Hjá okkur fást líka hitastýrðir blásarar til að halda réttu hitastigi í gróðurhúsum en nokkrir sólardagar geta bókstaflega soðið plönturnar,“ segir hún.

Margir hafa horfið frá því að eitra fyrir meindýrum, sem leggjast á plöntur og kjósa heldur lífrænar varnir. „Um er að ræða lifandi skordýr sem skaða ekki plönturnar heldur lifa á meindýrum sem valda skaðanum,“ segir María.

Fyrirtækið dafnar

Verslunin Innigarðar var sett á stofn árið 2007. „Þetta byrjaði allt með ljósaperu og lömpum fyrir gróðurhús. Síðan þá hefur fyrirtækið vaxið og dafnað og vöruúrvalið aukist með hverju árinu. Við erum frumkvöðlar á sviði vatnsræktunar hérlendis. Að rækta í vatni er ótrúlega einfalt en það kallar á súrefnisríkt vatn, góða næringu, hita og birtu. Plönturnar vaxa hratt og gefa stærri og meiri uppskeru en þegar notuð er hefðbundin ræktun. Við erum líka með kerfi sem kallast Autopot og hentar það gróðurhúsum afar vel, ekki síst þeim köldu. Kerfið er alsjálfvirkt og notar ekkert rafmagn. Það þarf aðeins góða vatnsfötu til að halda því gangandi. Með þessari aðferð ræktum við t.d. sterkasta chili-pipar í heimi, habanero-chili, hér í búðinni svo viðskiptavinurinn geti séð afraksturinn,“  segir María að lokum, sem er hafsjór af fróðleik um allt varðandi ræktun.

Vefverslunin innigardar.is er opin allan sólarhringinn. Þar er einnig að finna fróðleik og upplýsingar um ræktun. 

Þessi grein er úr vorblaði Lifum betur – í boði náttúrunnar 2021