Að mínu mati er fátt betra en að byrja daginn með nokkrum góðum jógaæfingum og hollum og næringarríkum morgunverði. Að gera einungis nokkrar einfaldar jógaæfingar við morgunsólina getur haft jákvæð áhrif á okkur út daginn. Við æfingarnar liðkar maður líkamann og undirbýr hann fyrir daginn, nær djúpri og góðri öndun og styrkir einbeitinguna.
Æfingarnar þurfa ekki að vera flóknar né að taka langan tíma. Eina sem þarf að gera er að koma þeim fyrir í morgunrútínunni og hugsa þær sem ómissandi fyrir daginn. Gott er að gera æfingarnar um leið og þú vaknar og áður en þú borðar morgunmat. Komdu þér fyrir þar sem þú hefur smá pláss á jógadýnu ef þú átt, annars á gólfinu.
- Byrjaðu á því að standa saman með fætur, með lokuð augun og hendur í bænastöðu fyrir framan hjartað. Taktu nokkra djúpa andardrætti þannig að þú andar hægt og rólega inn um nefið og út um munninn.
- Opnaðu augun leyfðu höndum að falla niður með síðu og rúllaðu öxlunum litla hringi. Í hverjum hring ýkir þú hreyfinguna aðeins þannig undir lokin fara axlir nálægt eyrum þegar þær fara upp og langt aftur þegar þær fara niður. Gerðu hringina 8 sinnum.
- Næst færirðu hendurnar beint upp í loft, réttir úr olbogunum ef þú getur og hefur axlabreidd á milli handanna. Dragðu naflann inn og passaðu að stífna ekki í öxlum. Hallaðu þér yfir til hægri, teygðu hendurnar með yfir og njóttu þess að finna teygju á vinstri síðunni. Ekki lyfta hælunum upp frá gólfi né fetta bakið. Haltu í 4 andardrætti og skiptu síðan um hlið.
- Þessi æfing er til að liðka bakið. Byrjaðu á því að horfa niður í gólf og rúlla bakinu niður, hægt og rólega. Markmiðið er að ná höndum í gólf. Þegar þú ert komin(n) eins langt og þú kemst grípur þú annað hvort um olnbogana eða ökklana. Finndu stöðu sem hentar best fyrir þig og haltu henni í 8 andardrætti. Gríptu síðan um lærin á þér og togaðu þig nær fótunum. Haltu þeirri stöðu í 4 andardrætti. Síðan losar þú hendur, beygir hnén örlítið og rúllar upp hryggjalið fyrir hryggjalið. Passaðu að höfuðið komi upp seinast.
- Héðan kemur þú þér fyrir í hundinum eða „downward facing dog“. Góða útskýringu af stöðunni er hægt að finna HÉR. Í hundinum hefur þú mjaðmabreidd á milli fóta og axlabreidd á milli handa. Markmiðið er að lengja hrygginn, horfa í átt að nafla, slaka á öxlum og opna herðablöðin, pressa hælum niður í gólf, senda rófubeinið upp í loft og ýta vel niður báðum lófum. Haltu hundinum í 8 andardrætti.
- Í lokinn sest þú niður með krosslagðar fætur, ef þú getur, annars í einhverja aðra þæginlega sitjandi stöðu. Þú setur hendur í gólfið fyrir framan þig, hallar þér svo fram og slakar höfðinu niður í gólf. Ekki stífna í öxlum og haltu báðum setbeinum í gólfi. Haltu stöðunni í 8 andardrætti, komdu síðan rólega til baka og réttu úr bakinu.
- Haltu sömu sitjandi stöðu, settu hendur í bænastöðu fyrir framan hjarta, lokaðu augunum og taktu nokkra djúpa andardrætti eins og þú gerðir í byrjun. Settu þér síðan eitthvað markmið fyrir daginn og þegar þú ert tilbúin/nn stendur þú upp og heldur áfram að gera þig til fyrir daginn.
Að byrja daginn með stífann líkama og í stressi getur haft áhrif á restina af deginum. Gefðu þér endilega tíma í að vakna á morgnana og njóttu þess að gera nokkrar jógaæfingar áður en þú ferð inn í daginn. Hví ekki að vakna nokkrum mínútum fyrr, liðka líkamann, vekja heilann og þar af leiðandi vera enn tilbúnari í að takast á við verkefni dagsins.
Eigðu yndislegan dag!