Jógúrtís með berjum

Uppskrift Gylfi Þór Valdimarsson TEXTI Sigríður Inga Sigurðardóttir MYNDIR Áslaug Snorradóttir

Við hjá Í boði náttúrunnar elskum líka ís eins og flestir Íslendingar en þar sem heilsa og sjálbærni hefur verið okkar aðalsmerki ákváðum við að skora á Gylfa hjá Valdís að gera sérstakan jógúrtís með berjum Í boði náttúrunnar. Gylfi tók vel í slíka áskorun. Í ísnum sem gengur undir nafninu Í boði náttúrunnar leikur Gylfi sér með staðbundin hráefni úr íslenskri náttúru: Hann tekur íslenska skyrið, villt krækiber, birkisýróp að austan og rabarbara úr nærliggjandi görðum og bræðir þetta saman í einstaka blöndu, sem við erum stolt af að hafa átt þátt í að skapa.

Jógúrtís með berjum, chiafræum og birkisírópi

Hráefni
400 gr grískt jógúrt
100 gr rjómi/ má nota mjólk
250 gr berjablanda eða nota t.d
hindber, jarðaber, bláber, brómber.
1/4 nýkreistur safi af sítrónu
70 gr hrásykur
30 gr birkisýróp
1 msk chiafræ
1 msk vatn

Aðferð
Settu jógúrt, rjóma,og chiafræ í skál og hrærðu því saman. Taktu þá næst helminginn af berjunum, skerðu í litla bita og settu í lítinn pott ásamt hrásykri, birkisýrópi og einni matskeið af vatni. Leyfðu suðunni að koma upp og taktu þá  pottinn af. Leyfu blöndunni að kólna í 5 mín. og blandaðu svo við restina og hrærðu vel. Að lokum er restinni af berjunum hrærð rólega saman við ísinn og þetta sett í frysti, í íspinna- eða brauðform.

Þessi grein er úr sumarblaði Lifum betur – í boði náttúrunnar 2017.