Eftir að ég fór að vera meðvituð um skaðsemi spilliefna frá hreinisefnum á náttúruna og ónæmiskerfi okkar þá hef ég alfarið snúið mér að umhverfisvænum hreinisefnum sem ég blanda sjálf. Það er algjör óþarfi að eyða peningum í dýr og umhverfismengandi eiturefni þegar náttúruleg efni úr eldhússkápnum duga jafnvel ef ekki betur.
Efnin sem ég nota eru einungis þrjú og gætu því ekki verið einfaldari eða ódýrari:
- Borðedik
- Matarsódi
- Umhverfisvænn uppþvottalögur
ALMENN ÞRIF
Til að þrífa öll yfirborð, ísskápa að innan og utan, klósett, vaska og bað, blanda ég í spreybrúsa:
1 hluta edik á móti 5 hlutum af vatni og vænan slurk af uppþvottalegi með sítrónuilmi
Mér finnst bestur uppþvottalögur frá Sonett eða Dr. Bronner’s, en ef maður er með lyktarlausan uppþvottalög þá má setja ilmkjarnaolíu að eigin vali út í blönduna (ef þú saknar Ajax-ilmsins þá reddast það með sítrónuilmdropum).
Það er sterk lykt af ediki rétt á meðan maður er að þrífa en sú lykt gufar upp á innan við klukkutíma og eftir er mildur sítrónuilmur eða engin lykt því edik er einnig lyktareyðandi svo ef það er föst reykinga- eða matarlykt á heimilinu þá er edik besta leiðin til að losna við hana, edik er líka besta hreinsiefni fyrir gler, spegla og innan í ísskápa.
Til að þrífa spegla og gler er best að spreyja með blöndunni og þrífa af með gömlum dagblöðum, það er einhver efnasamsetning í prentuninni sem þrífur spegla og gler sérstaklega vel.
SKÚRINGAVATNIÐ
1 bolli edik og slurkur af uppþvottalegi og gólfið verður glansandi hreint.
Matarsódi: Til að ná erfiðustu blettunum nota ég matarsóda sem ég blanda með vatni og bý til nokkurskonar „leðju”.
OFNAÞRIF
Ég smyr „leðjunni” innan í ofninn og læt vera yfir nótt, daginn eftir þríf ég af með svampi. Leiðbeiningar til að þrífa ofna með matarsóda má finna á youtube.
HELLUBORÐ, VASKAR, BAÐ
Matarsóda-leðjunni smyr ég á helluborð og vaska sem eru með fastri skán og skrúbba með grófu hliðinni á svampi.
Endilega setjið nú ljúfa jólatóna á og njótið jólahreingerningarinnar.
Gleðileg jól!
Vala