Jólaveisla græna sælkerans

jólaveisla græna sælkerans

Hér höfum við margar gómsætar uppskriftir sameinaðar í jólaveislu græna sælkerans. Uppskriftirnar eru úr matreiðslubókinni Himneskt að njóta eftir mæðgurnar Hildi og Sollu Eiríks.

Hnetuturn með sætkartöflumús og pekanhnetum

Hráefni
2 msk. ólívuolía
1 laukur
3 hvítlauksrif
2 sellerístilkar
1 rauð paprika
100 g spínat
200 g soðnar rauðar linsur
450 g blandaðar hnetur
200 g gróft hnetusmjör
100 g möndlumjöl
100 g rifinn daiya-ostur
1½ tsk. timjan 
¾  tsk. salvía 
¼ tsk. múskat
1 tsk. sjávarsalt
1 tsk. grænmetiskraftur
½ tsk. chili-flögur

Aðferð
Þurristið hneturnar fyrst á pönnu eða í ofni, látið kólna og saxið gróft. Okkur finnst best að nota heslihnetur, kasjúhnetur og pekanhnetur, 150 g af hverri tegund.  Afhýðið laukinn og saxið smátt ásamt hvítlauknum. Skerið sellerístönglana í mjög litla bita, skerið paprikuna í tvennt, steinhreinsið og skerið í litla teninga og saxið spínatið. Hitið olíuna á pönnu og mýkið laukinn og hvítlaukinn þar á í um 5-7 mín. Bætið þá selleríi og papriku út í og haldið áfram að láta þetta malla í aðrar 5-7 mín. Bætið söxuðu spínati út í og hrærið í um 1 mín. Takið af hellunni og látið kólna. Setjið soðnar rauðar linsur í hrærivélarskál ásamt hnetunum, hnetusmjörinu, möndlumjölinu, daiya-ostinum  og kryddinu og hrærið saman. Bætið laukblöndunni út í og klárið að hræra saman. Mótið kringlótta „turna“, ca 10 cm í þvermál og 3 cm á hæð, og bakið við 200°C í um 15-20 mín.

Sætkartöflumús

Hráefni
2-3 sætar kartöflur, afhýddar og skornar í 2×2 cm bita
½ dl vatn
1 tsk. paprikuduft 
1 tsk. sjávarsalt
½ tsk. kanilduft
¼ tsk. chili-duft

Aðferð
Blandið öllu saman í ofnskúffu og bakið í ofni við 200°C í 12-15 mín. Maukað í skál og smá kókosolía eða önnur olía sett út í til að gera músina mýkri. 

Kryddaðar pekanhnetur

Hráefni
100 g pekanhnetur
2 msk. hlynsíróp
½ tsk. kanill
½ tsk. cayenne-pipa

Aðferð
Setjið hlynsíróp á pönnu ásamt kryddinu og hrærið í. Bætið hnetunum út í og látið veltast á pönnunni í um 2-3 mín. Hrærið stöðugt því annars brennur þessi dásemd.

Setjið 2 cm lag af rótarmús oná hnetuturninn og skreytið með krydduðum pekanhnetum.

Eplasalat

Hráefni
2 lífræn epli
3 sellerístönglar
1 dl granateplakjarnar
10 möndlur

Dressing fyrir eplasalat
3 dl útbleyttar kasjúhnetur
2 dl vatn
2  msk. ólívuolía 
2 msk. sítrónusafi
1 msk. sinnep
1 lítið hvítlauksrif
1 tsk. laukduft
1 tsk. salt
2 döðlur

Aðferð
Kjarnhreinsið eplin og skerið í bita, skerið selleríið í þunnar sneiðar, fjarlægið grænkálið af stönglinum og skerið í bita og steikið á pönnu í 2-3 mín. Takið kjarnana úr granateplinu og ristið möndlurnar á pönnu og grófsaxið. Blandið eplum, grænmeti og granateplakjörnum saman í skál, hellið dressingunni yfir, blandið öllu saman og stráið möndlunum yfir.  

Dressing fyrir eplasalat
Allt sett í blandara og blandað vel saman, kannski þarf að bæta smá meira vatni út í ef blandarinn á í erfiðleikum.

Rósakál og rauðrófur

Hráefni
200 g rósakál
2 rauðrófur
2 msk, kókosolía
1 tsk. fennelfræ
1 tsk. sjávarsalt
1 tsk. paprikuduft
¼ tsk. chili-flögur
nýmalaður svartur pipar
3 grænkálsblöð

Ofan á:
75 g hindber
50 g ristaðar möndluflögur

Aðferð
Skerið rósakálið í tvennt, afhýðið rauðrófurnar og skerið í passlega bita. Setjið bökunarpappír í ofnskúffu og nuddið rauðrófurnar með kókosolíunni og kryddinu og bakið við 200°C í 30 mín. Bætið rósakálinu í ofnskúffuna og bakið í 10 mín. í viðbót. Fjarlægið grænkálið af stönglinum, skerið í bita og léttsteikið á pönnu. Setjið allt í skál með hindberjum og möndluflögum og berið fram.

Jarðarberja- og tómatsalsa

Hráefni
15 jarðarber
5 plómutómatar
2 dl granateplakjarnar
1 búnt ferskt kóríander
¼ rauðlaukur
4 msk. sítrónusafi
rifið hýði af 2 sítrónum
1 msk. ferskt basil
1 msk. ferskt chili-aldin
½ tsk. sjávarsaltflögur
nýmalaður svartur pipar

Aðferð
Skerið jarðarberin og plómutómatana í litla bita, pillið kjarnana úr granateplunum, saxið smátt kóríander, rauðlauk, basil og ferska chili-aldinið. Setjið allt í skál og blandið saman. Kryddið með sjávarsalti og nýmöluðum svörtum pipar.

 

Uppskriftirnar eru úr matreiðslubókinni Himneskt að njóta eftir mæðgurnar Hildi og Sollu Eiríks. Þær héldu úti matarblogginu maedgurnar.is en halda núna uti vefsíðunni healthydottir.is. Ljósmyndirnar tók Addi ljósmyndari.

Sjá einnig Villtir vetrarkransar

Þessi grein er úr vetrarblaði Lifum betur – í boði náttúrunnar 2015-2016.