Guðrún Bjarnadóttir náttúrufræðingur byrjaði að jurtalita þegar hún var að skrifa MS-ritgerð sína við Landbúnaðarháskólann á sviði grasnytja, jafnframt því sem hún skoðaði nytjar í Noregi og á Íslandi allt frá landnámi.
Í gömlu starfsmannahúsi við Andakílsárvirkjun í Borgarfirði býr Guðrún Bjarnadóttir ásamt hundinum Tryggi. Guðrún er náttúrufræðingur og kennir grasafræði og plöntugreiningu við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Hún ver öllum sínum frítíma í að tína vítt og breitt um landið villijurtir sem hún síðan notar til að lita einband. Nú er áhugamálið orðið að fyrirtæki og hægt að kaupa hespurnar hennar bæði innan og utan landsteinanna. Á sumrin opnar hún dyrnar á vinnustofunni sinni, sem hún kallar Hespuhúsið, og þar gefst gestum kostur á að kíkja í litunarpottana og fræðast um íslenska litunarhefð.
„Ég hef ekki farið á námskeið í jurtalitun. Ég keypti gamlar bækur frá fyrri hluta síðustu aldar sem ég hef stuðst við,“ segir Guðrún þegar hún er spurð út í hvernig þetta allt saman byrjaði. Hún segir þessar gömlu bækur þó einungis vera með stórar uppskriftir og vera svolítið frjálslegar í notkun eiturefna. „Mér finnst betra að vinna með minna af garni í einu, í minni pottum, til að halda tengslum við bandið og hafa einhverja stjórn á því, þó að ég vilji alls ekki hafa of mikla stjórn, því að þá hættir þetta að vera gaman.“
ÍSLENSKU LITIRNIR
Íslenska flóran er skemmtileg en tegundafá, að sögn Guðrúnar. „Við náum erfiðlega fram rauðum nema með kúahlandssulli og okkur vantar bláan. Það er talið að blár hafi náðst í gamla daga úr blágresi en sú aðferð gleymdist þegar farið var að flytja inn indígó sem var mun meðfærilegri og gerði það að verkum að íslenskar konur hættu að vesenast með blágresið.
Fjallagrös hafa verið notuð til litunar öldum saman. „Úr fjallagrösunum fæ ég drapplitaðan blæ en tek svo staðið kúahland, keytu, og helli yfir bandið og læt liggja í nokkrar vikur. Með því að nota keytu náðist fram rauður litur í gamla daga sem var kallaður kúahlandsrauður eða íslenskur hárauði, sem voru væntanlega nokkrar ýkjur því liturinn var ekki mjög fallegur, endingarlítill og lyktaði illa. Það er svolítið vesen að safna kúahlandinu en ég bý rétt hjá fjósi þannig að ég hef leyfi til að fara þangað snemma á morgnana til að ná morgunbununni. Svo hleyp ég bara á eftir kúnum með fötu og á góðum morgni næ ég svona 15 lítrum, en ef vel á að vera þarf 150 lítra fyrir 250 grömm af bandi og því er þetta ekki aðferð sem ég nota nema spari til að viðhalda hefðinni.“
Maríustakkur (Alchemilla filicaulis) gefur fallegan mildan gulan lit. „Ég nota blöðin til litunar og hana er víða að finna. Um daginn tíndi ég hana fyrir utan Hreppslaugina, fór aðeins á undan öðrum upp úr,“ segir hún kímin.
Rabbarbarinn er í miklu uppáhaldi hjá Guðrúnu og eru Borgfirðingar duglegir að fara með blöðin til hennar eftir að þeir hafa gert sultu, og einnig ræturnar þegar verið er að stinga upp rabarbaragarðana. „Blöðin gefa gulan lit sem einfalt er að breyta í dökkgrænan með örlítilli efnafræði. Rabarbararótin er alveg einstök og gefur karrí-appelsínugulan lit.“
Lúpínublómin eru einnig skemmtileg til litunar. „Þau gefa grænleitan lit, jafnvel neongrænan og blágrænan. Ekki bláan eins og maður skyldi ætla. Ef litað er með blómum þarf að hafa í huga að litur úr blómum getur upplitast hraðar en litur úr öðrum hlutum plöntunnar. Aðferðin við að lita með lúpínublómunum er sú sama og fyrir lúpínulaufin og meira er betra.“
Í gamla daga voru notaðar súrar plöntur, til dæmis túnsúra, njóli, birki, mjaðjurt og víðir. Í dag vitum við hvers vegna þessar tegundir voru góðar til litunar; sýran er nauðsynleg til að festa litinn. Menn gátu kannski ekki útskýrt efnafræðina á miðöldum en vissu hvað virkaði og hvað ekki.
Þegar Guðrún er spurð út í hvort hún noti eitthvað sem er ekki er tekið beint úr náttúrunni segir hún að það sé ekki margt en að möguleikarnir séu þó margir. „Ég reyni að nota sem mest úr íslenskri náttúru en laukurinn er klárlega fenginn í Bónus. Ég nota rauðlauk og venjulegan lauk, en bara hýðið. Það kemur mjög sterkur gullinn brúngrænn litur úr rauðlauknum, sem er erfitt að lýsa; hann logar alveg og er afskaplega fallegur.“ Úr venjulegum lauk segir hún að komi skærir gulir litir sem henni finnist sjálfri ekki jafn spennandi þar sem þeir virki ekki mjög náttúrulegir svona sterkir og séu ekki hluti af okkar eldri litunarhefð. En þótt laukurinn sé skemmtilegur, sérstaklega fyrir byrjendur í jurtalitun, og gefi sterka liti, er hann ekki mjög litfastur, sem þýðir að þeir litir geta upplitast í sól.
ÓLÍKAR AÐFERÐIR
Litunaraðferðirnar geta verið ýmiss konar. Það fer eftir því hvort plantan er notuð þurrkuð eða fersk og hvaða lit á að ná fram. Sumar þurrkaðar jurtir þarf að leggja í bleyti yfir nótt fyrir notkun, eins og til dæmis rætur, á meðan aðrar má setja beint í pottinn og hefja suðu. Ýmsar tegundir mega ekki sjóða því þá missa þær eftirsótta litatóna.
Best er að nota ferskar jurtir, að sögn Guðrúnar. „Lauf tekin að vori gefa bjartari gulan lit en haustlaufin. Oft má þó ná fram sömu björtu vorlitunum með því að nota minna magn af haustlaufum. Þurrkun er þó góð geymsluaðferð ef sólin skín ekki á jurtirnar. Ég notaði átta ára maríustakk um daginn og litirnir voru jafn góðir og ef hann hefði verið nýtíndur.“
Misjafnt er hve langan tíma tekur að lita. „Þegar ég geri brúnan lit úr litunarskófum (Parmeila saxatilis) getur tekið nokkra daga að fá dökkan lit. Og ef ég hreyfi ekki við því sem er í pottinum fær bandið skemmtilega yrjótta áferð sem þykir flott í dag. Í gamla daga átti allt band að vera með jafnan lit en þetta er bara merki um breyttar áherslur með breyttum tímum. Þetta er mjög þjóðleg litun og hér þarf ekkert alún til að sýra því skófir hafa í sér sýrur. Þetta er aðferðin sem víkingarnir notuðu.“
UPPSKRIFTIN
Jurtalitun flokkast ekki undir nein geimvísindi, segir Guðrúnu. „Ég geri lítið af því að vigta jurtirnar og það er vonlaust að ná nákvæmlega sama lit tvisvar; ég þekki bara minn slump. Það helsta sem þarf að hafa í huga við jurtalitun er að virða náttúruna og taka ekki of mikið af jurtunum, passa upp á efnafræðina, nota eins lítið og hægt er af „vondum“ efnum eins og til dæmis kopar, sem er notaður fyrir græna liti, en hann er slæmur fyrir umhverfið, heilsuna og bandið sjálft sem brotnar hraðar niður með sterkum efnum. Menn nota misjafnar aðferðir við litun og ekkert er endilega réttara en annað; bara finna sína verkferla sem henta hverjum og einum. Gera bara nóg af tilraunum og mistökum og leyfa litnum að koma manni á óvart. Þannig viðhelst áhuginn og litunin verður stöðugt ævintýri.“
GULUR – UPPSKRIFT
Fyrir flestar grænar jurtir virkar uppskriftin sem hér fylgir til að búa til gulan lit.
Efni: 250 g af hvítu einbandi. Leysa 50 g af alúni (fæst í verslun Heimilisiðnaðarfélagsins) upp í 10 lítra potti vel fullum af vatni. Hita bandið í alúnbaðinu að suðu, slökkva svo undir og láta liggja yfir nótt. Litun er efnafræði og það þarf að sýra bandið til að litur festist í því. Einnig er hægt að láta edik í litunarbaðið í staðinn eða láta bandið liggja í ediki fyrir litun.
Plöntur: Lúpínulauf eða aðrar grænar jurtir. Ef fersk lauf eru notuð er gott að fylla næstum pottinn af laufum. Ef blöðin hafa verið þurrkuð er hæfilegt magn 1/3 af pottinum sem er svona rífleg botnfylli.
Tími: Laufin eru látin sjóða í a.m.k. klukkustund en þá eru þau síuð frá og hitinn lækkaður. Bandið er því næst sett út í pottinn og það látið liggja í a.m.k. klukkustund á vægum hita og hrært í með sleif af og til. Bandið á ekki að sjóða. Ef þið viljið sterkari lit, slökkvið þá undir pottinum og látið bandið liggja í honum yfir nótt.
Skolun: Skola þarf bandið vel í volgu vatni þegar það er tekið upp úr pottinum en passið að „sjokkera“ það ekki, það er að segja ekki setja heitt band í kalt vatn og öfugt. Gott er að nota svolítið edik í síðasta skolvatnið til að festa litinn enn frekar.
Þurrkun: Vindið bandið vel og hengið hespuna á kústskaft með eitthvað þungt hangandi neðst til að hespan þorni slétt.
Fyrir sterkari gulan lit, eða jafnvel dimmgulan, má setja hálfan desilítra af salmíaki í volgt skolvatnið, taka gula bandið beint upp úr litunarleginum og setja í salmíaksblönduna í fimm mínútur og skola svo vel og þurrka (muna að nota hanska og grímu).