Kanilsnúðar frá Höfn

Dagný Rós Ásmundsdóttir gaf út matreiðslubókina, Roots eða Rætur – matarferðalag um Ísland, nýlega. Dagný Rós er lítt þekkt á Íslandi en hefur tekist að hrista upp í formföstum Belgum með líflegri framkomu og einlægum sjarma. Hún er þekktur og vinsæll sjónvarpskokkur í Belgíu og hefur gefið út þrjár matreiðslubækur.

Rætur var búin til á matarferðalagi um Ísland. „Það sem mér fannst svo gaman við gerð bókarinnar var að kynnast öllu þessu frábæra fólki og það kom mér skemmtilega á óvart að sjá hvað ungir íslenskir kokkar eru með á nótunum. Það var magnað að sjá kokkinn á Höfn í Hornafirði hringja í sjómanninn, sem fer á veiðar daglega, til að vita hvaða fiskur verði á matseðli dagsins. Heimsækja brugghúsið Jón Ríki. Sjá Gísla Matthías í Vestmannaeyjum tína söl og annað úti í náttúrunni í kringum veitingastaðinn sinn og nýta í eldhúsinu. Einnig var mjög eftirminnilegt að heimsækja gróðurhúsin í Sólheimum þar sem fólk með þroskahömlun fær að njóta sín og fær tækifæri til að vinna virkilega mikilvæg störf. Reynir Pétur, sem er orðinn sjötugur, og alltaf jafn glaður, veitti mér innsýn inn í þennan fallega heim og ég táraðist bókstaflega.“

Dagný Rós segir mikla vinnu við að búa til uppskriftirnar. „Innblástur fæ ég oft á ferðalögum og svo þróast uppskriftirnar á mörgum mánuðum. Ég skrifa þær upp og svo þarf að fínstilla þær og prófa. Ég þoli ekki óvandaðar uppskriftir, sem virka svo ekki þegar maður eldar þær. Ólíkt hinum bókum mínum þá eru kokkarnir sem ég hitti á ferðalaginu einnig með nokkrar uppskriftir í bókinni.“
Andrés Bragason, veitingamaður á Otto Matur og Drykkur á Höfn, gaf Dagný Rós uppskrift af vinsælu kanilsnúðunum sínum til að hafa í bókinni og er óhætt að segja að þeir standi undir væntingum. Það er líka gott að vita af því að það er hægt að bragða á snúðunum á ferðalagi um Höfn.

BESTU KANILSNÚÐAR ÍSLANDS

DEIG
750 ml volgt vatn 
15 g þurrger
20 g sykur
1,2 kg hveiti
2 egg
90 g mjúkt smjör
1 tsk. salt

FYLLING
200 g mjúkt smjör
kanill
700 g hrásykur

GLASSÚR
500 g flórsykur
120 g mjúkt smjör
100 ml mjólk
1 tsk. vanilludropar

AÐFERÐ
Setjið allt hráefnið í hrærivélaskál, í sömu röð og gefið er upp, og hrærið saman í deig.
Látið hefast undir plastfilmu í tvo tíma, eða þar til deigið hefur tvöfaldast.
Fletjið deigið út með kökukefli þar til það er 0,5 cm að þykkt.
Smyrjið smjörinu í fyllinguna yfir allt deigið, dreifið kanil yfir og að lokum hrásykrinum.
Rúllið deiginu upp og límið kantinn niður með smá vatni.
Skerið rúlluna niður í 24 bita og raðið á smurða bökunarplötu, hafið smá bil á milli snúðanna.
Leyfið snúðunum að hefast í klukkutíma við stofuhita.
Hitið ofninn í 180° C. Bakið kanilsnúðana í 12–15 mínútur og látið kólna.
Á meðan má gera glassúrinn í matvinnsluvél.
Þegar snúðarnir hafa kólnað má setja glassúrinn á með sprautupoka.

Tögg úr greininni
,

1 athugasemd

  • Er þetta rétt að það eigi að setja 700 gr af hrásykri í fyllinguna???

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.