Kínóa – stútfullt af næringu

TEXTI OG UPPSKRIFT: Bryndís Ólafsdóttir

Kínóa er stútfullt af næringu sem líkaminn nýtir einstaklega vel. Gott er að næla sér í prótín úr fjölbreyttum fæðutegundum og þá er kínóa tilvalið en það inniheldur 12-18% prótín og allar níu nauðsynlegu amínósýrurnar sem líkaminn þarfnast. Einnig er kínóa glúteinlaust og hentar því þeim sem eru með glúteinóþol.

Hægt er að matreiða kínóa á margan hátt, sem graut, í súpur, pottrétti og salat svo eitthvað sé nefnt. Mikilvægt er að skola kínóað vel til að hreinsa burt efni sem er kallast saponin og er utan á korninu og gerir það biturt á bragðið. Einnig er hægt að leggja kínóa í bleyti yfir nótt og verður það þá auðmeltara og næringarefnin nýtast enn betur.

GRÍSKT KÍNÓA SALAT

Þetta salat getur bæði verið heil máltíð eða hluti af máltíð.

1/2 bolli kínóa (ósoðið)
1 bolli vatn
10 stk kirsuberjatómatar
1/2 rauðlaukur, meðalstór
1 msk sítrónusafi
2 msk ólífuolía
1/2 tsk salt
1 bolli ferskt spínat
1–2 stk avókadó
1/4 bolli fetaostur (valfrjálst)

Skolið kínóað vel og setjið í pott ásamt vatni. Eftir að suðan kemur upp er sett lok á pottinn og látið malla við vægan hita í um það bil 10 mínútur eða þar til allur vökvi er gufaður upp. Kínóað er þá sett í skál og látið kólna.

Skerið niður rauðlauk, tómata, spínat og avókadó og blandið varlega saman við kínóað.

Hrærið saman sítrónusafa, olíu og salti og hellið út á.

Bætið fetaosti við í lokin og skreytið með spínati!

Inkar kölluðu kínóa (e. quinoa) „móðurkornið“ og var það ein af grunnundirstöðum í fæði þeirra.
Tögg úr greininni
, ,

1 athugasemd

Lokað er fyrir athugasemdir