Lifum betur – Guðmundur F. Jóhannsson

Lifum betur er nýr fastur liður hér á síðunni okkar þar sem við spyrjum samferðafólk spjörunum úr og fáum innsýn í þeirra lífsvenjur.  Með slíku samtali vonumst við til að fá hugmyndir og innblástur og ekki síður fyrirmyndir á okkar oft á tíðum hlykkjóttu vegferð – að lifa betur.

Viðmælandi okkar að þessu sinni er Guðmundur F. Jóhannson, lyf- og bráðalæknir á Landspítalanum. Hann hefur verið áberandi í umræðunni um lýðheilsu- og forvarnir en hann var meðal þeirra sem stóðu að alþjóðlegu ráðstefnunni Foodloose í Hörpu árið 2016 þar sem fjallað var um tengsl matarræðis og lífstílssjúkdóma. Guðmundur er víðsýnn læknir og frábær fyrirmynd um hversu mikilvægt er að hlúa að þeim margvíslegu þáttum sem stuðla að góðri heilsu.

Lýstu sjálfum þér í þremur orðum?
Maður er auðvitað minnst dómbær á eigin persónu en það sem kemur upp í hugann er forvitinn, þrár efasemdamaður.

Morgunrútínan þín?
Þar sem ég vinn vaktavinnu eru morgnarnir mínir ansi misjafnir en þá daga þar sem ég lifi eins og venjulega fólkið þá á ég tvo hunda sem taka ekki annað í mál en að fara út í göngutúr um leið og við vöknum. Þegar við komum til baka fæ ég mér yfirleitt einn til tvo kaffibolla, eftir það getur dagurinn byrjað.

Uppáhalds morgunverður?
Sunnudagsbrönsinn með spældum eggjum, beikoni og grískri jógúrt með rjóma og berjum getur bara ekki klikkað.

Hvernig viltu kaffið þitt?
Rótsterkt, svart og auðvitað sykurlaust

Matarspeki?
Ég borða flest allan mat en þumalputtareglan mín er sú að reyna að borða matinn eins nálægt því formi sem hann kemur frá náttúrunnar hendi og forðast öll aukaefni. Sykur og unnin kolvetni reyni ég almennt að halda í lágmarki.

Auk þess reyni ég vanalega að forðast að borða eftir kvöldmat og gef meltingunni frí þar til morguninn eftir.

Hreyfingin þín?
Ég fer eins og áður segir daglega út að ganga með hundana en svo reyni ég að fara tvisvar til þrisvar sinnum í viku í Boot Camp.

Ómissandi í eldhúsið?
Mér finnst skipta mjög miklu máli að eiga góð áhöld, en ég hugsa að ég gæti síst verið án góðra hnífa.

Þrennt matarkyns sem þú átt alltaf til?
Egg, hnetur og grísk jógúrt.

Þrjár manneskjur sem veita þér innblástur?
Þær hafa verið svo margar í gegnum tíðina en síðustu misserin get ég nefnt Tim Ferriss rithöfund, Jurgen Klopp knattspyrnustjóra og konuna mína, Elvu Björk.

Sannleikurinn á bakvið velgengni?
Einu sinni las ég það að hamingjan komi á undan velgengninni, þ.e. að með því að setja stefnuna á að gera það sem vekur áhuga þinn og geri þig glaðan muni á endanum leiða til velgengni. Ég hef reynt að fylgja þessu síðan og er bara býsna sáttur með útkomuna hingað til.

Hvað gerir slæman dag betri?
Knús frá konunni og strákunum mínum.

Hvernig hugar þú að andlegri heilsu?
Því meir sem ég velti því fyrir mér, þeim mun meira kemst ég á þá skoðun að andleg og líkamleg heilsa eru tvær hliðar á sama pening. Það er erfitt að hafa annað án hins. Því reyni ég að sjá til þess að hugsa vel um líkamann til að sálinni líði betur, og öfugt. Mataræðið, svefninn og hreyfingin eru því fyrir mér algjör grundvallaratriði til að líða vel andlega, auk þess sem regluleg slökun og þjálfun í móta hugsanir sínar á jákvæðan og uppbyggilegan hátt skilar sér á endanum margfalt tilbaka.

Uppáhalds heilsuuppgötvun?
Þær eru endalaust margar en ég hefði þó viljað vita það miklu fyrr að það er hægt að ná ótrúlega miklum árangri í styrktarþjálfun með aðeins 15 mínútna æfingu á viku.

Ráð sem þú hefðir vilja gefa yngri sjálfum þér?
Að lesa þetta viðtal við mig:)

Besta ráð sem þér hefur verið gefið?
Spyrðu alltaf af hverju.

Hvað er það besta við að búa á Íslandi?
Hvað það er ótrúlega mikið af framtakssömu og skemmtilegu fólki hérna með ódrepandi bjartsýni og dugnað. Það er bara lygilegt hvað þessi litla þjóð á mikið af fólki í fremstu röð á ólíklegustu sviðum.

Hver er uppáhalds staðurinn þinn á landinu?
Þeir eru svo margir en Vík í Mýrdal er í mínum augum alveg ævintýralega fallegur staður. Svo verð ég að nefna Akureyri og Vestmannaeyjar sem eru líka í sérstöku uppáhaldi.

Hvert er þitt framlag að bættum heimi?
Fyrst og fremst reyni ég að vera góð fyrirmynd fyrir börnin mín og ala þau upp þannig að þau muni láta gott af sér í framtíðinni. Þar fyrir utan reyni ég sjálfur að láta gott af mér leiða í vinnunni minni sem bráðalæknir á LSH og sem þáttakandi í lýðheilsu- og forvarnarumræðunni.

Hvar líður þér best?
Á mínum æskuslóðum í og við Fossvogsdalinn.

Drauma ferðalag?
Það eru svo margir staðir sem ég á eftir að heimsækja þannig ætli ég verði ekki að segja að það sé nokkurra mánaða heimsreisa um S-Ameríku, Afríku, Asíu og Eyjaálfu… sennilega erum við þó að tala um einhver ár hérna ef ég á að vera raunsær

Uppáhalds árstíð?
Ég er algjört vor- og sumarbarn og líður aldrei betur en í sólskini og hita.

Uppáhalds bók?
Sú bók sem hefur kannski haft mest áhrif á mig síðustu árin er “Seven Habits of Highly Effective People” eftir Stephen Covey. Mín skoðun er einfaldlega sú að mannkynið væri á betri stað ef allir læsu þessa bók og tileinkuðu sér innihaldið.

Mantra/mottó?
Þegar þú talar ertu einungis að endurtaka það sem þú þegar veist. Ef þú hlustar gætirðu lært eitthvað nýtt.

Viltu gefa okkur eina uppáhalds uppskrift í lokin?
Ég er mjög mikið inni á þeirri línu að halda hlutunum eins einföldum og mögulegt er og það endurspeglast í matseldinni þar sem mér finnst maturinn oftast bestur þegar innihaldsefnin eru fá og matseldin einföld.

Þessi uppskrift af aspasfrönskum er til dæmis mjög einföld og bragðgóð.

Umsjón: Karítas Hvönn Baldursdóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.