Njótum haustsins

Af öllum árstíðunum finnst mér haustið kröfuharðast. Eftir afslappað sumarfrí þarf maður skyndilega að takast á við rútínu vetrarins, koma öllu af stað og skrá niður hver er að gera hvað, hvenær og hvers vegna og þurfa svo að púsla öllu saman til þess að allt gangi upp. En því má ekki gleyma að haustið er einnig ein fallegasta árstíðin með sína dásamlegu litasinfóníu; þangað til næsti stormur kemur og allt verður grátt á augabragði. Og notalegt myrkrið tekur við af löngum sumarnóttum með kósí kertaljósum og tilheyrandi. Hjá sumum er haustið uppáhaldsárstíðin þegar sú aldagamla hefð, eða eigum við að kalla það þörf, að safna til vetrarins lætur á sér kræla. Uppskeran er tekin úr matjurtagarðinum, berja- og sveppatínsla heltekur marga sem skoppa æstir á milli þúfna og lerkitrjáa. Mín reynsla er sú að ef ég staldra við á þessum tíma og skipulegg veturinn, safna í frystinn og geri nákvæma stundatöflu, líður mér miklu betur og veturinn verður allur smurðari. Eflaust eru þetta forn gen sem voru til staðar þegar við þurftum sannarlega að vera hugmyndarík og úrræðagóð til lifa af veturinn.

Eflaust eru þetta forn gen sem voru til staðar þegar við þurftum sannarlega að vera hugmyndarík og úrræðagóð til lifa af veturinn

Í blaðinu er því miður engin skipulagsgrein en þar sem við leitum aftur inn á haustin og flestir hefja aftur vinnu, ákváðum við að koma með nokkrar hugmyndir að því hvernig við gætum undið ofan af okkur þegar við komum lúin heim úr vinnunni og notað skynfærin til hjálpar. Þannig má taka mjúklega á móti haustinu. Við lítum svo aðeins yfir sumarið sem leið og spjöllum við skálavörð í Breiðuvík, gistihúseiganda og steina- og beinasafnara. Við hugum einnig að fuglunum, sem ekki má gleyma yfir veturinn, og útbúum girnilegar matargjafir handa þeim. Tökum inn haustlitina í gegnum fallegan haustkrans, gerðan af Hlín blómakonu o.fl. o.fl. Við vinnslu þessa blaðs fór talsverður tími hjá mér í að skoða umhverfisvæna bíla, prufukeyra og svo skrifa grein sem ég myndi sjálf skilja. Það var sannarlega áskorun því að ég hef hingað til fyrst og fremst litið á bíla sem tæki til að koma mér á milli staða, en eftir þessa reynslu stefni ég svo sannarlega á það að eignast einn slíkan.

Njótið haustsins!
Guðbjörg

IMG_1919


P.s. SMELLTU Á TÍMARITIÐ OG SKOÐAÐU SÝNISHORN ÚR BLAÐINU.

 

 

Nú er hægt að kaupa stakt eintak beint frá okkur…. FRÍ heimsending!

Forsíða haust 2014

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.