NÝTT TÖLUBLAÐ : JÓL OG NÝÁR

Nýtt tölublað Í boði náttúrunnar kemur til áskrifenda og í verslanir í vikunni! Í fyrsta sinn gefum við út tvískipt blað með tveimur kápum, ein fyrir jól og önnur fyrir nýtt ár.

Í jólakaflanum gætir ýmissa grasa en þar má til dæmis finna súkkulaði- og kokteilauppskriftir, sögu jólakortanna, útsaum, magnaða sögu Sesselju á Sólheimum, viðtal við Dísu Anderiman athafnakonu og bónda og margt fleira.
Nýárskaflinn er fullur af  fróðleik sem tengist andlegri heilsu eins og vellíðan á vinnustað og leiðum til hamingju en einnig er ítarleg umfjöllun og leiðir til að fyrirbyggja kulnun, sem allir ættu að kynna sér.

HÆGT ER AÐ KAUPA BLAÐIÐ HÉR.

SÝNISHORN AF BLAÐINU:


Hér fylgir ritstýrupistill Guðbjargar Gissurardóttur sem setur tóninn fyrir blaðið.

Nærum okkur og hlöðum

Fyrir þremur árum fór ég að finna fyrir orkuleysi og þreytu og miklaði hluti fyrir mér, sem var ekki líkt mér. Ég sá allt í einu ekki tilganginn með blaðaútgáfunni, né hvaða gagn ég gerði. Þá var ég búin að gefa Í boði náttúrunnar út í fimm ár, og var jú stolt af þeim árangri, en þetta var enginn dans á rósum. Þrátt fyrir að verkefnin væru flest gefandi og skemmtileg, þá fylgir eigin rekstri líka mikil vinna, áhyggjur og jafnvel samviskubit. Það vildi svo heppilega til að í miðju vonleysinu átti ég, ásamt manninum mínum, bókaða fimm daga ferð á ráðstefnu í Bandaríkjunum. Ég vissi það ekki þá, en þetta var það besta sem gat komið fyrir mig á þessum lágpunkti í lífi mínu, þarna náði ég að kúpla mig frá öllu, fékk innblástur og pepp, og naut þess að eyða tíma með manninum mínum (án barnanna!). Ég kom heim með batteríin fullhlaðin og búin að finna tilganginn á ný með slagorðið okkar í farteskinu, Lifum betur – Eitt blað í einu!

Ég trúi því að góðir hlutir gerist hægt, og þótt við finnum bara eina góða hugmynd í blaðinu sem gerir lífið aðeins betra, þá er það þess virði. Eitt slíkt augnablik átti sér stað í sumar þegar ég sat á teppi úti í guðsgrænni náttúrunni og borðaði kvöldmatinn með mínum nánustu, og þá hugsaði ég: Vá, þetta fallega augnablik er innblástur frá grein í blaðinu mínu.“ Ómetanlegt augnablik í einfaldleika sínum. Í næstu blöðum langar mig að bjóða þér, lesandi góður, að velta þessu fyrir þér um leið og þú ferð í gegnum blaðið, halda því góða til haga og skrifa niður það sem þig langar að gera í framhaldinu. Ég hef tekið frá eina síðu í næstu blöðum þar sem þú getur skrifað niður þínar hugmyndir og haft á einum stað, og rifjað upp hvenær sem er. Að skrifa langanir okkar niður gerir það líka að verkum að meiri líkur eru á að úr þeim rætist. Ég setti þessa síðu í nýárskaflann þar sem slík tímamót eru alltaf kjörið tækifæri til að líta inn á við, skoða og skrifa niður hvað ÞIG langar að gera á nýju ári.

Þetta blað, sem er það fyrsta sem er tvískipt og með tvær kápur, jól og nýtt ár, hefur svo sannarlega gefið mér innblástur og hugmyndir, og sérstaklega hvað vinnuna varðar. Ég hef t.d áttað mig á því hversu alvarlegar afleiðingar það getur haft að keyra sig áfram án þess að staldra við og hlaða batteríin. En það var einmitt kulnun sem var að læðast aftan að mér þarna fyrir þremur árum og hefði getað farið verr ef ég hefði ekki tekið mér endurnærandi frí. Nýárskaflinn er fullur af hugmyndum og fróðleik um það sem við getum gert til að fyrirbyggja andlega kulnun og haldið áfram að vera besta útgáfan af sjálfum okkur.

Jólakaflinn getur ekki klikkað, hver hefur ekki gaman af alvörusúkkulaði, kökum, góðum mat og kokteilum? Svo er ekki hægt annað en að dáðst af og hafa unun af að lesa um konur eins og Sesselju á Sólheimum og Dísu Anderiman, athafnarkonu og bónda. Listrænir einstaklingar skreyta einnig blaðsíður með ljósmyndum og útsaumi og saga jólakortanna er rakin og við veltum fyrir okkur hvort sú gamla hefð sé nokkuð að deyja út!

Það er eitthvað svo notalegt, en um leið sjaldgæft nú til dags, að fá handskrifaða kveðju og ákvað ég því að láta eina slíka fylgja.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.