Í Jógasútrum Patanjali má finna leiðarvísi um það hvernig við getum lifað innihaldsríkara og hamingjusamara lífi. Þessi leiðarvísir kallast Ashtanga eða Áttföld leið og þýðist beint sem Átta útlimir (ashta=átta, anga=útlimur). Þessi vegvísir inniheldur atriði sem beina okkur í átt að sjálfsrækt í víðu samhengi, þau eru; Yama, Niyama, Asana, Pranayama, Pratyahara, Dharana, Dhyana og Samadhi. Oft er talað um Yömurnar og Niyömurnar á sama tíma enda tengjast þær að því leiti að þær fjalla um það hvernig æskilegt er að við komum fram við bæði okkur sjálf, náungann og umhverfið. Yömurnar fókusa á samskipti okkar við aðra, eru meira út á við, en Niyömurnar um það hvernig við hugsum um okkur sjálf, snúa að okkar innra lífi. Sandskrít orðið Niyama þýðir jákvæðar skyldur eða (sjálfs)skoðun.
Fyrsta Niyaman er Saucha eða hreinleiki og í jógafræðunum má finna allskonar hreinsunaraðferðir fyrir líkamann bæði að innan, utan og orkulega séð. Í Tantra jóga er litið á líkamann sem dýrmæta gjöf og að okkur beri að koma fram við hann af virðingu. Þó vissulega sé átt við almennt hreinlæti þá inniheldur Saucha svo miklu meira en það. Við getum hugsað um Saucha sem nálgun í lífi okkar þar sem við viljum létta á því sem hvílir á okkur, hvort sem það eru líkamleg þyngsli eða andleg.
Það sem við borðum hefur áhrif á okkar andlegu og líkamlegu heilsu og er æskilegt fyrir almenna vellíðan að borða hollan og góðan mat í sem náttúrlegasta ástandi. Mat sem ekki inniheldur endalaust af aukaefnum, efnum sem við höfum oft á tíðum ekki hugmynd um hvað eru þegar við lesum innihaldslýsingar á matvælaumbúðum. Við finnum það öll að þegar við borðum óhollan eða mikið unnin mat, að við verðum þyngri á okkur og orkuminni. Með langvarandi slæmu mataræði geta komið upp allskonar líkamlegir kvillar eins og yfirþyngd, léleg melting, hjartasjúkdómar og svo mætti lengi telja. Á móti, þá erum við léttari á okkur og orkumeiri ef við erum að borða ferskan mat í náttúrulegu ástandi. Alveg eins og það er hægt að vera þungur á sér líkamlega er einnig hægt að upplifa andleg þyngsli.
Saucha biður okkur um að skoða hvert við leyfum hugsunum okkar að fara. Erum við að velta okkur upp úr neikvæðum og niðurrífandi hugsunum eða leggjum við okkur fram við að beina huga okkar í jákvæðari og uppbyggilegri farveg. Það á bæði við gagnvart umhverfinu, þeim aðstæðum sem koma upp í lífinu, sem og hugsanir okkar í eigin garð og til annarra. Það sama á við um það sem við segjum. Erum við að tala illa um aðra, breiða út slúður eða leggjum við okkur fram um að tala fallega, vanda okkur við það sem við segjum í okkar daglegu samskiptum við fólkið í kringum okkur, hvort sem það eru ástvinir eða strákurinn á kassanum í Bónus.
Það að halda hreinu og snyrtilegu í kringum okkur auðveldar okkur einnig að vera léttari andlega. Flest finnum við mun á því að ganga inn í herbergi þar sem allt er í röð og reglu og hæfilega mikið af húsgögnum, á móti því að vera í rými sem er ofhlaðið af dóti. Þetta á við bæði um heimilið og til dæmis jógasalinn. Þegar við komum í jógatíma getum við vandað okkur við að raða dýnunni okkar fallega, hugsað um að taka ekki meira með okkur inn i salinn en við þurfum að hafa hjá okkur í tímanum, ásamt því að virða svæði annarra jógaiðkenda.
Saucha eða hreinleika má einnig hugsa út frá því að við séum hrein og bein í framkomu, það er að við nálgumst allt í lífinu með kærleikríkum og heiðarlegum ásetningi. Samkvæmt jógfræðunum er okkar upprunalega ástand að vera ástrík, hamingjumsöm og heil. Saucha minnir okkur á að halda huga, líkama og nánasta umhverfi eins tæru og við frekast getum, velja vel hvaða hugsanir við komum með inn í allar aðstæður, hvað við setjum í líkama okkar og að við vinnum í því að vera sem næst okkar innsta kjarna, sem geymir ást, fiðsæld og gleði.
María Hólm