Sögurnar úr Selárdalnum

TEXTI OG MYNDIR Kristján og Elizabeth

Selárdalurinn er ekki allur þar sem hann er séður. Hann er einn nyrsti dalur landsins – og það mætti halda að frasinn „á hjara veraldar“ hafi verið saminn þar – en dalurinn er líka einn sá dulmagnaðasti. Hvítir sandar, hörð náttúra, eitt ríkasta prestakall landsins, 15 milljónir ára gamlar plöntuleifar í hlíðunum í kring, síðasta galdrabrenna landsins og gamlar verbúðir fyrir 2-300 manns.  

Á HJARA VERALDAR

Við hjónin höfum komið hingað síðustu tvö sumur og verið staðarhaldarar í Listasafni Samúels Jónssonar. Gamla íbúðarhús Samúels hefur nýlega verið gert upp og það hefur því farið mjög vel um okkur í dalnum. Við dveljum ein hérna, tveir Reykvíkingar á hjara veraldar. Að búa í safni með gömlum hlutum vekur mann til umhugsunar, að reyna að skilja hvernig tímarnir voru og hvað við getum lært af þeim í dag. Hvað var það sem dreif þessa tvo menn sem lifðu hér lengst af áfram, gerði þá svona skapandi og hvernig var þeirra sambandi háttað hér á hjara veraldar?

Sjálfbært líferni

Þessir tveir menn heita Gísli og Samúel. Annar frá Uppsölum og hinn frá Brautarholti.  Tveir einsetumenn og listamenn andans og handanna.  Hvor hafði sína sögu að segja og þær eru ólíkar. Gísli á Uppsölum vildi fara úr dalnum og skoða heiminn. En örlögin höguðu því þannig til að hann varð eftir heima til að sjá um móður sína og búið. Hans draumar fóru því aldrei lengra en til enda dalsins og gleymdust hægt og rólega, eins og hann sjálfur.

Það má segja að Gísli hafi verið gott dæmi um sjálfbært líferni á Íslandi, áður en það varð að tískufrasa. Hann ræktaði allt sem hann lifði á – jarðarber og rabarbara, grænmetið sitt, kindur og átti eina belju. Ekkert kom að utan nema kaffi og g-mjólk. Til að fá aukaliti í tilveruna ræktaði hann blóm og rósir sem hann setti spegla á bak við svo þau fengu sólargeisla frá öllum hliðum og bjó til skrúðgarða fyrir neðan bæinn sinn. Á kvöldin samdi hann ljóð og spilaði á orgelið sitt. Kannski ekki hugmynd allra um bóhemlíf, en margir í dag eru að leita að lífsstíl eins og Gísli fullkomnaði – þótt það hafi ekki verið hans fyrsta val.

Sitt eigið listasafn

Aðeins neðar í Selárdalnum, hinum megin við kirkjuna frægu sem hafnaði altaristöflunni hans, bjó annar listamaður. Ekki ljóðskáld eða tónlistarmaður eins og Gísli, heldur maður sem hafði ólýsanlega þörf fyrir að skapa með höndunum. Hann missti föður sinn ungur og var „kvalinn upp“ af stjúpföður sínum. Hann endaði svo eftir smá flakk í Brautarholti með konu sinni og börnum. En þau dóu öll frá honum. Þegar hann fékk lífeyrinn þá opnuðust allar flóðgáttir – hann hafði tíma og loksins fjármagn til að skapa það sem hann langaði til. Hann byggði glæsilega steinkirkju utan um altaristöfluna, fyrir listina bjó hann til sitt eigið listasafn þar sem hann stillti upp máluðum myndum, útskurði og skeljaverkum.  Málara stíll hans var einfaldur, en úrskurðinn var ekki hægt að skilgreina – hann bjó til sinn eigin stíl. 

Ferðalag um heiminn

Samúel sá ekki málverk annarra með sínum eigin augum fyrr en hann fór í fyrsta sinn til Reykjavíkur á sextugsaldri og sótti sýningu með verkum Kjarvals. Allt sitt líf ferðaðist hann um heiminn í huganum gegnum póstkort og tímarit – og teiknaði það sem hann sá þar. Hann lifði í dalnum og flaug um heiminn í huganum.

Einangraðir

Það mætti halda að Gísli og Samúel hefðu verið bestu vinir og hefðu stutt hvor annan í sínu lífi og list – eins og listamenn gera kannski nú til dags sem búa nálægt hvor öðrum.  En svo var ekki.  Því jafnvel í dalnum góða – á hjara veraldar – voru þeir einangraðir, hvor í sínu horni.  En þegar við heimsækjum Selárdalinn í dag upplifum við hjónin það ekki þannig. Líf þeirra beggja og list tengir okkur við tímann þar sem miklu var fórnað til að geta lifað lífinu á þann hátt sem þeir vildu. Eða áttu þeir val um eitthvað annað?  En það sem þeirra saga kennir okkur og okkur verður helst minnst fyrir að leiðarlokum er það sem búið er til af hreinskilni og út frá eigin hjarta.  

En hvað er það sem þeirra lífsstíll kennir okkur Reykvíkingum í dag? Jú, að einfaldleikinn skiptir öllu máli. Ekki hvað við eigum mikið, heldur hvað við eigum. Einfaldleikinn gefur okkur tækifæri og svigrúm til að skapa – og búa til eitthvað fallegt. En Gísli og Samúel gerðu það að mestu fyrir sjálfa sig – því enginn var til að njóta þess með þeim. Þeir áttu bara það sem skipti þá máli, hvorki meira né minna. 

Sjálfbærni mögulegur lífstíll

Tíminn hérna hefur líka kennt okkur að sjálfbærni er mögulegur lífsstíll í dag, og jafnvel ennþá mikilvægari en hann var á árunum eftir stríð þar sem hann var ekki beint val þeirra sem höfðu lítið á milli handanna.  Og það sem kannski skiptir mestu máli, en Gísla og Samúel skorti, er að hlúa að samfélaginu í kringum okkur, elska hvert annað og njóta þess að vera saman. Það er það sem við höfum lært af því að vera í Selárdal. 

Sjá einnig grein um Vesturland

Í boði náttúrunnar hefur birt fjölda greina um áhugaverða staði, ferðir og upplifanir um ævintýralandið Ísland.

Handpicked Iceland bæklingar og app

Í boði náttúrunnar gefur einnig út sérsniðnar ferðahandbækur, ferðaapp og ferðakort undir merkinu Handpiced Iceland þar handvaldir eru staðir og upplifanir um allt land fyrir íslenska og erlenda ferðalanga.