Rómantík á Snæfellsnesi

TEXTI OG MYNDIR Guðbjörg Gissurardóttir

Fyrir hrun var planið að gifta sig á Ítalíu, umkringd mínum nánustu í rómantískri sveit með drekkhlaðið ítalskt hlaðborð og ódýr en góð rauðvín. Sá draumur hrundi með bönkunum. Það liðu heil tíu ár þar til gifting barst aftur í tal, sem við létum verða af í látlausri en yndislegri athöfn úti í garði með börnum og foreldrum. Héldum síðan partí fyrir vini og ættingja og í framhaldinu ætluðum við að skipuleggja ógleymanlega brúðkaupsferð á framandi slóðir. 

Látravík

BRÚÐKAUPSFERÐ Á RUNÓLFI RAUÐA

En svo leið og beið og aldrei kom rétta augnablikið fyrr en sumarið 2020! Þá voru rúm tuttugu ár liðin síðan ég og nýbakaður eiginmaður minn höfðum ferðast ein um Ísland, eða fyrir barneignir. Við ákváðum því að plana ógleymanlega ferð á Runólfi Rauða, húsbílnum okkar, sem gerir öll ferðalög að meira ævintýri og njóta þess að vera í fámenninu á Íslandi eins og hér áður fyrr. Snæfellsnes varð fyrir valinu, enda eitt af mínum uppáhaldssvæðum á landinu. Þó svo að við hefðum ekki skipulagt ferðina í þaula, þá settum við niður nokkur atriði á blað, sem við fórum eftir til að tryggja að við kæmum alsæl heim og aðeins skotnari hvort í öðru.

Brúðkaupsferð á Snæfellsnesi
Látravík

10 HUGMYNDIR AÐ BRÚÐKAUPSFERÐ

(eftir 23 ára sambúð)

1. Fara á eldgömlum húsbíl. Hann getur bilað hvenær sem er og skapar óvissu og spennu.

2. Deila einni sæng. Eins og maður gerði hér áður fyrr.

3. Tala ekki um börnin. Upplifa þannig fullkomið ábyrgðarleysi.

4. Taka ,,kossasjálfu“ á hverjum degi

5. Velja næturstað með fallegu útsýni. Helst sem lengst frá öðrum ferðalöngum.

6. Gera vel við sig í mat og drykk og njóta þess að tala saman án truflunar.

7. Bjóða hvort öðru fínt út að borða og splæsa í gott kaffi og meðlæti þar sem það býðst.

8. Koma hvort öðru á óvart. Ein hugmynd er að kaupa góða gjöf úr krúttlegri verslun á svæðinu.

9. Gera eitthvað skemmtilegt saman á hverjum degi. Fara á hestbak, að veiða, í sund eða á söfn og sýningar.

10. Segja nógu oft ,,Ég elska þig“ þrátt fyrir að það virki ýkt til að byrja með.

Þetta virkaði fyrir okkur! Við vorum a.m.k. mun skotnari hvort í öðru í lok brúðkaupsferðarinnar.

Veiði við Hítarvatn
Arnarstapi
Látravík

Í boði náttúrunnar hefur birt fjölda greina um áhugaverða staði, ferðir og upplifanir um ævintýralandið Ísland.

Handpicked Iceland bæklingar og app

Í boði náttúrunnar gefur einnig út sérsniðnar ferðahandbækur, ferðaapp og ferðakort undir merkinu Handpiced Iceland þar handvaldir eru staðir og upplifanir um allt land fyrir íslenska og erlenda ferðalanga.