VESTURLAND
Hrikalegt hraun og hvítar strendur, vatnsmiklir hverir, falleg þorp og fjölbreytt fuglalíf er eitt af því sem einkennir Vesturland. Hérna er frægasti jökullinn, lengsti hraunhellirinn, mest myndaða fjallið og stærsti vatnshverinn. Á svæðinu eru margir af betri veitingastöðum landsins.

LEIÐAVÍSIR UM VESTURLAND
GRÆNIR HANDVALDIR STAÐIR SEM STUÐLA AÐ BETRI UPPLIFUN, SJÁLFBÆRNI OG GLEÐI!

NÁTTÚRA
1. GLYMUR
Upp að næsthæsta fossi Íslands er skemmtileg og mátulega krefjandi tveggja til þriggja tíma ganga frá vegi 47. Fyrir ofan fossinn er hægt að vaða yfir ána og fara niður hinum megin.
2. HRAUNFOSSAR
Töfrandi og hvítfyssandi fossar, sem renna undan gróðursælu Hallmundarhrauni og falla í Hvítá eftir að ekið er eftir vegi 518. Litlu ofar er Barnafoss í stórbrotnu gljúfri.
3. BÚÐIR
Náttúrufegurðin í kringum Hótel Búðir er heillandi en þangað er ekið eftir vegi 54 eða 574. Á svæðinu eru ótal gönguleiðir og notalegt að ganga berfætt/ur í hvíta sandinum með gróðursælt hraunið og fjöllin allt í kring.
4. HELLNAR
Margbreytilegar bergmyndanir einkenna fjöruna þar sem fjöldi sjófugla ræður ríkjum. Þekktastar eru steinboginn Baðstofan, Gataklettur og Valasnös. Frá Hellnum er hægt að ganga að Arnarstapa eftir gamalli, fallegri reiðleið.
5. LÓNDRANGAR
Náttúrulegur klettakastali, sem rís hátt yfir flæðarmálinu, en þangað liggur vegur 574. Klettadrangarnir mynduðust við eldgos úti í hafi við lok ísaldar en síðari tíma hraun hafa svo tengt þá við landið.
6. DJÚPALÓNSSANDUR OG DRITVÍK
Eftir stutta göngu frá bílastæðinu við veg 572 blasir við svört fjaran, umlukin hraunklettum. Áður voru stundaðir sjóróðrar þaðan og aflraunasteinarnir fjórir í fjörunni voru notaðir til að kanna hvort sjómenn byggju yfir nægilegum styrk til að róa eður ei.
7. RAUÐISANDUR
Rauðgylltur sandur svo langt sem augað eygir. Ævintýri líkast er að ganga á sandinum, sem best er að upplifa á tásunum.
8. LÁTRABJARG
Ekki fyrir lofthrædda en fegurðin og útsýnið eru þess virði að leggja leið sína á þennan vestasta odd Evrópu, sem geymir eitt stærsta fuglabjarg heims.
9. DYNJANDI
Það er tilkomumikið að sjá stærsta foss Vestfjarða falla 100 metra niður eftir stölluðu bergi í hlíðum Arnarfjarðar. Upp með fossinum er stígur, sem gefur færi á að njota fegurðarinnar frá mörgum sjónarhornum.
10. LAMBAGILSFOSS Í HESTFIRÐI
Innst í þessum langa mjóa firði kemur tignarlegur foss i ljós, umlokinn rauðskreyttu bjargi. Fossinn er í hvarfi frá þjoðveginum en það er vel þess virði að fara í göngutúr upp að honum.
11. DJÚPAVÍK
Í skjóli hrikalegra fjalla hvílir þessi friðsæla vík, sem a sér stutta en magnaða síldarvinnslusögu. Létt ganga er upp að Djúpavíkurfossi þaðan sem njóta má magnaðs útsýnis.

MENNING OG AFÞREYING
12. LÝSUHÓLSLAUG
Í sundlauginni er náttúrulegt heitt ölkelduvatn beint úr jörðinni, sem talið er hafa heilnæma og græðandi eiginleika. Vatnið er mjög steinefnaríkt og er því grænleitt, óvenjulegt og alveg eins og við viljum hafa það.
Lýsuhóli, Snæfellsbæ
433 9917 / Facebook
13. LÁKI SAILING TOURS
Fátt toppar kvöldsiglingu um Breiðafjörðinn á fögru sumarkvöldi, þar sem hægt er að skoða hvali og fuglalífið og jafnvel renna fyrir fisk. Láki Tours er fjölskyldufyrirtæki, sem sérhæfir sig í siglingum um Breiðafjörðinn.
Nesvegi 6, Grundarfirði
546 6808 / lakitours.com
14. VATNASAFNIÐ
Einstakt safn með 24 glersúlum, fylltum af vatni, sem safnað var úr ís úr mörgum af helstu jöklum Íslands. Þetta er langtímaverkefni, skapað af Roni Horn í fallegu húsnæði með útsýni yfir hafið.
Bókhlöðustíg 19, Stykkishólmi
865 4516 / stykkisholmur.is
15. NORSKA HÚSIÐ
Fyrsta tvílyfta íbúðahús á Íslandi, byggt 1832 úr timbri frá Noregi. Hér upplifir þú heimili frá 19. öld ásamt opinni safnageymslu með munum frá öllu Snæfellsnesi. Safnbúðin er í fallegum krambúðarstíl.
Hafnargötu 5, Stykkishólmi
433 8114 / stykkisholmur.is
16. LISTASAFN SAMÚELS
Í Selárdal er safn af útilistarverkum myndlistarmannsins Samúels Jónssonar (1885-1969). Þetta er drjúgur bíltúr en í leiðinni er tilvalið að skoða búið hans Gísla á Uppsölum sem er í nágrenninu.
Selárdal, Arnarfirði (dreifbýli)
698 7533 / sogumidlun.is
17. SALTVERK
Hér fer fram vinnsla á sjávarsalti þar sem jarðhiti er nýttur við framleiðslu. Hægt er að fá leiðsögn og fylgjast með hvernig sjálfbær saltframleiðsla fer fram og grípa ferskt salt með í ferðalagið.
Reykjanesi, Ísafjarðadjúpi
519 6510 | saltverk.com

VEITINGAR
18. HÓTEL BÚÐIR
Umhverfið og maturinn er eitt helsta aðdráttarafl staðarins, enda lofaður fyrir einstaka fiskrétti og lambakjötsrétti, óviðjafnanlega forrétti og ógleymanlega eftirrétti. Ferskt hráefni úr nágrenninu er uppistaðan á matseðlinum.
Búðum, Snæfellsnesi
435 6700 / hotelbudir.is
19. FJÖRUHÚSIÐ
Einstakar veitingar framreiddar á syllu við stórgrýtta klettafjöru þar sem brimið lemur gamla bryggju. Á matseðlinum er lostæti sem engan svíkur, s.s. fiskisúpa, heimabakað brauð, kökur og vöfflur með rjóma.
Hellnum, Snæfellsnes
453 6844 / fjoruhusid.is
20. VIÐVÍK
Í fallegu húsi við sjóinn með stórkostlegu útsýni til Snæfellsjökuls er glæsilegur hágæða veitingastaður með frábærum mat og þjónustu. Viðvík er fjölskyldurekinn og notar nær eingöngu hráefni úr nærliggjandi umhverfi t.d. sjávarfang úr sjónum í kring.
Hellissandi, Snæfellsnesi
436 1026 / Facebook
21. GILBAKKI CAFÉ
Í fallegu tvíliftu húsi byggt af norskri fyrirmynd, finnur þú úrval af því besta af hlaðborði formæðra okkar auk létta rétta og alvöru espressó. Ómótstæðilegur ilmur úr eldhúsinu, góður útipallur og notaleg stemning gerir heimsókn á þetta litla kaffihús ómissandi.
Höskuldarbraut, Hellissandi
436 1001 / Facebook
22. BJARGARSTEINN
Við sjávarkampinn á Grundarfirði er þetta fallega uppgerða hús, sem er meira en 100 ára gamalt, en hýsir nú framúrskarandi veitingastað. Láttu dekra við bragðlaukana um leið og þú nýtur útsýnisins yfir Kirkjufell.
Sólvöllum 15, Grundarfirði
438 6770 / bjargarsteinn.is
23. HÓTEL FLATEY
Nýveiddur kræklingur, fiskisúpa og lambakjöt er m.a. á matseðlinum á þessu einstaka veitingahúsi í Breiðafirði. Eftir matinn er tilvalið að skella sér á Saltbarinn og prófa Flatjito. Flatey, Breiðafirði
555 7788 / hotelflatey.is
24. FLAK
Í gömlu verbúðinni við höfnina á Patreksfirði má finna skemmtilegan stað sem er allt í senn, krá með fjölbreyttu úrvali af handverksbjór, sjávarfangssjoppa með fiskisúpu sem er ólík öllum öðrum fiskisúpum (vegan útgáfa í boði fyrir grænkera) og menningarhús. Einfalt, staðbundið og gott, er mottóið hér.
Eyrargata, Patreksfjörður
456 0145 / flakflak.is
25. KAFFI SÓL
Ferðalag um Vestfirði verður ekki fullkomnað nema með heimsókn á Kaffi Sól þar sem útsýnið er himneskt og veitingarnar góðar. Guðrún Hanna rekur kaffihúsið á heimili sínu og tekur blíðlega á móti gestum. Í boði eru þjóðlegir réttir eins og kanilsnúðar, rúgbrauð, reyktur rauðmagi, pönnukökur og fleira. Hægt er að kaupa harðfisk sem er unninn á staðnum. Staður sem vermir hjartað.
Neðri-Breiðadal, Flateyri við Önundarfjörð
866 7706 / Facebook
26. DOKKAN BRUGGHÚS
Í hráu iðnaðarhúsnæði við höfnina leynist Dökkan Brugghús, fyrsta vestfirska handverksbrugghúsið. Tilvalið að gera sér dagamun og bragða á því sem rennur úr krönum Dokkunnar.
Sindragötu 11, Ísafirði
788 1980 / dokkanbrugghus.is / Facebook
27. LITLIBÆR
Í steinhlöðnu torfhúsi má fá kaffi og íslenskt meðlæti, gert á gamla mátann. Ef veður leyfir er notalegt að sitja utandyra og njóta útsýnisins.
Skötufirði, Ísafjarðardjúpi
695 5377 / litlibaer.is / Facebook
28. HEYDALUR
Mæðginin Stella og Gísli hafa sett saman matseðil með hráefni frá sínu eigin býli og nágrenni. Veldu á milli bleikju, lambs eða grænmetisrétta á meðan börnin ræða við Kobba, páfagaukinn málglaða.
Mjóafirði, Ísafjarðardjúpi
456 4824 / heydalur.is

VERSLUN Í HEIMABYGGÐ
29. ÚTGERÐIN
Heillandi hönnunarverslun þar sem er lögð áhersla á íslensk hönnunarmerki, t.d. FÓLK Reykjavík, Angan og Farmer’s Market í bland við sælkeravöru og vöru úr héraði. Útgerðin er í Pakkhúsinu, einu elsta húsi á Snæfellsnesi og tilvalið að heimsækja byggðasafnið á efri hæðunum í leiðinni.
Ólafsbraut 12, 355 Ólafsvík
utgerdin.shop / Facebook
30. KRAMBÚÐ NORSKA HÚSSINS
Norska húsið er fyrsta innflutta tveggja hæða íbúðarhús á Íslandi, reist árið 1832. Húsið var reist fyrir Árna Ó. Thorlacius og fjölskyldu hans en þau ráku verslun á sama stað og Krambúðin er nú. Í Krambúðinni er fjölbreytt úrval af vönduðu handverki og hönnun ásamt heimagerðu sælgæti. Í húsinu er einnig Byggðasafn.
Hafnargötu 5, Stykkishólmi
433 8114 / norskahusid.is
31. RJÓMABÚIÐ ERPSSTAÐIR
Barnvænt fjölskyldubú þar sem m.a. er hægt að fá heimagerðan rjómaís, skyr upp á gamla mátann, skyrkonfekt
og osta. Nú eða lífrænt lambakjöt frá nágrönnum þeirra á Ytri Fagradal.
Erpsstöðum, Búðardal (dreifbýli)
868 0357 / Facebook
32. FISKBÚÐIN
Ferskur fiskur þar sem sjálfsafgreiðsla er allan sólarhringinn. Þú skráir kaupin á blað og setur pening í bauk eða millifærir. Auðvelt að grípa með sér á grillið á ferðalaginu.
Strandgötu, Tálknafirði
862 2723 / 893 2723

ANNAÐ
VÍNBÚÐIN
Akranes, Kalmansvöllum 1
Borgarnes, Borgarbraut 58-60
Búðardalur, Vesturbraut 15
Patreksfjörður, Þórsgötu 8
Ísafjörður, Suðurgötu 8
Hólmavík, Höfðatúni 4
4 athugasemdir