Þó að ágúst sé genginn í garð þá er nóg eftir af tækifærum til að skreppa úr bænum í áhugaverðar dagsferðir í góðu veðri. Við tókum saman fjórar ólíkar dagsferðir sem hægt er að fara í sumar, hvort sem er með vinum eða fjölskyldu. Hér er þriðja ferðin en í henni er hið magnaða Snæfellsnes skoðað!
STRANDARFERÐIN – 416 km
Snæfellsnesið er fullt af leyndardómum og náttúruperlum. Eitt fallegasta og fjölbreyttasta landslagið er þar að finna.
Leiðin: Keyrt er úr bænum í gegnum Mosfellsbæ, farið um göngin og keyrt í Borgarnes. Þar er tekinn afleggjari 54 við bæjarmörk út á Snæfellsnesið. Þá er keyrt með stoppum að Hótel Búðum en eftir það er farið yfir Fróðárheiði í átt að Grundarfirði. Áfram er svo keyrt í Stykkishólm. Á leiðinni heim er beygt til vinstri frá Stykkishólmi og haldið áfram á vegi 54 og svo beygt inn á veg 55 sem færir mann loks á veginn í Borgarnes og svo alla leið heim.
Taka með: tómar flöskur, sundföt, myndavél og góða skapið
Hugmyndir af stoppum:
– Ljómalind Borganesi – dásamleg verslun með mat úr héraði og handverki.
– Bjössaróló Borganesi– heimagerð leiktæki í fallegu umhverfi ef krakkar eru með í för.
– Landnámssetrið – tilvalið að fá sér góðan hádegismat.
– Safnahús Borgarfjarðar – Börn í 100 ár er áhugaverð sýning.
– Ölkelda – Stoppa og fylla vatnsílátin af náttúrulegu kolsýrðu drykkjarvatni.
– Langaholt – Frábær matur ef svengdin kallar. Einnig mögnuð strönd.
– Lýsuhóll – sundlaugin er einstök enda fyllt með heitu kolsýrðu vatni.
– Hótel Búðir – gönguferð á ströndinni, heimsókn í krambúðina og heilsað upp á Nagla, hótelhundinn. Veitingar í boði á fallegu hótelinu.
– Leir 7, Stykkishólmi – Keramikverslun og verkstæði
– Kvöldmatur á Stykkishólmi – Borðað á einum af veitingastöðum bæjarins áður en haldið er heim á leið.
Ekki gleyma að taka með HandPicked Iceland kortin eða appið í ferðalagið nú eða nýja fallega Náttúrukortið okkar sem inniheldur 65 áhugaverðir staðir sem vert er að heimsækja og eru merktir inn á þetta handteiknaða náttúrukort.
Góða ferð!