Vistvæn hús

VISTBYGGÐ + LIFUM BETUR

Við verjum 90% af tíma okkar innandyra, og meiri en helming þess tíma heima hjá okkur. En veltir þú því einhvern tímann fyrir þér hvort heimili þitt stuðli að vellíðan og heilbrigði þeirra sem þar búa? Loftgæði, hljóðgæði, birtustig, innra skipulag, náttúruleg efni og lágt kolefnisspor eru meðal þeirra þátta sem lögð er áhersla á í Svansvottuðu raðhúsunum frá Vistbyggð, og getum við lært margt af þeirra hugmyndafræði.

Benedikt Ingi Tómasson
Vistvæn hús

Heilnæm híbýli

Byggingariðnaðurinn hefur ekki farið varhluta af þróuninni í átt að grænni framtíð. Það er ekki langt síðan fyrsta Svansvottaða einbýlishúsið var byggt á Íslandi og nýlega seldi byggingarfélagið Vistbyggð fyrstu Svansvottuðu raðhúsin í Urriðaholtsstræti í Garðabæ. Við spjölluðum við Benedikt Inga Tómasson, framkvæmdastjóra Vistbyggðar, um hugmyndafræðina og kröfurnar sem fylgja því að byggja Svansvottað hús. En það þýðir að kaupendur geta treyst því að fyrirtækin vinni markvisst að því að draga úr umhverfisáhrifum  í öllu ferli framkvæmdarinnar.

Af hverju Svansvottun?

„Ég hef verið í byggingarbransanum í yfir tuttugu ár og fyrir nokkrum árum fórum við hjá Element ehf. að flytja inn umhverfisvænar límtréseiningar. Við sáum að það voru bæði tækifæri og áhugi  á byggingarmarkaðinum fyrir umhverfisvænum húsum og ákváðum að búa til vörumerki í kringum heilnæm og umhverfisvæn híbýli.  Húsnæði er oftar en ekki stærsta  fjárfesting fólks á ævinni en það pælir oft meira í öllu þegar það kaupir sér bíl eða rúm. Íbúðarkaup ráðast oft bara af ákveðnum þörfum, eins og staðsetningu og herbergjafjölda en allt of lítið út frá því hvað það er í íbúðinni sem lætur fólki líða vel. Hljóðgæði, loftgæði o.fl. eru þættir sem geta haft mikil áhrif á líðan fólks. En við höfum trú á því að þetta muni breytast,“ segir Benedikt staðfastur.

Náttúrulegt efnisval

Húsin eru hönnuð af Arkís arkitektum og eru einstaklega vel hönnuð. „Þetta eru timburhús úr krosslímdum timbureiningum sem eru mun umhverfisvænni en steypan. Innanhúss reynum við að hafa timbur sýnilegt, bæði í útveggjum og lofti. Manneskjan sem lífvera hefur ekki þróast jafn hratt og annað í umhverfi okkar. Við erum mikið innandyra og það reynir lítið á skynfæri eins og lyktarskyn og snertingu. Við þekkjum öll hvað okkur líður vel úti í náttúrunni. Að hafa veggi innandyra með sýnilegu timburyfirborði hefur róandi áhrif á heimilisfólkið.“

Vistvæn hús
Vistvæn hús

Góð hljóðvist

Hljóðvist, samkvæmt Benedikt, snýst um meira en að lágmarka það sem heyrist í nágrannanum eða umferðinni. „Við vinnum með hljóðið inni í húsnæðinu sjálfu með hljóðhönnuðum frá Eflu. Þá er reynt að finna leiðir til að halda svokölluðum ómtíma í lágmarki, sem þýðir að það glymur minna. Við þreytumst gjarnan og eigum erfiðara með að einbeita okkur ef það glymur mikið í umhverfi okkar. Við settum t.d. sérstök hljóðísogsloft yfir alrýmin á jarðhæðinni og teppi á efri hæðina og auðvitað dempar viðurinn einnig hljóð meira en t.d. steypa.  

Hrein loftgæði

Til að minnka mengun innandyra hefur oft verið bent á mikilvægi þess að lofta reglulega út. Þetta hefur Vistbyggð leyst með því að koma fyrir loftskiptikerfi í húsunum. „Þetta kerfi blæs reglulega inn fersku lofti í húsið og er í raun óþarfi að opna glugga til að fá ferskt loft. Loftið sem fer inn er fyrst hitað með loftinu sem kemur út. Þetta er svokölluð varmaendurvinnsla, sem sparar jafnframt orku.

Birta og lýsing

Okkur líður gjarnan betur í góðri birtu og þá helst náttúrulegri birtu sem líkamsklukkan okkar er nátengd við. „Það er krafa í Svansvottuðum húsum að uppfylla ákveðin dagsbirtuskilyrði. Við vorum í samstarfi við Lisku, ljósahönnuði, sem lögðu m.a. til að við settum stóran þakglugga fyrir ofan stigaopið þannig að birtan flæddi um allt húsið. Þetta var viðbót við annars stóra stofuglugga.“

Vistvæn hús

Innra skipulag og mannleg tengsl

„Byggingarverktakar selja oft íbúðir sem hágæðahúsnæði vegna kannski dýrra innréttinga eða blöndunartækja. En það eru hlutir sem hægt er að skipta út. Í okkar huga liggja gæðin í innra skipulaginu og í úthugsuðum smáatriðum. Við hönnum húsnæðið þannig að hver fermetri er vel nýttur og ekkert dautt rými. Húsin eru 170 fermetrar og fimm svefnherbergi. Við leggjum einnig upp úr því að húsnæðið sé sveigjanlegt í notkun eftir tímabilum. T.d. að hægt sé að taka niður léttveggi og sameina herbergi. Það er bæði afgirt lóð fyrir framan og aftan hús, sem er gott fyrir barna- og hundafólk. Potturinn í bakgarðinum er einnig með sérinngangi í sturtuna,“ segir Benedikt stoltur um húsin sem eru öll þegar seld.

Eru fleiri heilnæm hús í vinnslu?

„Já það eru nítján 150 fm raðhús í Urriðaholti á teikniborðinu. Þau eru staðsett við golfvöllinn Odd og í næsta nágrenni við Heiðmörk. Þau eru hönnuð með þarfir útivistarfólks í huga, hvort sem um er að ræða göngufólk, golfara, þá sem stunda hestamennsku eða annað sport. Húsin eru ekki með bílskúr en það er herbergi á jarðhæð, sem við köllum frístundarrými og er það með tvöfaldri útidyrahurð þannig að golfbíll kemst þar inn og allur útivistarbúnaðurinn. Húsin eru hugsuð fyrir fólk á miðjum aldri eða fólk með færri börn. Það eru 3-4 svefnherbergi og ekki má gleyma potti og útisturtu á svölunum,“ segir Benedikt stoltur og spenntur fyrir verkefninu sem fram undan er.

Þessi grein er úr vetrarblaði Lifum Betur – í boði náttúrunnar 2021