Sveppir vaxa mjög víða á Íslandi, bæði í láglendi og til fjalla þar sem finna má smærri sveppi. Sveppaflóran virðist þó vera fjölbreyttari og meiri á Norður- og Austurlandi og á Vestfjörðum en annars staðar á landinu. sjá útbreiðslu tegunda á floraislands.is. Sveppaspretta fer einnig eftir árferði, sum ár er allt morandi í sveppum, á meðan önnur ár sést varla neitt af þeim, en hlýtt og blautt veður síðsumars eru hagstæðustu skilyrði fyrir sveppagróðurinn.
Flestar sveppategundir byrja ekki að vaxa fyrr en seinnihluta júlí eða í ágústbyrjun en það fer að sjálfsögðu líka eftir veðrinu. Næringagildið í sveppum er ekki mikið en þeir innihalda þó töluvert hærra hlutfall prótína en kál en svipað af fitu, kolvetnum og trefjum. Margir sveppir innihalda B-, D- og K- vítamín og kantarellur innihalda einnig A-vítamín, sem fer reyndar oftast forgörðum við eldun. En það er auðvitað góða bragðið sem flestir eru jú að leitast eftir!