Þegar Steinvör er spurð hvernig best sé að meðhöndla sveppi kemur í ljós að gott er að hreinsa þá vel áður en þeir eru settir í körfuna. „Þá tekur miklu styttri tíma að ganga frá þeim þegar heim er komið, en það þarf helst að gerast samdægurs. Stundum gleymi ég mér alveg í sveppatínslunni og er svo langt fram á nótt að ganga frá þeim.“
Sveppina notar Steinvör í alls konar rétti, súpur og sósur. „Mér finnst þeir t.d. einstaklega góðir með pasta. Ég leyfi sveppabragðinu algerlega að njóta sín og forðast að nota krydd eða hvítlauk sem geta yfirgnæft bragðið af þeim. Ég sneiði sveppina og þurrsteiki á pönnu, eins og tyrkneskur vinur minn kenndi mér. Vatnið þarf að gufa vel upp af þeim. Síðan bæti ég ólífuolíu og eða smjöri út á pönnuna og steiki sveppina í svolítinn tíma, set þá svo út á gott pasta með góðu salti og nýmöluðum pipar, klettasalati og nýrifnum parmesan. Úr þessu verður dýrindismáltíð.“
Ef ætlunin er ekki að nota sveppina strax er gott að frysta þá eða þurrka. „Ég þurrsteiki þá á pönnu svo vatnið gufi vel upp af þeim, læt þá kólna og set svo í poka sem ég loka og set síðan í frysti. Gott er að hafa pokann vel flatan svo sveppirnir þiðni hratt þegar þeir eru teknir úr frystinum. Mjög mikilvægt er að setja hvorki olíu, smjör né krydd út á sveppina ef það á að frysta þá, því fitan þránar og skemmir bragðið. Það er líka hægt að þurrka þá og setja í krukkur. Þegar ég nota þurrkaða sveppi, t.d. í risotto, legg ég þá fyrst í bleyti og það má alls ekki henda vatninu, heldur á að nota það sem soð í grænmetissúpur, baunasúpur eða sósur. Stundum frysti ég það og nota síðar,“ segir Steinvör.