Rakel Halldórsdóttir – gestaritstjóri Fæða/Food

Fæða og sjálfbærni hefur lengi verið Rakel Halldórsdóttur ofarlega í huga. Rakel er stjórnmálafræðingur, safnafræðingur og listfræðingur að mennt og stofnaði og rak ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum Frú Laugu, bændamarkað í Reykjavík, í sjö ár. Rakel er gestaritstjóri FÆÐU/FOOD í ár en hér má sjá ritstjórapistil hennar sem birtist í blaðinu.

Samfélagið á Núpi í Dýrafirði, þar sem afi og amma
tóku við búi langafa míns og langömmu og ólu upp sín níu börn, einkenndist af vistvænni sjálfsþurft eða sjálfbærni. Þau voru bændur auk þess sem þau ræktuðu grænmeti, stunduðu veiðar og týndu ber og jurtir úr náttúrunni. Allar afurðir náttúruauðlindanna voru nýttar til að fæða fjölskylduna og ekki var gengið á auðlindir umfram það sem þær þoldu, enda hefði það stofnað lífsviðurværi fjölskyldunnar í hættu. Börnin vissu hvaðan maturinn kom og hvernig hann var unninn. Þau lærðu að virða náttúruna og setja verndun og viðhald hennar í forgang, eins og líf þeirra og starf hefur borið vitni síðan.

Á örskömmum tíma í Íslandssögunni hefur gífurlegt fráhvarf frá sjálfbærni átt sér stað. Barn sem venst því að virða náttúruna, afla fæðu úr auðlindum nærumhverfis, beint úr náttúrunni eða frá frumframleiðendum, er líklegra til að halda sig við þann sjálfbæra lífsstíl.

„Engar sögur fóru af því að foreldrum hefði orðið meint af víninu sökum vöntunar á hreinlæti eða mögulegra tásveppa.“

Þegar ég bjó með fjölskyldu minni á Ítalíu, var dóttur minni strax kennt í leikskólanum að nýta afurðir svæðisins. Hún lærði að tína furuköngla og brjóta þá niður með steini til að ná í ljúffengar furuhneturnar, undir skjólsælum laufum gjöfulla trjánna. Þá fóru börnin á nærliggjandi vínekrur og tíndu í stórar körfur þung og safarík vínber af svignandi vínviðnum að hausti undir heitri septembersól, laumandi einu og einu beri upp í sig. Körfurnar voru bornar heim í leikskólann þar sem börnin voru látin stappa berfætt á berjunum í bala við mikla kátínu, svo var safinn færður á flöskur og gert úr vín sem foreldrarnir keyptu til fjáröflunar fyrir leikskólann. Þessi börn urðu ekki hungruð þó að engin matvöruverslun með innpökkuð matvæli væri nálæg og engar sögur fóru af því að foreldrum hefði orðið meint af víninu sökum vöntunar á hreinlæti eða mögulegra tásveppa. Þarna lærðu börnin í gegnum leik um nýtingu náttúruauðlinda, lærðu aðferðir við vinnslu afurða ásamt sögu og hefðum svæðisins. Þarna var stuðst við árþúsunda hefðir í vinnslu, og heilbrigði þó ekki skert. Matvælaöryggi er mikilvægt, en það er fín lína milli þess að vilja tryggja öryggi og valda í raun skaða, eins og þegar umbúðaplast í míkrómynd fer að finnast í lífverum. Tækniframfarir eru jákvæðar, en tæknin getur verið skammsýn og árþúsunda reynsla mikils virði. Þarna þarf að finna hinn gullna meðalveg í anda Platós. Verkefnin eru mörg og vegleiðin löng, en aukin sjálfbærni í nútímasamfélagi er raunverulegur möguleiki.

Íslenska náttúran er okkar gjöfuli fæðubrunnur og þó við höfum ekki epli, appelsínur og vínber til að tína til matar, höfum við næringarrík ber, sveppi, jurtir, sjávarþang, skelfisk og fleira náttúrufang til að tína og njóta, auk afurða frumframleiðenda nærsvæðisins. Styðjum íslenskt og setjum sjálfbærni í fyrsta sæti, samfélaginu til sældar.

Rakel Halldórsdóttir hefur nýverið starfað sem ráðgjafi hjá Matís ohf., og stýrt verkefnum á sviði uppbyggingar og framþróunar íslenskrar frumframleiðslu. Eitt af þeim verkefnum sem hún hefur ýtt úr vör er Bændamarkaður á Hofsósi, en einnig er hún að þróa verkefni sem kallast Krakkar kokka, sem er samstarfsverkefni Matís, Matarauðs Íslands og grunnskóla, og er ætlað að fræða börn í skólum um sjálfbæra neyslu.

Á þeim tíma sem Rakel rak Frú Laugu, sinnti hún nokkrum samfélagsverkefnum á sviði sjálfbærrar og vistvænnar framtíðar. Þar á meðal verkefni um uppfræðslu skólabarna úr Laugarnesskóla um ræktun grænmetis í gróðurhúsi sem Frú Lauga leigði í Laugardal og ræktaði þar grænmeti í tilraunaskyni.

Þá er Rakel stjórnarmaður í Slow Food Reykjavík og hefur á þeim vettvangi hannað og hrint í framkvæmd verkefni sem snýst um að fræða börn um íslenskar matarmenningarhefðir. Rakel hefur auk þess, að hafa búið í Reykjavík og á Hofsósi, búið í smáþorpum á Ítalíu og í Boston og hefur kynnt sér af áhuga sjálfbærni og neyslu í þeim samfélögum.

HÆGT ER AÐ KAUPA NÝJASTA FÆÐA / FOOD > HÉR

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.