Í lóðinni minni á Reykhólum er undirlagið aðallega kísilhrúður sem hefur myndast við hveri. Ef nú stendur til að fá rósarunnana til að blómstra, trén til að vaxa og mynda skjól og sumarblómin til að dafna, þarf að efla jarðveginn svo hann næri betur gróðurinn og haldi betur vatni. Moldin heldur næringarefnum sem gróður nýtir sér við vöxt og viðhald. Ég bý til mold úr afgöngum eldhússins, skít og þörungamjöli. Ég sem sé jarðgeri lífrænan úrgang.
Molta verður til í safnhaug
Áður var molta kölluð skarni. Hann var borinn á tún og garða í Reykjavík og lyktaði vel og mikið. Hann var vorboði. Molta er lengra komin í rotnun og líkist gróðurmold. Uppistaðan er plöntuleifar og annar lífrænn úrgangur. Það sem rotnun þarf er súrefni, – loftun fæst með því að hræra eða búa til loftgöt; raki, ekki samt vökva allt loft úr haugnum; efniviður eins og gras, þunnar greinar, allar leifar úr eldhúsinu og mold. Flest fræ komast þó klakklaust í gegnum moltun nema ef haugurinn nær að hitna verulega. Þeir sem ekki vilja fylla beðin sín af fíflum, sóleyjum, húsapunti og njóla ættu því að forðast að setja þetta dugmikla „illgresi“ í safnhauginn sinn. Nokkrum aðferðum er hægt að beita:
- Halda hænur eða svín. Lykillinn að hröðu niðurbroti er að hafa úrganginn smáan. Það eykur yfirborðið svo að gerlar og vatn komast greiðlega að öllum hlutum. Svín eru rosalegt umbreytiafl, bryðja og eta allt og skila miklu betur meltum úrgangi en til dæmis hestar. Kannski ætti að vera til miðlæg svínastía þar sem þorpsbúar geta fóðrað grísi á afgöngum og krafist skerfs af jólasteikinni þegar líða tekur á haustin. Grísir eru frjálsir af sér og skemmtileg dýr. Þefvís og gáfuð. En þá er lykilatrði að nýta skítinn sem áburð. Þetta er sérlegt áhugamál góðs granna höfundar.
- Grafa úrganginn í mold. Þetta er þægilegt. Grafin er rás til dæmis í kartöflugarð að hausti og tæmt úr söfnunarílátum í eldhúsinu jafnóðum. Síðan er mokað yfir þangað til frost leyfir það ekki lengur. Réttir gerlar fyrir moltuna eru nefnilega í moldinni og gott að blanda alltaf nokkrum skóflum af mold í hauginn sem á að rotna. Þegar frost leysir er mikilvægt að hræra í söfnun vetrarins og koma meira súrefni inn í blönduna. Þetta verður að góðum jarðvegi fyrir kartöflur en gott að gefa honum 2 ár til að rotna að fullu.
- Skila öllu í jarðgerð samfélagsins. Sumum óar við að fá lyktina af rotnandi eldhúsleifum í garðshornið hjá sér. Rotverurnar eru reyndar bestu vinir okkar og skila öllum nauðsynlegum efnum fyrir gróður og fæðuvefinn aftur út í hringrásir. Það getur gerst hraðar þegar aðstæðum er haldið fullkomnum. Eins og í jarðgerðarvél þar sem hæfileg vökvun og hæfileg hitun og loftun flýtir fyrir niðurbrotinu, jafnvel lífrænna plastpoka. En það er líka fínt að fóðra safnfötur með dagblöðum sem brotna enn betur niður.
Og hvílíkur jarðvegur sem út kemur: Léttur, vatnsheldinn og fullur af góðgæti fyrir gróðurinn. Ef við erum dugleg að skila er vélin líka dugleg að skaffa. Að jafnaði er lífrænn úrgangur 1/3 af heimilissorpi. Ef við skilum í moltuna sparast flutningar, auðlindin nýtist á staðnum. Svo verum jákvæð, söfnum, látum rotna og njótum ávaxtanna.
– Soffía frænka.
GREININ BIRTIST FYRST Á VEF REYKHÓLA
1 athugasemd