Sólveig Þórarinsdóttir, eigandi Sólir jóga- og heilsuseturs, er gift Hólmari Loga Sigmundssyni flugmanni hjá Landhelgisgæslu Íslands og saman eiga þau þrjú börn; Karín 8 ára, Sólon 6 ára og Hákon 4 ára. Áhugamál hennar utan jóga og heilbrigðs lífstíls eru samvera með sínum nánustu og best þykir henni ef hún getur sameinað það við útiveru á skíðum, í stangveiði eða bara í rólegheitum við lestur. Framundan hjá henni og Sólum eru spennandi tímar en hún er nýkomin heim frá Tælandi þar sem hún leiddi hóp jógaiðkenda í vel heppnaða jóga- og heilsuferð: „Það eru að koma fjölmargir aðilar úr jógaheiminum til Íslands á árinu sem munu kenna í Sólum en í lok febrúar eigum við von á Mínnar Martinez frá Miami til að leiða Ashtanga workshop og í apríl fögnum við eins árs afmæli Sóla með ýmsum hætti. Svo ber að nefna að í ágúst næstkomandi bjóðum við upp á, fyrsta skipti á Íslandi, kennaranám í hot yoga, RYT200 í samtarfi við Jimmy Barkan.“
Við spurðum Sólveigu nánar út í hugleiðslu og hugleiðsluiðkun í tilefni Friðsældar í Febrúar:
Af hverju fórstu upphaflega að hugleiða?
Ég fékk fyrst bragðið af hugleiðslu í gegnum jóga eða í slökuninni í Shavasana, þá upplifiði ég smástund af kyrrð í huganum sem mér þótti eftirsóknarvert eftir áralangan hávaða í höfðinu.
Hvernig hugleiðir þú og hve lengi í senn?
Dagleg iðkun fór svolítið í vaskinn hjá mér í fyrra þar sem árið var óvenju annasamt og ég sjálf varð hálfgerður afgangur í minni tilveru. Ég fann það mjög sterkt þegar leið á árið og ég varð bæði orkuminni og átti erfiðara með að einbeita mér og fannst ég verða “tætt”. Ég snéri svo við blaðinu og fékk mér árs áskrift af hugleiðslu smáforritinu hans Andy Puddicombe “Headspace” en það tryggir mér markvissa daglega hugleiðslu. Meðaltími hjá mér er um 10-20 mínútur á dag en á góðum degi næ ég klukkustund. Ég á svo mína “hugleiðsluspretti” í jógaæfingunni minni, í jóga nidra, í gong slökun og í leiddri hugleiðslu til dæmis hjá Tolla að ógleymdum stundunum sem ég fæ við samanbrot á þvotti sem er botnlaus í Sólum.
Hvar finnst þér best að hugleiða og af hverju?
Langbest finnst mér að hugleiða í leiddri hugleiðslu með hópi fólks þar sem mér þykir auðveldara að ná dýpt með öðrum þar sem við deilum orkunni. Þar hef ég náð að upplifa Delta tíðni sem er algjör unaður. Ég næ því miður bara sjaldnar þessum skiptum og því hugleiði ég oftast ein.
Hvað gerir hugleiðsla fyrir þig?
Í stuttu máli þá gerir hún mér auðveldara að fúnkera í öllum kringumstæðum. Eins og ég nefndi áðan þá er hún lykilatriði fyrir mig til að halda góðum fókus í þeim verkefnum sem ég tekst á við í daglegu lífi auk þess sem hún eykur rými fyrir aukna velsæld, með því að “taka markvisst til” í höfðinu reglulega skapast þetta rými þar sem óhemju mikill tími fer í endurteknar hugsanir sem við höfum ekkert gagn af.
Getur þú nefnt dæmi þar sem að hugleiðslan kom sér sérstaklega vel?
Nærtækast fyrir mig er að nefna hversu mikinn mun ég finn á mér eftir að hafa tekið hugleiðsluna af fullum krafti með inn í nýja árið. Ég er strax laus við alls kyns athyglisbrestseinkenni eins og að vaða úr einu í annað þegar mikið er að gera.
Hverju mælir þú með fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í hugleiðslu?
Það er algjör óþarfi að rembast við að reyna að tæma hugann, bara gefa sér fyrirfram ákveðnar 10 mínútur á dag og vera í kyrrð og leyfa hugsunum að fljóta hjá án þess að fara inn í þær og greina. Þetta er bara þjálfun sem kemur með æfingunni því hugurinn er ekkert annað en verkfæri sem á að vinna fyrir okkur en ekki öfugt. Einfaldasta leiðin er að nýta sér leidda hugleiðslu og þá koma smáforrit eins og Ást og friður frá Tolla og Headspace að góðum notum.
Við þökkum Sólveigu kærlega fyrir svörin og minnum ykkur á viðburði vikunnar sem skoða má HÉR