Upphaf plasts
Plast er manngert efni, búið til úr náttúrulegum efnum eins og olíu, gasi, kolum, sellulósa og salti. Uppruna orðsins plast má rekja til forngrísku þar sem platikos merkir að móta. Plast kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1855 þegar maður að nafni Alexander Parkes kynnti nýtt efni sem gæti komið í staðinn fyrir fílabein og kallaðist parkesine. Hann hlaut þriðju verðlaun fyrir hugmyndina á heimssýningunni í London árið 1862. Léleg gæði urðu þó til þess að þetta efni hlaut ekki hljómgrunn en þróunin á því hélt áfram og rétt eftir aldamótin 1900 kynnti Leo Hendrik Baekeland til sögunnar plast, svipað og við þekkjum það í dag.
Plastið varð fljótt vinsælt, enda byltingarkennt efni sem hægt var að nota í staðinn fyrir vörur sem búnar voru til úr dýraafurðum, svo sem bein og horn. Plastið leysti einnig af hólmi vörur úr náttúrulegum efnum eins og leðri, tré, málmum og gleri og var fljótlega notað í miklum mæli um allan heim.