Hvað er plast?

TEXTI Sigríður Inga Sigurðardóttir

Plast er bráðsniðugt efni sem er fjölbreytilegt, sveigjanlegt, rakaþolið, sterkt, þægilegt, hagstætt og létt svo að það er ódýrt að flytja það á milli staða. En það hefur líka sínar dökku hliðar sem við neyðumst til að horfast í augu við og gera eitthvað í því STRAX! 

Upphaf plasts

Plast er manngert efni, búið til úr náttúrulegum efnum eins og olíu, gasi, kolum, sellulósa og salti. Uppruna orðsins plast má rekja til forngrísku þar sem platikos merkir að móta. Plast kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1855 þegar maður að nafni Alexander Parkes kynnti nýtt efni sem gæti komið í staðinn fyrir fílabein og kallaðist parkesine. Hann hlaut þriðju verðlaun fyrir hugmyndina á heimssýningunni í London árið 1862. Léleg gæði urðu þó til þess að þetta efni hlaut ekki hljómgrunn en þróunin á því hélt áfram og rétt eftir aldamótin 1900 kynnti Leo Hendrik Baekeland til sögunnar plast, svipað og við þekkjum það í dag.

Plastið varð fljótt vinsælt, enda byltingarkennt efni sem hægt var að nota í staðinn fyrir vörur sem búnar voru til úr dýraafurðum, svo sem bein og horn. Plastið leysti einnig af hólmi vörur úr náttúrulegum efnum eins og leðri, tré, málmum og gleri og var fljótlega notað í miklum mæli um allan heim.

Niðursuðudósir eru oftast húðaðar með þunnri plastfilmu, sem og sumar steikarpönnur (teflon)

Neikvæð áhrif

Um miðbik tuttugustu aldarinnar fór þó að bera á áhyggjum af mengun af völdum plasts, sér í lagi í hafinu því að plast var farið að reka á fjörur um víða veröld. Í löndum þar sem ekki er sorpþjónusta varð vandamálið augljóst. Fólk var vant að henda ruslinu niður árbakkann þar sem það varð að mold, en með tilkomu plasts hlóðst ruslið upp og brotnaði ekki niður. Plastið dregur til sín eiturefni úr sjónum, auk þeirra sem fyrir eru í því, og verður mjög mengað með tímanum. Það er étið af fiskum sem enda svo á disknum hjá okkur. 

Á áttunda og níunda áratugnum vöknuðu grunsemdir um að efni í plasti, BPA, hefði heilsuspillandi áhrif á fólk. BPA er m.a. notað til að herða plast og lengja endingartíma þess en vísindamenn telja að í miklu magni hafi það neikvæð áhrif á hormónabúskap fólks, ekki síst barna. Það getur líkt eftir estrógeni og leitt til þyngdaraukningar og hormónaóreglu. 

Plastagnir

Örsmáar plastagnir eru notaðar í mörg krem, sjampó og tannkrem sem skolast beint út í sjó. Dekk eru einnig stór mengunarvaldur sjávar vegna plastagna sem mörg dekk innihalda og lenda úti í sjó með rigningunni. 

Plast er aðalmengunarvaldur sjávar. Um 10% alls plasts enda í sjónum og það menga og veldur dauða dýra. 

Sjá einnig Minnkum plastnotkun!

Þessi grein er úr vorblaði Lifum Betur – í boði náttúrunnar 2016