Hvað er mudra?

Múdra er hugtak úr jógafræðunum og þýðir handastaða. Á sanskrít þýðist múdra bókstaflega sem stelling eða innsigli og hefur verið notað í mismunandi trúarbrögðum, listum, jóga og hugleiðslu öldum saman. Samkvæmt jógafræðunum eru taugaendar í fingrum og höndum sem eru tengdar upp í heila. Mudrur eru þannig oft notaðar í tengslum við öndunaræfingar og hugleiðslur í jóga til að ná meira jafnvægi og bæta hugleiðsluna. Með ýmsum stöðum og hreyfingum er starfsemi heilans örvuð og þar með áhrif höfð á líkamsstafsemina, hugann og hjartað. Það eru til margar múdrur en með því að setja hendur í slíka stellingu getur þú, samkvæmt jógunum, bætt líkamlega og andlega líðan. Í indversku Ayurveda lífsvísindunum þá eru frumefnin fimm tengd við hvern fingur og því til ákveðnar múdrur sem tengjast ákveðnum frumefnum. Ayurveda og jógafræðin tengja líkamann gjarnan frumefnunum og spá í jafnvægi þeirra í hverjum einstakling.

Frumefnin eru; loft, eldur, vatn, jörð og eter.

Þumalfingur táknar eldinn.

Vísifingur er loft.

Langatöng er eter/rými.

Baugfingur er jörðin.

Litli fingur er vatn.

Með því að setja fingurgóma saman á mismunandi vegu eða láta fingur snerta ákveðna hluta lófanna getur orkuflæðið (Prana) innra með okkur náð betra jafnvægi og það ferðast um taugar og örvað orkustöðvarnar.

Hér er lýsing á nokkrum múdrum og mismunandi áhrifum þeirra og eiginleika:

mudra

Bhairava og Bhairavi mudra: Margir fara ósjálfrátt í þessa handstöðu þegar þeir setjast niður til að gera öndunaræfingar eða hugleiðslu. Staðan lýsir sér þannig að önnur hendin einfaldlega hvílir ofan á hinni hendinni, báðir lófar snúa upp og þumlarnir snertast. Bhairava er þegar hægri hendin hvílir ofan á þeirri vinstri og táknar karllægu hliðina Shiva. Bhairavi táknar kvenlægu hliðina Shakti og er þegar vinstri hendin liggur ofan á þeirri hægri. Bhairav Mudran er öflug ef þú átt við t.d. kvíðavandamál að stríða eða glímir við mikla spennu líkamanum.

anjalimudra

Sömuleiðis getur þú prufað Anjali Mudra bænastöðu sem við notum alltaf þegar við lokum jógatímanum í Shree Yoga. Þýðingin á bakvið Anjali mudra í jóga er að heiðra sjálfan sig og aðra og er algeng í mörgum trúarbrögðum og sést um allan heim.
prana-mudra

Ein mikilvægasta mudran er Prana mudra. Prana þýðir lífsorka og Prana mudra viðheldur þeirri lífsorku sem er til staðar í líkamanum og eykur hana um leið. Sagt er að að Prana mudra hafi góð áhrif á flestalla sjúkdóma. Prana mudra er sögð hafa góð áhrif á sjónina, minnka taugastreitu, róa líkama og gefa innri frið. Pranda mudra virkjar rótarstöðina Muladhara sem er neðsta orkustöðin í líkamnum. Staðan er þannig að þú setur þumalfingur, litlafingur og baugfingur saman þannig að fingurgómarnir snertast.Langatöng og vísifingur eru beinir og lófin vísar upp í loft.

Gyan-Mudra

Gayan mudra eða Chin mudra þekkja margir en hún er handstaða þekkingar og lærdóms. Þetta er þessi týpíska mudra sem þú sérð fólk í hugleiðslustöðu oft nota. Mudran styrkir frumefnið loft í líkamanum.  Fingurgómarnir þumals og vísifingur mætast og sagt er að Gayan mudra auki virkni innkirtlastarfseminnar.  Gayan mudran skerpir á minni og heilastarfsemi, hjálpar við einbeitingu og þegar hún er æfð reglulega þá getur hún létt á þunglyndi og reiði.

Prithvi-Mudra

Prithvi mudra eykur jarðar frumefnið í líkamanum og er góð til að jarðtengja sig. Jörðin er mikilvægur hluti meðal annars af beinum, brjóski, húð, hári, neglum, vöðvum, sinum og innri líffærum.  Prithvi mudra byggir og endurnærir þessa vefi og styrkir beinin. Handstaðan byggir upp traust og styrk auk þess sem hún dregur úr streitu og máttleysi.  Hún hjálpar til við þyngdaraukningu, bætir meltingu, eykur blóðflæði og styrkir Kapha doshu.  Í Prithvi mudra eru þumalfingur og baugfingur saman og hinir fingur eru beinir.

varun-mudra

Jal Mudra styrkir frumefnið vatn. Handstaðan eykur vatnsbúskapinn í líkamanum og kemur í veg fyrir vatnsskort og hvers konar þurrk.  Hún á að hjálpa til við að viðhalda eðlilegu vökvajafnvægi í frumum, vefjum, vöðvum, liðum og brjóski og hefur áhrif á tungu og bragðskyn.  Jal mudra nærir húðina, vinnur á húðsjúkdómum, eykur blóðflæði og dregur úr vöðvaverkjum auk þess sem hún hjálpar til við að opna hjartastöðina sem kallast Anahata chakra. Múdran hentar vel í hugleiðslur. .

vishnu

Vishnu mudra er notuð þegar við gerum öndunaræfinguna Aniloma Viloma sem nefnist líka Nadi Shodana eða Víxlöndun.  Þá eru vísifingur og langatöng inni í lófanum, hægri þumall er notaður til að loka hægri nösinni (notum alltaf hægri hendina ) á meðan andað er út um vinstri nös. Því næst er þumallinn losaður, vinstri nös lokað með hægri baugfingri og andað inn um hægri nös. Einungis þarf rétt að tylla fingrunum á nasir, ekki þrýsta.

Ofangreindar mudrur gefa okkur hugmynd um það hvernig við getum notað hendurnar til þess meðal annars að stjórna frumefnunum í líkama okkar og virkja orkubrautirnar NADIS. Taktu þér tíma og prufaðu mismunandi múdrur og sjáður hvort að þú finnir fyrir áhrifunum.  Sestu niður í þægilega setstöðu sem þér þykir best, t.d. Shukasana eða Lotus Pose og prófaðu handstöðurnar með hugleiðslu eða öndurnaræfingum.

Gangi ykkur vel í ferðalaginu ~ megi ferðalagið vera ykkur frjósamt og umfram allt skemmtilegt.


J A I   B H A G W A N