VIÐTAL Guðbjörg Gissurardóttir
MYNDIR Áslaug Snorradóttir.
Þegar ég hitti Hörpu Þórðardóttur sálfræðiráðgjafa í fyrsta sinn og við fórum að ræða um ferðalög og útilegur á Íslandi, gerði ég mér strax grein fyrir því að þarna væri kona á ferð sem ég vildi taka mér til fyrirmyndar þegar kom að því að njóta og skapa einstaka upplifun á ferðalögum um landið. Áslaug Snorradóttir er aftur á móti náttúrubarn sem alin er upp við það að borða úti og kann að njóta og nýta náttúruna í sínum ferðalögum og verkefnum. Ég ákvað að leiða þessar frábæru konur saman í spjall sem ég vissi að væri ferðalöngum frábær innblástur inn í íslenska sumarið.
MATUR
Harpa: Fyrir mér er lífið of stutt fyrir vondan mat. Ég er t.d. alltaf með mokkakönnu og freyðara og geri gott kaffi á tjaldsvæðunum. Enda var ekki hægt að kaupa gott kaffi hér áður fyrr, þótt það hafi skánað mikið. Áslaug: Já og góðan mat var almennt mjög erfitt að fá. Harpa: Það var hægt að fara í sjoppur og fá feita hamborgara og franskar og annað var ekki til. Áslaug: Það var svolítið annaðhvort eða, bensínstöðvarmatur eða matur inni á hóteli, þar sem blæjuberin voru innflutt frá Nýja-Sjálandi, og notuð til að skreyta rándýra kjúklingabringu. Harpa: Já, og hvítur dúkur og „fansí“ samanbrotnar servíettur (hlátur).
GG: En hvernig hagið þið matarmálum í útilegunni?
Áslaug: Það var nú einu sinni alltaf þannig að maður stoppaði niður á höfn í sjávarþorpunum og fékk tvo, þrjá fiska, því það voru yfirleitt engar fiskbúðir til í litlu sjávarplássunum. Þetta grillaði maður og úr varð dýrindismáltíð. Harpa: Ég meika t.d. ekki svona þurrkryddað kjöt. Áslaug: Nei, það gengur ekki upp. Það er svo „boring“, það er engin ánægja í því. Harpa: Ég fæ hreinlega í magann og meika ekki svona sjoppufæði heldur. En mér finnst bara svo gaman að vera einhvers staðar á fjöllum, og geta borið fram flottan mat! Þess vegna með servíettur og dúk, þú veist, maturinn verður einfaldlega betri þannig. Áslaug: Já, ég er alveg sammála þér, maður tekur ekki með sér bollasúpu! (hlær).
Harpa: Það fer kannski langur tími í matargerðina en maður hefur hvort eð er ekkert annað að gera, og þá getur maður alveg eins verið að elda. Áslaug: Það er líka svo mikill unaður að borða góðan mat í náttúrunni, einfaldlega besta borðstofan. Harpa: Já, það er öðruvísi þegar maður er búinn að vera úti, þá verður maturinn svo góður. Það er líka svo gaman í útilegum að geta eldað alls konar. Þú veist að maður getur bakað í útilegum? Ég tek stundum með mér hveiti, matarsóda, lyftiduft o.þ.h., og þarf þá bara að bæta við ferskvöru, eins og eggjum, vökva og olíu. Áslaug: Einmitt! ef maður fattar það, að maður getur veitt fiskinn, tínt lerkisveppi og jurtir og svo ef maður á egg og hveiti getur maður búið til blómapönnukökur, „tempura“ eða rababarapæ í eftirrétt.
GG: Pönnukökur?
Harpa: Já, pönnukökur, og svo er hægt að gera brauð sem maður getur þurrsteikt á pönnu.
GG: Svona eins og flatbrauð.
Áslaug: Já, bara svona eins og naan-brauð. Harpa: Svo getur maður skellt alls konar út í brauðdeigið, farið jafnvel út í náttúruna og fundið eitthvað. Fólk er líka alltaf bara „vá ertu að baka brauð“, þegar það finnur lyktina, og maður svarar „ já má bjóða ykkur“? Það er svo hægt að gera súpu með tómötum í dós, bætt svo við alls konar dóti og kryddi út í, bakað brauð með og þá ertu kominn með geðveika máltíð. Svo finnst mér voðalega gaman að hafa ferskt krydd í pottum með í ferðalagið, eins og basil og origano. Þá stilli ég pottunum upp við hliðina á tjaldinu og klípi af eftir þörfum.
GG: Undirbúið þið ykkur heima?
Harpa: Ég er vön að undirbúa mig vel áður en ég fer í ferðalög. Glugga jafnvel í matreiðslubækur og fæ hugmyndir. Ég er með eitthvað „basic“ krydd og líka ef það þarf eitthvað sérstakt í uppskriftirnar sem ég ætla að gera, þá tek ég slíkt með. En ferskvöru kaupi ég á ferðalaginu.
GRÆJUR
Harpa: Það er mjög mikilvægt að taka með sér góðar græjur. Alvöru pönnur og potta. Áslaug: Ég er með eina svona eldgamla Husquarna sem fer með mér um allt, alltaf með pönnu og gas. Geri líka stundum sjálf grill í fjörunni og þá er ég bara með kol og grind.
GG. Eruð þið með allt tilbúið við höndina þegar þið viljið stökkva út í dagsferð eða útilegu?
Harpa: Gott skipulag er eiginlega ástríða hjá mér. Ég vil helst hafa allt í röð og reglu og hólf fyrir hitt og þetta. Í raun elska ég sjálfan undirbúninginn. Áslaug: Ég vildi aftur á móti óska þess að vera meira eins og Harpa, en ég hugsa vanalega ekki mikið fram í tímann og skutla bara einhverju með í bílinn. Stundum fullt af dóti og stundum mjög litlu. Þetta verður bara meiri óvissuferð fyrir vikið (hlátur).
GG: En hvað með tjaldútbúnaðinn. Í hverju sofið þið?
Harpa: Við höfum prófað ýmislegt. Fellihýsi var of mikið vesen að komast með á þá staði sem okkur langaði að gista á. Tjaldvagninn er betri því það er auðveldara að pota honum niður. En það er alltaf mikið vesen á þessum græjum það er alltaf eitthvað að koma upp á. Einu sinni fauk dekkið af tjaldvagninum okkar uppi á miðju hálendi og tók langan tíma að finna það aftur (hlátur). Í dag erum við að hallast að því að ferðast aftur í tjaldi. Enda er mesta frelsið í því að geta tjaldað nær, hvar sem er. Áslaug: Ég hef ekki ferðast í tjaldi í mörg ár en er að spá í að gera það í sumar með barnabarninu, mig langar að litla snúllan fá að upplifa slíkt. Annars hef ég ferðast með Palla á bílnum okkar og þá gistum við börnin, ef þau eru með, í bílnum og hann úti undir berum himni. Þannig hefur það verið lengi. En nú finnst mér eitthvað spennandi að ferðast um á húsbíl. Ég held að það sé eitthvað skemmtilegt frelsi í því.
TJALDSTÆÐI
GG: Hvernig veljið þið tjaldstæði?
Harpa: Áður en við höldum af stað kíki ég á útilegukortið og byrja á því að útiloka öll tjaldstæði sem eru skráð þar (hlátur). Við fórum hér áður fyrr, oft í 2–3 vikur í einu, og var þá tjaldað í nokkra daga á hverjum stað. Við viljum helst vera sem mest út af fyrir okkur, nennum ekki að vera á troðnu tjaldstæði þar sem nágranninn er sjálfskipaður plötusnúður og allir neyðast til að hlusta á það sem hann fílar. Það er eiginlega best ef ekkert rafmagn er á tjaldstæðinu því þá sækjast færri í þau. En eftir kannski viku á afskekktum tjaldstæðum með litla þjónustu þá er líka stemmning að koma á stað eins og Skaftafell með fullt af fólki, sturtum, þvottavélum og jafnvel uppþvottavélum. Þá notuðum við tækifærið og þrifum allt og alla. Eftir kannski tvo til þrjá daga hélt maður svo áfram. Áslaug: Við höfum ekki farið á tjaldstæði lengi, enda sef ég í bílnum og Palli vill vera sem næst náttúrunni þar sem hann sefur úti. En ég mundi vilja fara í svona lengri ferðir, eins og Harpa, það er eitthvað spennandi við það.
GG: Einhver uppáhaldstjaldstæði?
Áslaug: Snæfellsnesið gefur mér mesta orku og ég kem þaðan alltaf fullhlaðin! Mig langar að prófa að fara og dvelja í sumar á Mýrunum á Snæfellsnesi, en það er svæði sem allir bruna framhjá og fær enga athygli.
GG: Það hlýtur að vera Snæfellsjökull sem á að vera stærsta orkustöðin á Íslandi og hjartastöð jarðarinnar. A.m.k. samkvæmt henni Erlu Stefánsdóttur heitinni. Áslaug: Já, ekki spurning. Harpa: Við eigum nokkur uppáhaldstjaldstæði. Þakgil var eitt af þeim en það er svo margt fólk þar núna að við höfum minnkað að fara þangað. Einnig eru afskekkt tjaldstæði nálægt Arnastapa, sem við höfum oft farið á, og svo í sumar langar okkur að heimsækja svæðið í Fjörðum sem er nálægt Grenivík, en við fórum þangað fyrir mörgum árum og það er magnaður staður. Einnig eru margir fallegir staðir í Borgarfirði.
ÞEMA
Harpa: Þegar við ferðumst í nokkrar vikur þá erum við ekki með neitt þannig plan. Nema við vorum með þema, því ég er bara svona þemakerling, þá var þemað kannski að vera einhvers staðar þar sem það er ekkert gsm-samband, eða að fara bara út í eyjar. Áslaug: En fyndið ég hef líka gert það, Flatey, Grímsey og fleiri eyjar.
GG: Eyjaþema?
Harpa: Já, Ásmundur (eiginmaðurinn) fór þá í fyrsta skipti til Vestmannaeyja! Svo höfum við líka haft svona fossaþema (hlátur), og þá teljum við þá og myndum. Og einu sinni var það sundlaugaþema, en þá náttúrulaugar, alveg ofsagaman. Það eru svo sem út um allt svona náttúrulaugar, við fórum þarna upp á hálendi í Strútslaug, eru það ekki 10 kílómetrar sem þarf að ganga? Vorum með krakkana og gerðum okkur ekki alveg grein fyrir labbinu, en það var þess virði. Rosa gaman!
GG: Þið virðist kunna að fá sem mest út úr ferðalögum ykkar og hef ég oft séð myndir frá Áslaugu þar sem kristalglösin eru með út í villtri náttúrunni. Hvað er málið með það?
Áslaug: Ég læt skap og nennu ráða hvað ég geri mikið vesen til að skapa einhverja upplifun. Stundum tek ég kristalinn og hvítan dúk með ásamt „fansí“matarstelli og stundum eru það bara fingurnir. En það er alltaf gaman að gera eitthvað extra. Það verður svo miklu skemmtilegra. Harpa: Ég er svo innilega sammála Áslaugu að það er svo gaman að fara aðeins lengra og hafa smá húmor í þessu. Stundum er ég með fjölskyldumynd í ramma sem ég hengi upp í tjaldinu þegar búið er að tjalda, skreyti borðið með seríum og dúkum og svoleiðis. Svo er það mismunandi hvað maður nennir hverju sinni en krökkunum finnst þetta líka lúmskt gaman og dóttir mín kom einu sinni til mín og sagði: mamma ertu til í að fara alla leið núna? Við gerum þetta líka þegar við förum í göngu með vinum okkar þá erum við með allt í bakpokanum og ekki mikið rými fyrir eitthvað fansí dót en það er ein regla, hún er sú að það verða allir að koma með eitthvað óvænt. Má vera hvað sem er og þetta vekur alltaf lukku og kátínu í hópnum.