Auður Elva og útbúnaður í gönguferðum

TEXTI Sigríður Inga Sigurðardóttir MYNDIR Guðbjörg Gissurardóttir

Auður Elva Kjartansdóttir stundar útivist af krafti allt árið um kring. Hún segir að réttur klæðnaður geti skipt sköpum þegar veður eru válynd eins og við þekkjum hér á Íslandi. Við fengum Auði til að deila með okkur góðum ráðum varðandi útivistarklæðnað, hvort sem er fyrir léttar gönguferðir á láglendi eða nokkurra daga göngur á fjöllum.

Auður hefur gengið á Hvannadalshnjúk, hæsta tind landsins, 80 sinnum, oftast í hlutverki leiðsögumanns og segir að metið sitt sé að ganga Hnjúkinn fimm daga í röð. Ferðafélag Íslands hefur notið krafta hennar en Auður kom að stofnun Ferðafélags barnanna, enda finnst henni sjálfsagt að allir geti notið útivistar, sama á hvaða aldri fólk er. Síðustu árin hefur hún verið í hópi þeirra sem sjá um heilsársverkefnið Alla leið hjá Ferðafélaginu, sem snýst um að ganga á stærstu jökla landsins að vori til. Auður, sem er framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, er með öll próf, sem hægt er að taka, sem fararstjóri og leiðsögumaður. Fyrir allnokkrum árum tók hún þátt í að þróa útivistarfatnað fyrir 66 Norður og Patagonia.

Nældu þér í útbúnaðar-gátlistann hennar Auðar til að eiga. 

Þegar ég vel útivistarfatnað skoða ég fyrst veðurspána og tek mið af henni við val á fatnaði.

Ullin

Næst húðinni finnst mér best að vera í ullarflíkum. Ég er alltaf í ullarbrjóstahaldara og ullarnærbuxum, stuttermabol úr ull og síðermabol úr ull þar yfir, sama hvaða tíma ársins. Ef mér verður heitt get ég fækkað lögum. Ef það er rigning í kortunum og hiti yfir frostmarki fer ég í síðar ullarnærbuxur og Gore-tex hlífðarbuxur yfir. Gore-tex er vatnsþétt efni með góðri öndun. 

Fætur

Ef það er útlit fyrir rigningu og hlýtt veður vel ég góðar göngubuxur, með þröngum skálmum sem hægt er að smella yfir skóna. Þá er ekki þörf á legghlífum til að varna því að bleyta eða snjór sullist ofan í skóna. Ég mæli með að velja göngubuxur úr teygjanlegu efni, sem eru þannig í sniðinu að þær síga ekki niður.

Ég er með léttar, vatnsheldar Gore-tex buxur í bakpokanum og get smeygt mér í þær ef það fer að rigna. Buxurnar pakkast vel og taka ótrúlega lítið pláss í bakpokanum. Þær eru með rennilás sem nær upp á miðja ökkla svo ég þarf ekki að fara úr skónum til að klæða mig í þær.

Sokkarnir eru líka úr ull og þeir eiga að sitja vel. Mér finnst gott að þeir séu með teygju yfir ristina, þá eru þeir ekki á hreyfingu inni í skónum og valda ekki blöðrum eða særindum. Nauðsynlegt er að endurnýja sokkana reglulega. Fyrir langar ferðir kaupi ég alltaf eitt nýtt sokkapar.

Gönguskórnir þurfa að vera með góðum botni og stuðning við ökklann. Ef botninn er lélegur þreytist maður fyrr og hætta er á ökklameiðslum ef ekki er nægjanlegur stuðningur við hann.

Búkur

Yfir ullina fer ég í filtjakka, sem einangrar vel. Á köldum vetrardögum fer ég í annan filtjakka/úlpu þar yfir og ef það er vindur eða  rigning fer ég í stakk úr Gore-tex. Stakkurinn þarf að vera vel vatnsheldur og því nota ég alltaf Gore-tex stakk. Mér finnst skipta máli að góð hetta sé á stakknum sem lokast vel við hálsmálið. Þá er líka hentugt ef hægt er að lofta vel út undir örmunum.

Ullarvettlingar eiga ætíð við og gott er að vera í vatnsheldum vettlingahlífum þar yfir. Ef ullin blotnar er ekkert mál að vinda úr henni og nota hana síðan áfram því hún heldur alltaf hita á manni. Ég mæli líka með þykkum og hlýjum hönskum. Ég á hanska sem hægt er að nota við allar aðstæður. Þeir eru með sköfu til að skafa snjó eða rigningu af skíðagleraugum. Á fjöllum fær maður oft nefrennsli og þeir koma vel að gagni við að þurrka nebbann og fara svo bara beint í þvottavélina þegar heim er komið. Það skiptir máli að fara í hanskana fyrst og svo í regnstakkinn yfir þá. Þannig lekur regnvatnið niður af ermunum en ekki ofan í hanskana.

Höfuð

Ég nota húfu allan ársins hring og finnst best að hún fari vel yfir eyrun. Ef ég er með snúð í hárinu set ég hann undir húfuna.

Á göngu er mikilvægt að verja sjónina vel, það er t.d. hræðilega vont að fá snjóblindu. Ég nota skíðagleraugu frá september og fram í júní en yfir hásumarið notað ég góð sólgleraugu sem verja augun fyrir mikilli birtu.

Bakpoki

Við val á bakpoka er að mörgu að hyggja og ég mæli með að setja þyngsli í pokann við val á góðum poka. Mittisólin þarf að sitja á mjaðmabeinunum því 70% af þyngdinni á að sitja á mjöðmunum. Í flestum útivistarverslunum er hægt að láta stilla pokann fyrir sig.

Annar búnaður: Heitt á brúsa, vatn, höfuðljós, broddar, ísexi, sjúkrabúnaður, kort, áttaviti, GPS-tæki, ruslapoki, klósettpappír og eldspýtur. Það á að kveikja í pappírnum eftir notkun og muna að skilja aldrei neitt eftir sig úti í náttúrunni.   

Nældu þér í útbúnaðar-gátlistann hennar Auðar til að eiga. 

Þessi grein er í vorblaði Lifum betur – Í boði náttúrunnar 2021