AUSTURLAND

AUSTURLAND

Tignarleg fjöll og fossar, skógar og óþrjótandi gönguleiðir eru aðeins nokkrar af fjölmörgum ástæðum þess að heimsækja Austurland. Falleg þorp, hvert með sínu sniði, iða af mannlífi. Hvergi eru fleiri hreindýr en hérna og aðgengi að lundaskoðun er með því besta á landinu.


east.is

LEIÐAVÍSIR UM AUSTURLAND
GRÆNIR HANDVALDIR STAÐIR SEM STUÐLA AÐ BETRI UPPLIFUN, SJÁLFBÆRNI OG GLEÐI! 

Fjaran í Atlavík.

NÁTTÚRA

1. STUÐLAGIL
Eftir að vatnsmagnið í Jökulsá á Dal, Jöklu, minnkaði með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar kom þetta magnaða stuðlabergsgil í ljós. Vegur 923 um Jökuldal liggur að Grund en frá bílastæðinu er fimm mínútna ganga eftir bröttum stíg að gilinu. Til að komast ofan í gilið er ekið að því austanmegin, að bænum Klausturseli þaðan sem gönguleið liggur niður í gilið.

2. STÓRURÐ
Magnað sjónarspil sléttra grasbala, túrkísblárra tjarna og risavaxinna bjarga blasir við eftir rúmlega tveggja tíma göngu frá Vatnsskarði eystra á vegi 94. Í kring gnæfa stórbrotin Dyrfjöllin, sem fullkomna þessa einstöku náttúruperlu.

3. HENGIFOSS Í FLJÓTSDAL
Létt tveggja tíma ganga frá bílastæði við veg 933 er að þessum næsthæsta fossi landsins. Hann er umlukinn háum klettaveggjum með áberandi rauðum jarðlögum sem voru forðum skógar er brunnu þegar hraun rann yfir.

4. HALLORMSSTAÐASKÓGUR
Stærsti og elsti skógur landsins sem hefur að geyma yfir 70 trjátegundir. Þegar skógurinn var friðaður, um aldamótin 1900 var hann gerður að fyrsta þjóðskógi Íslendinga. Friðunin var fyrsta skref þjóðarinnar í átt að náttúruvernd.

5. KLIFBREKKUFOSSAR
Hver fossinn á fætur öðrum steypist niður hlíðarnar og mynda þeir þannig einstaka fossasyrpu. Hægt er að njóta fegurðarinnar frá vegi 953 í botni Mjóafjarðar eða fara í stutta göngu upp með fossinum.

6. PÁSKAHELLIR
Skammt frá Norðfjarðarvita á Neskaupstað er hellisskúti í flæðarmálinu þar sem brimið hefur sorfið í björgin. Í hellisveggjunum eru holur eftir trjáboli, sem hraun rann yfir fyrir um tólf milljónum ára. Um 10-15 mínútna ganga er frá bílastæði.

Torfbærinn Sænautasel á Jökuldalsheiði.

 AFÞREYING

7. SELÁRLAUG
Í fallegu gljúfri við bakka Selár er notaleg laug, rómuð fyrir umhverfi sitt, byggð af félagsmönnum í Ungmennafélagi Vopnafjarðar og vígð árið 1950. Við laugina er sólpallur og nestisaðstaða, heitur pottur og barnalaug.
Selárdal, Vopnafirði (dreifbýli)
473 1499 / Facebook

8. SÆNAUTASEL
Sænautasel var byggt árið 1843 og margir telja selið fyrirmyndina að heiðarbúskap Bjarts í Sumarhúsum í Sjálfstæðu fólki. Hægt er að fá lifandi leiðsögn og kaffi, kakó og lummur í torfbænum. Þangað er 5 km akstur frá þjóðvegi 1.
Merki, Jökuldalsheiði
853 6491 / Facebook

9. VÖK FLOATING BATHS
Að baða sig í fljótandi, heitum náttúrulaugum úti í miðju ísköldu Urriðavatni er sannkölluð náttúruupplifun. Við ströndina eru heitir pottar, köld úðagöng, gufubað, laugabar og bistró. Sjálfbærni og virðing fyrir umhverfinu er hér í fyrirrúmi.
Urriðavatn, 5 km frá Egilsstöðum
470 9500 / vok-baths.is

10. MUSTERIÐ SPA & WELLNESS
Upplifðu slökun og vellíðan í ferðalaginu þínu á Musterið Spa. Í boði eru heitir pottar og gufuböð, bæði inni og úti. Endurnærðu líkama og sál í einstakri kyrrð og fallegu umhverfi.
Gamla Frystihúsinu, Borgarfirði Eystri
847 0085 / blabjorg.is

11. BAÐHÚSIÐ SPA
Lítil og falleg heilsulind í Gistihúsinu Egilsstöðum með heitri smálaug, sánu, köldum potti og hvíldarsvæði. Tilvalið til að dekra við sig, þvo af sér ferðarykið og borða svo á einum af betri veitingastöðum landsins, Eldhúsinu.
Egilsstöðum 1, Egilsstöðum
471 1114 / lakehotel.is/heilsulind

12. SKRIÐUKLAUSTUR
Gunnar Gunnarsson skáld lét byggja herragarðshús í Alpastíl 1939. Þar eru sýningar um skáldið, auk listsýninga ásamt fróðleik um rústir munkaklausturs frá 16. öld, sem stendur neðan við húsið.
Kaffihús er á neðri hæð.
Skriðuklaustri, Fljótsdal
471 2990 / skriduklaustur.is

13. SKAFTFELL MYNDLISTARMIÐSTÖÐ
Listalífið blómstrar á Seyðisfirði og í Skaftfelli er starfsemin helguð myndlist með áherslu á sjónlistir og samtímalist. Í húsinu eru gestavinnustofur fyrir listamenn og kaffihús í kjallara með myndlistarbókasafni.
Austurvegi 42, Seyðisfirði
472 1632 / Facebook

14. ÍSLENSKA STRÍÐSÁRASAFNIÐ
Hér er horfið aftur til seinni heimsstyrjaldarinnar þegar 4000 hermenn komu til Reyðarfjarðar á meðan íbúarnir voru einungis 300. Áhrifin á samfélagið og menninguna má skoða í upprunalegum bröggum þar sem bíósýning, myndir og stríðsmunir segja þessa einstöku sögu.
Heiðarvegi 37, Reyðarfirði
470 9063 / fjardabyggd.is

15. EGGIN Í GLEÐIVÍK
Við höfnina á Djúpavogi er útilistarverk eftir Sigurð Guðmundsson, sem samanstendur af 34 risavöxnum skúlptúrum úr slípuðu graníti, sem líkja eftir eggjum jafnmargra varpfugla sem verpa í og við Djúpavog.
Höfnin, Djúpavog
East.is

Nielsen restaurant á Egilsstöðum er í elsta húsi bæjarins sem nýlega hefur verið uppgert.

VEITINGAR

16. ELDHÚSIÐ RESTAURANT
Á Gistihúsinu Lake hótel við Lagarfljót finnur þú sannkallaða matarparadís í einstaklega fallegu umhverfi. Á matseðlinum má finna hefðbundna íslenska rétti í nútímalegum búningi og framandi kræsingar, sem gleðja munu augu jafnt sem maga.
Egilsstöðum 1-2, Egilsstöðum
471 1114 / gistihusid.is

17. NIELSEN RESTAURANT
Í elsta húsi Egilsstaða er boðið upp á notalega og afslappaða matarupplifun og hægt að sitja úti á verönd þegar veður leyfir. Kári Þorsteinsson, fyrrum yfirkokkur á Michelin-stjörnustaðnum Dill, töfrar fram rétti þar sem hráefni úr héraði nýtur sín.
Tjarnarbraut 1, Egilsstöðum
471 2001 / nielsenrestaurant.is

18. AUSTRI BRUGGHÚS
Handverksbrugghús á Egilsstöðum sem framleiðir hátt í 20 mismunandi tegundir af bjór, sem spennandi er að smakka. Notast er við hráefni úr nágrenninu. Hver vill ekki smakka Skrúð, japanskan hríslager, Herðubreið, lífrænan pils, Steinketil eða Skessu? Boðið er upp á skoðunarferðir um brugghúsið.
Fagradalsbraut 25, Egilsstöðum
456 7898 / Facebook

19. KLAUSTURKAFFI
Íslenskt heimagert hlaðborð eins og það gerist best. Lögð er áhersla á hráefni úr héraði, s.s. ljúffengar hreindýrabollur, hrútaberjaskyrtertu og lerkisveppasúpu. Boðið er upp á hádegis- og kaffihlaðborð með heimabökuðu brauði og kökum sem enginn fer svangur frá.
Skriðuklaustri, Fljótsdal
471 2992 / skriduklaustur.is

20. SESAM BRAUÐHÚS
Framsækið handverksbakarí í hjarta Reyðarfjarðar með góð súrdeigsbrauð úr íslensku byggmjöli, sætabrauð og heita rétti í hádeginu. Frábært gúmmelaði fyrir svanga ferðalanga.
Hafnargötu 1, Reyðarfirði
475 8000 / sesam.is

21. HÓTEL FRAMTÍÐ
Hlýlegur veitingastaður í sögufrægu húsi með útsýni yfir höfnina. Réttur dagsins fer eftir því hvað veiddist þann daginn; þorskur, silungur, lúða, koli eða ýsa. Hér er eitthvað gott fyrir alla, meira að segja pítsur.
Vogalandi 4, Djúpavogi
478 8887 / hotelframtid.com

22. PAKKHÚSIÐ
Fallegur veitingastaður við höfnina, sem einbeitir sér að staðbundnu hráefni af svæðinu ásamt öðrum sælkeramat. Gott úrval af barnaréttum. 
Krosseyjarvegi 3, Höfn í Hornafirði
478 2280 / pakkhus.is

Kaupfjelagið á Breiðdalsvík.

VERSLUN Í HEIMABYGGÐ

23. FJÓSHORNIР
Kósí kaffihús með áherslu á hráefni úr eigin framleiðslu ásamt sölu beint frá býli. Hægt er m.a. hægt að fá nautakjöt, hamborgara, fetaost, jógúrt eða gamaldags skyr úr Egilsstaðakúnum, sem sjá má á sumarbeit í nágrenninu.
Egilsstöðum 1, Egilsstöðum
471 1508 / Facebook

24. HÚS HANDANNA
Umhverfisvæn og listræn lífsstílsverslun með fjölbreytta flóru af íslenskri vöruhönnun, s.s. list, handverk og austfirskar krásir. Hér færðu sjampóstykki í ferðaboxi, vaxklúta fyrir samlokuna, jurtalitaðan lopa, smart ullarsokka og margt fleira í ferðalagið. 
Miðvangi 1-3, Egilsstöðum
471 2433 / Facebook

25. ASPARHÚSIÐ VALLANESI
Í einstöku timburhúsi, byggðu úr öspum úr skógrækt Vallaness er verslun og veitingar að hætti Móður jarðar. Hér fæst lífræn matvara, brakandi ferskt grænmeti, kornvörur, olíur, aldinmauk og fleira, auk ljúffengra grænmetisrétta úr íslensku hráefni.
Móðir Jörð, Vallanesi, Fljótsdalshéraði
471 1747 / modirjord.is

26. KAUPFJELAGIÐ
Það er eins og tíminn stöðvist þegar þú kemur inn í Kaupfjelagi á Breiðdalsvík en þar er undir einu þaki kaffihús, matvöruverslun og minjagripaverslun. Hér færðu nýbakað brauð, ferskan fisk, gaskúta, póstkort, ís, kaffi, eða hvað sem er.
Sólvöllum 25, Breiðdalsvík
475 6670 / breiddalsvik.is / Facebook

ANNAÐ

VÍNBÚÐIN
Djúpivogur, Búlandi 1
Egilsstaðir, Miðvangi 2-4
Fáskrúðsfjörður, Skólavegi 59
Seyðisfjörður, Hafnargata 4a
Neskaupstaður, Hafnarbraut 6
Reyðarfjörður, Hafnargata 5
Vopnafjörður. Hafnarbyggð 4

VILTU SKOÐA FLEIRI LANDSHLUTA? 
Vesturland     Norðurland   Austurland   Suðurland   
Tögg úr greininni
, , ,