Hafsteinn Hafliðason er einn þekktasti garðyrkjumaður landsins. Margir þekkja hann vegna garðyrkjuþátta hans í útvarpi og sjónvarpi á árunum milli 1982-1995 eða í tengslum við langan feril hans hjá Blómavali í Sigtúni sem sölumaður og neytendaráðgjafi. Hann er einnig stjórnandi hópsins Stofublóm, inniblóm, pottablóm á Facebook. Hafsteinn á baki langan feril í ræktun, hefur starfað sem garðyrkjustjóri, haldið ótal námskeið, setið í ritstjórn Garðyrkjuritsins og verið virkur á fleiri ræktunarsíðum á Facebook. Hann hlaut jafnframt heiðursverðlaun garðyrkjunnar árið 2018.
Okkur langaði til þess að vita aðeins meira um Hafstein og áhuga hans á ræktun og okkur til mikillar gleði var hann til í að svara nokkrum spurningum.
Hvað kom til að þú stofnaðir Facebook hópinn Stofublóm, inniblóm, pottablóm?
Bara það að við Vilmundur Hansen höfðum ekki undan að svara fyrirspurnum um pottaplöntur á FB-síðunni Ræktaðu garðinn þinn – sem er fyrst og fremst hugsuð fyrir garða og útiræktun. Því lá beinast við að beina fyrirspurnum um pottaplöntur og stofublóm í sérstakan hóp. Og af því að ég hef meira unnið með pottaplöntur en Vilmundur, þá tók ég þennan þátt að mér. Það virðist alveg hafa virkað. Félagar eru yfir tuttugu og þrjú þúsund síðast þegar ég gætti að því. Það er meiri fjöldi en ég gat ímyndað mér þegar af stað var farið. Og fyrirspurnirnar þrjóta ekki. Eiginlega er ég upptekinn 24/7 við að svara þeim. Svo að lítill tími gefst orðið til annars. Þett er að verða fullt starf, þannig að annað sem ég hef tekið að mér lendir allt of oft á hakanum.
Ég ólst bara upp við það að ræktun og menning væru óaðskiljanleg fyrirbæri.
Hvaðan kemur áhugi þinn á ræktun?
Ég veit það ekki svo sem. Ég ólst bara upp við það að ræktun og menning væru óaðskiljanleg fyrirbæri. Að engin menning þrifist án ræktunar og án ræktunar þrifist heldur engin menning. Í íslensku er því skipt upp í tvö hugtök sem yfirleitt er táknað með einu hugtaki í nágrannamálunum. Þar er hugtakið „kúltúr“ látið spanna alla merkingu sem felast í íslensku aðskilnaðarhugtökunum. Sem gefur líklega eitthvað í skin um íslenska menningu – sem eiginlega hefur skilgreint dagleg störf sem skít, en hugverkin sem skart. Og því miður virðist þetta ekki neitt vera að breytast. Þeim sem vinna „skítverkin“ er lítið og illa umbunað meðan „skartfólkið“ sópar að sér auðnum og virðingunni. Ekkert samfélag getur þrifist eðlilega án þess að hætt sé að aðgreina fólk og að unnið sé að réttlátu samfélagi þar sem allir njóta sín í samofnu kerfi ástar, umhyggju, virðingar og umburðarlyndis manna á milli.
Hver eru helstu vorverkin sem pottaplönturæktendur ættu að fara í?
Yfirfara plönturnar eftir skammdegið. Klippa burt skemmdir, snyrta plönturnar til eftir þörfum og gjarna umpotta þeim ef útlit er fyrir að moldin í pottunum sé orðin of þreytt og næringarsnauð. Umpotta í góða pottaplöntumold, sem gjarna má bæta með ögn af vikursandi. Gæta þess að vatn geti sigið úr pottunum svo að loft komist að rótunum. Skola yfir plönturnar með mildri og volgri sturtu á baði eða í þvottahúsi. Láta síga vel af þeim áður en þær eru aftur settar á sinn stað – þar sem er þá búið að gera hreint. Ef plönturnar eru hafðar í pottahlífum, þá þurfa þær að vera vel rúmar. Hafa ávallt tvær fingurbreiddir fríar milli potts og pottahlífar. Eftir vökvun þarf að gæta að því að vatn standi ekki í pottahlífinni. Gæta að því um hálftíma eftir vökvun. Vökva aldrei með köldu kranavatni – ef hægt er má blanda hitaveituvatni til að ylja. Eða láta vökvunarvatnið standa við sofuhita yfir nótt áður en vökvað er.
Ég get ekki gert upp á milli og á engar uppáhaldsplöntur.
Hverjar eru þínar uppáhalds pottaplöntur og af hverju?
Þetta er nú eins og að spyrja múrarameistara um hver sé uppáhaldssteinninn hans í steinsteypunni sem hann er að vinna með. Garðyrkjan hefur verið ævistarf mitt. Því hafa margar plöntutegundir og afbrigði þeirra borist mér í hendur eða borið fyrir augu mín. Hvort sem það hefur nú verið pottaplöntur, garðplöntur, mosar, grös eða skógarplöntur. Ég get ekki gert upp á milli og á engar uppáhaldsplöntur. Hrærist bara í menginu.
Fleiri greinar um pottaplöntur á ibn.is
Indjánafjöður
Rifblaðka
Regnhlífatré
Peningaplanta
Húsfriður
Kaktus