TEXTI Sara Snædís Ólafsdóttir
Hver kannast ekki við það að koma á hlaupum inn í jógatíma? Þú keyrir hratt úr vinnunni með miklar áhyggjur af því hvort tíminn verði fullur þegar þú loksins kemst á áfangastað. Sprettir inn í salinn og tekur frá pláss (ef það er ekki þegar orðið fullt) og þaðan ferðu á hlaupum inn í búningsherbergið og hoppar í fötin. Kemur svo inn í salinn móð/ur og rétt nærð að stökkva á dýnuna þegar kennarinn bíður góðan daginn.
Ef þú kemur á hlaupum inn í jógatíma þá tekur dágóðan tíma fyrir líkama og huga að róa sig niður. Það tekur tíma að losa sig við stressið og áhyggjurnar sem búið er magnast upp yfir daginn og margfaldast á leiðinni í tímann sem og streituna sem heltekur líkamann og hugann eftir strembinn dag í vinnunni. Axlirnar eru stífar, öndunin er grunn og hugurinn á fullu. Það er erfitt að byrja jógatíma með allt ofangreint á herðunum. Það hefur áhrif á andlega og líkamlegu getu þína í tímanum.
Að ná að slaka á á dýnunni áður en tíminn byrjar, gera öndunaræfingar, teygja á eða bara sitja með lokuð augun hjálpar til við að færa okkur í núið og leggja verkefni dagsins til hliðar. Það hjálpar okkur að færa einbeitinguna og okkur sjálf inn í salinn, á dýnuna okkar. Að leggja 10 mín. fyrr af stað getur gert gæfumunin, þú munt njóta tímans betur og fá töluvert meira úr honum.
Prófaðu það þegar þú hefur tök á og finndu muninn.
Ef þú hefur ekki tök á að leggja fyrr af stað reyndu þá sætta þig við þá staðreynd að þú verðir í seinni kantinum og að stressa sig upp og fyllast af áhyggjum gerir þér engan greiða. Flýttu þér þá hægt og notaðu bílferðina til þess að slaka á og undirbúa þig fyrir tímann.
Njóttu þess að fá sem mest út úr jógatímanum og þú getur.