Radísur og hreðkur

TEXTI OG MYNDIR Jón Þórir Guðmundsson

Radísur (Raphanus sativus)

Í Japan og Kína eru radísur, eða hreðkur eins og þær eru líka kallaðar, vinsælt grænmeti og mikið notaðar í ýmsa matargerð. Algengt er að þær séu matreiddar í súpur og ýmsa rétti en líka hráar í salat. Í Evrópu hafa þær ekki notið sömu virðingar en njóta samt víða vinsælda og eru það aðallega smávaxnar og snemmsprottnar radísur. Mest er ræktað í Evrópu af litlum rauðum radísum en þær geta líka verið gular, hvítar eða fjólubláar. Þær eru oftast borðaðar hráar og ungar þegar ferskleikinn og gæðin eru mest. Smágerðar og fljótsprottnar radísur tapa fljótt gæðum og verða rammar og trénaðar eftir fáeinar vikur. Flestar radísur eru ein- eða tvíærar en nýttar á fyrra árinu.

Ræktun

Litlar salat-radísur eru það grænmeti sem þroskast á stystum tíma, jafnvel bara á um fjórum vikum frá sáningu til uppskeru. Þær þurfa sólríkan vaxtarstað, góðan jarðveg og nægan raka til að vaxa hratt og vel. Þeim er hægt að sá frá vori og fram eftir sumri og er best að sá á tveggja vikna fresti. Það er upplagt að nýta pláss á milli raða af seinvöxnum tegundum eins og gulrófum eða pastinökkum. Smágerðum radísum má sá með 2,5 cm millibili hvar sem tímabundið pláss er og uppskera löngu áður en seinvaxnar eða plássfrekar plöntur þurfa allt plássið.

Snemmsprottnar radísur jafnt sem vetrarhreðkur má aldrei skorta vatn því annars hættir þeim til að springa þegar skyndilega rignir mikið og þær fá nóg að drekka. Of mikil vökvun getur svo leitt til þess að yfirvöxtur verði mikill á kostnað rótanna.

Radísur eru náskyldar káli og sækja sömu meindýr og sjúkdómar á þessar tegundir. Sniglar geta verið til ama og líka getur þurft að gera ráðstafanir gegn kálflugu. Kálflugan verpir aðallega frá 20. júní og fram yfir mánaðamót júní-júlí. Besta vörnin er að hafa trefjadúk yfir plöntunum um varptíma flugunnar en passa þarf að fergja hann vel og að ekki séu göt á dúknum.               

Uppskera og geymsla

Snemmsprottnar radísur geymast stutt og er best að njóta þeirra nýupptekinna. Kína- og svartar vetrarhreðkur geymast í nokkra mánuði í rökum sandi á köldum en frostlausum stað en líka í plastpoka í kæli. Helstu mistök sem fólk gerir í ræktun á radísum er að þær smágerðu mega ekki vaxa of lengi þar sem þeim hættir til að verða fljótt mjög rammar og trénaðar. Stórvaxnar hreðkur mega hins vegar vaxa lengi fram eftir hausti og geta þær kínversku verið mjög safaríkar og góðar á bragðið en samt mjög stórar.

Radísur / hreðkur nútímans er oft skipt í fimm hópa:

1.     Litlar evrópskar radísur sem eru hraðvaxta og oftast rauðar eða hvítar.
2.     Stórar asískar hreðkur sem eru mjög breytilegar að stærð og lit.
3.     Svartar evrópskar hreðkur sem henta vel til vetrargeymslu.
4.     Suðaustur-asískar sem eru ræktaðar vegna ætra fræbelgja.
5.     Fóðurhreðkur og hreðkur sem ræktaðar eru vegna fræja sem vinna má úr olíu.

Algengar tegundir af radísum

Asískar eða Kínahreðkur:

Mooli er fljótvaxið yrki af kínahreðku sem myndar 30- 50 cm langar, hvítar rætur. Auðveld í ræktun, stökk og bragðgóð. Safarík og mild á bragðið. Geymist vel.

Rex er hvít kínahreðka um 20-30 cm á lengd. Safarík og bragðgóð. Frekar fljótvaxin og harðgerð. Geymist vel.

Asískar hreðkur þurfa meiri fyrirhöfn en þeim má sá frá því í byrjun maí og fram á mitt sumar. Þær þroskast á 55-75 dögum, jafnvel lengur. 

Svartar vetrarhreðkur:

Black Spanish Round er gamalt spænskt yrki með stórum kringlóttum hreðkum og svörtu eða brúnu hýði en hvítar að innan. Þarf nokkuð langan vaxtartíma en geymist lengi.

Violet de Gournay er dökkfjólublá eða brún en hvít að innan. Ílöng en frekar breiðleit og um 25 cm á lengd. Gamalt franskt yrki.

Svörtum hreðkum er sáð með svipuðum hætti og þeim asísku og þurfa þær svipað pláss eða um 15 cm á milli plantna.

Litlar evrópskar radísur:

Amethyst er með fjólublátt hýði en hvít að innan. Smávaxin og best um 3-4 vikum frá sáningu. Fallegar og öðruvísi radísur.

French Breakfast hefur verið ein vinsælasta radísan í áratugi. Ílangar rauðar og hvítar. Stökkar og bragðgóðar ef þær eru ekki of gamlar. Verða fljótt trénaðar og rammar ef þær eru ekki teknar upp snemma.

Saxa 2 þroskast mjög snemma og eru með alveg rautt hýði en hvítar að innan. Bragðgóðar og stökkar á réttu þroskastigi.

Sparker 3 eru kringlóttar með rauðu og hvítu hýði og vaxa mjög hratt. Eins og hinar þarf að uppskera strax og þær eru nógu stórar.

radísur á marga vegu

  • Saxa þunnar sneiðar í salatið. Nýtíndar radísur eru gott hráefni í salatið og myndarlegar og stórar vetrarhreðkur góð viðbót í vetrarforða garðyrkjumannsins.
  • Setja þunnar sneiðar ofaná brauð með kotasælu eða túnfisksalati.
  • Baka sneiðar í ofni með olíu og salti og borðað sem snakk eða meðlæti.
  • Súrsa radísusneiðar eins og gert er við gúrkur.
  • Nota radísur sem skreytingu eins og gert er í uppskriftinni Dýrindis vegan sveppabrauð
Jón Þórir Guðmundsson

Garðyrkjufræðingurinn Jón Þórir Guðmundsson frá Akranesi er þekkt persóna í heimi garðyrkju og ræktunar. Hann er einn af þeim sem láta ekkert óreynt þegar kemur að ræktun, séu það matjurtir, blóm eða eplatré. 

Fleiri greinar eftir Jón Þórir Guðmundsson:
Fjölgun með vetrargræðlingum
Umpottun á pottaplöntum
Ræktun á hvítlauk