NORÐURLAND

NORÐURLAND

Kraftmiklir fossar, úfið hraun, skógar, söfn og skemmtilegar gönguleiðir gera Norðurland að heillandi áfangastað. Hér er aflmesti fossinn, dýpsta vatnið, nyrsti golfvöllurinn og mikilfenglegasta gljúfrið. Úrval baða er hvergi meira á landinu og hér er meira að segja hægt að baða sig í bjór.

LEIÐAVÍSIR UM NORÐURLAND
GRÆNIR HANDVALDIR STAÐIR SEM STUÐLA AÐ BETRI UPPLIFUN, SJÁLFBÆRNI OG GLEÐI! 

Hvítserkur í Húnafirði er 15 metra hár klettur sem stendur í fjöruborðinu við Sigríðarstaðaós.

NÁTTÚRA

1. HVÍTSERKUR
Kletturinn Hvítserkur rís úr sæ í flæðarmálinu í Vatnsnesi en þangað liggur vegur 711. Sagan segir að hann sé steinrunninn tröllkarl. Á fjöru er hægt að ganga upp að Hvítserki.

2. KÁLFSHAMARSVÍK
Stuðlabergsvík þar sem klettamyndanirnar eru margbreytilegar og myndrænar. Víkin er í eyði og þar má finna húsarústir á víð og dreif. Ekið er eftir vegi 745 að víkinni.

3. STAÐARBJARGAVÍK
Formfögur og hljómmikil stuðlabergsfjara, sem fáir vita af, þrátt fyrir nálægð við Hofsós. Hægt að njóta einveru með álfum, sjófuglum og öldugljáfri en vegur 76 liggur þangað.

4. VAGLASKÓGUR
Næststærsti og einn fegursti skógur landsins með fjölda skemmtilegra gönguleiða, enda vinsæll til útivistar. Þar er skemmtilegt trjásafn.

5. GOÐAFOSS
Foss goðanna er stórbrotinn og ganga meðfram fossinum býður upp á einstaka upplifun með drunum og góðum úða í andlitið.

6. ALDEYJARFOSS
Fossinn fellur 20 metra fram af mögnuðu stuðlabergi niður í stóran hyl þar sem hvítur litur jökulfljótsins myndar skemmtilega andstæðu við dökkt bergið. Stutt ganga er að fossinum frá bílastæði við veg 842.

7. MÝVATN
Ótrúleg náttúrufegurð, sem einkennist af sérkennilegum klettamyndunum, fornum gígum, fjölskrúðugum gróðri og einstöku fuglalífi. Af Höfða er fallegt útsýni og í Dimmuborgum búa jólasveinarnir.  

8. HLJÓÐAKLETTAR
Mikilfenglegt safn stuðlabergskletta, sem mynda skrýtin og skemmtileg form og hella. Bergmálið er magnað. Vegur 862, Vatnajökulsþjóðgarður.  

9. ÁSBYRGI
Skjólsæl paradís í hóffari Sleipnis, sem þjóðsagan segir að hafi drepið niður fæti er Óðinn reið þar yfir. Ásbyrgi er einnig talið höfuðborg álfa og huldufólks hérlendis.  

10. HERÐUBREIÐARLINDIR
Við rætur Herðubreiðar eru lindir þar sem útlaginn FjallaEyvindur hafðist eitt sinn við, og er svæðið talið eitt hið fegursta upp á öræfum landsins.  

11. ASKJA
Í lok ísaldar myndaðist djúp hringlaga dæld við öflugt eldgos í Dyngjufjöllum. Svæðið minnir helst á yfirborð tunglsins en þangað liggja vegir 905, 910 og 894.  

Hælið, setur um sögu berklanna er með vinalegt kaffihús sem býður uppá gómsætar veitingar.

MENNING OG AFÞREYING

12. SUNDLAUGIN HOFSÓSI
Staðsetningin og hönnunin gerir þessa sundlaug einstaka. Hún er bókstaflega í sjávarmálinu á Hofsósi og útsýnið þaðan óviðjafnanlegt. Öll aðstaða með því betra sem gerist og hægt að slaka vel á í heitu pottunum við laugina.
Suðurbraut, Hofsósi
455 6070 / Facebook

13. HVOLL MUSEUM
Byggðasafnið Hvoll heiðrar minningu heimamannsins Jóhanns Svarfdælings, sem hlaut heimsfrægð fyrir hæð sína, 2.34 m.
Karlsrauðatorgi, Dalvík
466 497 /
dalvikurbyggd.is/byggdasafn

14. BRUGGSMIÐJAN KALDI
Árið 2006 varð Kaldi fyrsti handverksbjórinn sem bruggaður var á Íslandi. Hann er tilvalinn með ljúffengum réttum veitingastaðarins, og er þar starfrækt spennandi bjórspa.
Öldugötu 22, Árskógssandi
466 2505 / bruggsmidjan.is

15. BJÓRBÖÐIN
Vissir þú að bjór á að hafa jákvæð áhrif á húðina? Prófaðu það á eigin skinni í einstakri heilsulind frum-kvöðlanna í Brugghúsinu Kalda. Bjórböðin eru þau fyrstu á Norðurlöndunum og lofa dásamlegri slökun og útsýni yfir Eyjafjörð.
Ægisgötu, Árskógssandi
699 0715 / 466 2505 / bjorbodin.is

16. HÚS HÁKARLA-JÖRUNDAR
Í Hrísey er heillandi safn um sögu eyjunnar og hákarlaveiðar fyrr á öldum. Við mælum með sundlaugarferð, orkublettinum og ljúffengri máltíð á Verbúð 66.
Norðurvegi 3, Hrísey
695 0077 / 
hrisey.net

17. NONNAHÚS
Bækur Jóns Sveinssonar, Nonna, eru rómaðar víða um heim. Æskuheimili þessa ástsæla rithöfundar er nú fallegt minningarsafn, sem veitir heillandi innsýn í bæjarbraginn á Akureyri um miðja 19. öld.
Aðalstræti 54, Akureyri
462 3555 /
 nonni.is

18. HÆLIÐ
Setur um sögu berklanna og líf og sorgir þeirra sem glímdu við sjúkdóminn. Sýningin er í senn fróðleg, falleg og mjög áhrifarík. Á notalegu kaffihúsinu er hægt að gæða sér á heimabökuðu bakkelsi í fallegu umhverfi.
Kristnesi, Eyjafjarðarsveit
780 1927 / 
haelid.is

19. BÍLASAFNIÐ YSTAFELLI
Draumaáfangastaður bílaunnandans og alla áhugasama um sögu bílsins á Íslandi. Hartnær hundrað fornbílar prýða safnið, þar á meðal elsti bíll Íslands frá árinu 1914.
Ystafelli 3, Húsavík (dreifbýli)
861 2113 / 
Facebook

20. SAFNAHÚSIÐ HÚSAVÍK
Saga þjóðar, sjávarútvegs og náttúru mætast hér á lifandi hátt. Meðal sýningargripanna eru bátar og uppstoppuð dýr eins og ísbjörn og sæljón. Sérstakt svæði er tileinkað börnum.
Stóragarði 17, Húsavík
464 1860 / 
husmus.is

21. GENTLE GIANTS
Komdu í ógleymanlega hvalaskoðun á Húsavík. Þín býður sannkallað ævintýri á hafi úti þar sem stórhveli, lundar, sjóstangveiði og margt fleira spennandi kemur við sögu.
Við höfnina, Húsavík
464 1500 / 
gentlegiants.is

Naustið Húsavík

VEITINGAR

22. SIGLUNES GUESTHOUSE
Íslenskt hágæðahráefni, þar á meðal sjávarréttir, matreitt að marokkóskum hætti. Einstakt ferðalag bragðlaukanna í notalegu andrúmslofti. Hér er einnig hægt að fá sjarmerandi gistingu.
Lækjargötu 10, Siglufirði
467 1222 / 
hotelsiglunes.is

23. VERBÚÐIN 66
Hér sameinast kynslóðirnar við að töfra fram ljúffenga rétti úr úrvalshráefni, til dæmis fisk og franskar, sem eiga að vera þær bestu sem sögur fara af. Ekki síst ef þeim er skolað niður með Kalda bjór, sem framleiddur er á svæðinu.
Sjávargötu 2, Hrísey
467 1166 / 
Facebook

24. ORÐAKAFFI
Umhverfisvænt kaffihús á fyrstu hæð Amtsbóksafnsins. Hægt er að fá bragðgóðan heitan mat í hádeginu alla virka daga ásamt salati, nýbökuðu brauði og kaffi. Einnig er mikið úrval af dásamlegum kökum og eftirréttum. Mikið er lagt upp úr fersku hráefni og eru allir réttir eldaðir frá grunni og af mikilli ástríðu.
Brekkugötu 17, Akureyri
661 4638 / ordakaffi.is / Facebook

25. KAFFI KÚ
Í fjósinu er kaffihús og lítil verslun með nautakjöti beint frá býli. Á kaffihúsinu má gæða sér á kökum og nýmöluðu kaffi, mjólkurhristingi, kjötsúpu og öðru góðgæti.
Eyjafjarðarsveit
867 3826 /
kaffiku.is

26. NAUSTIÐ
Notalegur fjölskylduveitingastaður, sem sérhæfir sig í ferskum fiski af staðnum. Við mælum með ljúffengu sjávarréttasúpunni og fiskspjótunum, grillaða humrinum og köku, sem bökuð er á staðnum. Í boði er að taka matinn með.
Ásgarðsvegi 1, Húsavík
464 1520 / 
Facebook

Sjoppan, hönnunarverslun í Listagilinu Akureyri

VERSLUN Í HEIMABYGGÐ

27. FLÓRA CONCEPT STORE
Öðruvísi verslun, vinnustofa, og viðburðastaður, sem leggur áherslu á endurnýtta jafnt sem heimaframleidda vöru. Til sölu sérvaldir munir úr íslenskri og þýskri menningarflóru, svo sem fatnaður, bækur, dúkar, reykelsi og fleira.
Kaupvangsstræti 23, Akureyri
661 0168 / 
floraflora.is

28. SJOPPAN DESIGN SHOP
Örugglega minnstu hönnunarverslun heims er að finna í Listagilinu á Akureyri. Hringdu bjöllunni og hönnuðurinn Almar birtist, reiðubúinn að sinna listþyrstum vegfarendum. Ekki missa af litríku plöttunum hans með Jóni Sigurðssyni.
Listagilinu, Akureyri
864 0710 / 
sjoppanvoruhus.is

29. KAFFI KÚ
Á bænum Garði í Eyjafjarðarsveit er hægt að kaupa nautakjöt á grillið eða í frystinn. Gott kaffihús á staðnum.
Garði, Akureyri (dreifbýli)
867 3826 /
kaffiku.is

Stuðlabergið í gljúfrinu kringum Aldeyjarfoss.

ANNAÐ

VÍNBÚÐIN 
Hvammstangi, Strandgötu 1
Blönduós, Húnabraut 5
Sauðárkrókur, Smáragrund 2
Siglufjörður, Eyrargötu 25
Dalvík, Hafnarbraut 7
Akureyri, Hólabraut 16
Húsavík, Garðarsbraut 21
Kópasker, Bakkagötu 10
Þórshöfn, Langanesvegi 2

Tögg úr greininni
, , ,