Planta vikunnar: Rifblaðka

Rifblaðka eða Monstera Deliciosa er hitabeltisplanta sem kemur upprunalega frá regnskógum Mexíkó en hefur dreift sér víðsvegar um heim. Plantan er klifurjurt og getur orðið allt að 30 metra há. Hún er sígræn með dökkgrænum gljáandi blöðum, ný laufblöð eru hjartalaga og alveg heil en þegar að þau stækka fara að myndast göt og rifur á blöðin í kringum miðjuæðina, þessvegna hefur hún fengið viðurnefnið „svissneski osturinn“. 

Rifblaðkan er með langar drjúpandi brúnar loftrætur sem koma út úr stilkum hennar og hún notar til þess að halda sér uppi; hún festir þær við tré og klifrar svo upp með trjástofninum upp að trjákrónunni en það er nauðsynlegt að veita pottaplöntum stuðning því veikir stönglarnir bera plöntuna ekki eftir að stöngullinn er komin með meira en 3 blöð.

Plantan er eitruð og verður því að gæta þess að óvitar leggi hana sér ekki til munns. Einn partur af henni er reyndar ætur og það eru gómsætir ávextir hennar sem sitja eftir að blómguninni lýkur en það tekur ávextina u.þ.b. ár að þroskast og þeir eru eitraðir þar til að þeir eru fullþroskaðir. Plantan blómstrar þó afar sjaldan innandyra.

Auðvelt er að taka afleggjara af stálpaðri rifblöðku og einnig er hægt að sá fræjum vilji maður koma sér upp plöntu frá grunni. Plantan sem kemur upp frá fræi mun sýna það sem kallast neikvæð ljósleitun, sem þýðir að öfugt við flestar aðrar plöntur þá vaxa þær í burtu frá sólarljósi, í átt að dimmasta stað sem að þær finna. Í náttúrunni er þetta þeirra leið til að finna tré til að vaxa á. Þegar plantan hefur fundið tré þá fer hún að vaxa að sólarljósi upp trjástofninn og endar í krónu trésins.

monstera_deliciosa

GÓÐ RÁÐ FYRIR FLOTTA RIFBLÖÐKU:

  1. POTTUN: Það þarf að umpotta ungum plöntum árlega. Gamlar plöntur geta verið í sama potti árum saman án umpottunar, þeim nægir að skipta um efsta lagið af mold í pottinum. Þar sem að þetta er klifurjurt þá þarf hún eitthvað til að klifra á, gott er að setja mosaklædda súlu ofan í pottinn svo að loftræturnar geti fest sig við hana en einnig getur þurft að binda hana til stuðnings. Einnig er gott er að hjálpa loftrótunum að festa sig við stöngina með því að setja þær inn í mosann. Best er að nota blandaða mómold og blanda í hana sandi eða vikur 1 á móti 2. Mestu máli skiptir að frárennslið sé gott; að potturinn og moldin haldi ekki of miklu vatni.
  2. BIRTUSKILYRÐI: Rifblaðka þolir að standa í skugga, en þó getur of mikill skuggi hægt á vexti hennar. Hún má alls ekki standa í sterku sólskini en gott er að hafa hana inni í herbergi með glugga í norður, vestur eða austur en ekki alveg við eða í glugganum.
  3. VÖKVUN: Plantan þrífst ekki ef að þún er vökvuð of mikið, best er að leyfa efsta laginu af moldinni að þorna alveg áður en vökvað er aftur. Rifblaðkan þrífst hinsvegar vel í miklum loftraka og þar sem að hann er oft ekki hár í híbýlum manna þá þarf að úða plöntuna minnst tvisvar í viku og oftar ef mjög heitt er í veðri því þá missir plantan mikinn raka út um stór blöð sín. Ef loftið er mjög þurrt í herberginu þá gæti þurft að bæta loftrakann hjá plöntunni með öðrum leiðum. Ekki er gott að hafa plöntuna við miðstöfðarofn því þar er loftið mjög þurrt.
  4. ÁBURÐUR: Það eru mjög mismunandi ráðleggingar um áburðargjöf fyrir rifblöðku en best er að fylgja leiðbeiningum á áburðarbrúsunum og fylgjast með plöntunni á meðan fundið er úr hversu oft hún þarf áburð. Eitt einkenni þess að plöntuna vanti áburð er að blöðin verða föl. Það er ráðlagt að minnka verulega allan áburð yfir vetrartímann á meðan að plantan vex ekki, þetta gildir um allar plöntur.
  5. HITASTIG: Hitastig á milli 18 – 27 gráður er ákjósanlegur fyrir rifblöðkuna. Fari hitinn fyrir neðan 18 gráður þá hægist verulega á vexti plöntunar og vöxtur hættir alveg fari hitinn fyrir neðan 10 gráður. Ef það er kalt þá á að vökva minna.
  6. SNYRTING: Ekki er nauðsynlegt að klippa rifblöðkuna en ef að hún er orðin of stór þá má klippa af henni toppinn, neðri hlutinn mun koma með nýja sprota og svo er hægt að láta toppinn sem klipptur var af róta sig og koma af stað nýrri plöntu.

HUGSANLEG VANDAMÁL

Gul laufblöð: Getur stafað af ofvökvun. Ef þú ert viss um að það sé ekki vandamálið þá getur líka verið að það vanti áburð.

Brúnir kantar á laufblöðum: Of lítill loftraki er algengasta orsökin en getur einnig stafað af því að plantan er búin að róta sig alveg út í pottinn og þarf stærri pott.

Heil laufblöð (fá ekki göt og raufar): Plöntuna vantar eitthvað, hugsanlega birtu, vatn eða næringu. Gott er að athuga hvort að loftræturnar snerti mold eða mosa á klifursúlunni og ef ekki að hjálpa þeim þá (þær eiga helst að snerta eitthvað).

Svartir flekkir á laufblöðum: Það er of kalt hjá plöntunni.

Föl laufblöð og þurrir blettir umhverfis rifurnar: Plantan er í of sterku sólarljósi.

Föl laufblöð: Gæti verið næringarskortur.

HEIMILDIR:
houseplantsexpert.com/swiss-cheese-plant.html
Allt um pottaplöntur eftir David Longman, Fríða Björnsdóttir íslenskaði