Húsfriður er afar fíngerð sígræn planta með örsmá laufblöð á þunnum greinum sem mynda littla þúfu sem líkist mosa. Plantan heitir á fræðimáli Soleirolia soleirolii, hún er fjölær jurt og af nettluætt, fjarskyld brenninettlunni, en alveg hættulaus og er meira að segja æt!
Algengast er að plantan sé skærgræn, eins og epli á litinn en einnig hef ég lesið um gul, hvít og jafnvel gyllt afbrigði en ég hef ekki enn séð þau til sölu hér á Íslandi. Húsfriðurinn er í eðli sínu skriðjurt og þekur fljótt jarðveg, greinarnar skjóta rótum þar sem þær snerta mold og geta þannig skriðið áfram og myndað hálfgert teppi yfir moldina. Hún er stundum notuð í pott með öðrum hávöxnum plöntum til að hylja moldina fyrir neðan þær en það gengur einungis upp ef sú planta vill einnig raka og frekar mikla vökvun.
Húsfriður kemur upprunalega frá Korsíku en finnst nú víða í Evrópu, enda hefur hún verið vinsæl pottaplanta í margar aldir og flust með fólki landa á milli. Kannski á plantan vinsældum sínum að þakka að hjátrú um hann segir að sérstök gæfa fylgi henni.
Öllu átti þessi litla planta að redda því þar sem hún óx inni í húsi átti síður að brenna ofan af fólki og sömuleiðis átti hún að tryggja barnalán, húsaga og frið á milli heimilisfólks.
Best er að staðsetja húsfriðinn í norðurglugga eða einhverstaðar þar sem ekki er mikill hiti eða sterk sólarbirta. Húsfriðurinn er skuggelsk planta og þolir því ekki vel að sleikja sólina. Í of mikilli birtu verða blöðin rýr og brúnleit og ef mjög þurrt er í lofti eða ef það gleymist að vökva hana það lengi að hún þornar alveg, þá visnar plantan og deyr.
Að því sögðu er húsfriður augljóslega ekki fyrir þá sem að eiga það til að gleyma vökvun heldur frekar fyrir fólk sem að getur varla gengið framhjá pottablóminu sínu án þess að veita því athygli.
Þó að húsfriðurinn kjósi hátt rakastig þá hentar hann ekki svo vel í lítil lokuð gróðurhús því hann þarf að hafa gott loftflæði og einnig gæti planan ekki verið sett í sömu mold og aðrar smáar plöntur því hún myndi vaxa yfir þær og kæfa. Ef nægilega mikil birta er á húsfriðinum þá getur hann blómstrað agnarsmáum hvítum blómum en þau eru það lítil að ekki er hægt að kalla þau mikið augnayndi.
–
GÓÐ RÁÐ TIL AÐ HALDA HÚSFRIÐ:
- POTTUN: Oftast er húsfriður ræktaður í nokkuð víðum en grunnum pottum og hann látinn mynda dálitla þúfu, smá saman skríða greinarnar yfir pottabarmana og hylja jafnvel alveg pottinn en greinarnar vaxa þó aldrei langt ef að þær finna enga mold til að skjóta rótum í.
- FJÖLFÖLDUN: Húsfriði er illa við umpottun þó að það sé alveg hægt ef að plantan er heilbrigð og eigandi hennar óskar þess að stækka hana, þá er bara að smella honum í aðeins stærri pott. Mjög auðvelt er að koma af stað nýrri plöntu, t.d. með því að taka afleggjara og setja í pott með rakri mold eða setja nýjan pott upp við gömlu plöntuna og láta greinar af gömlu plöntunni liggja yfir á nýja pottinn. Í báðum tilvikum þarf að passa að nógur raki haldist á meðan að rætur ná að skjóta sér ofaní moldina og getur því verið gott að setja poka eða glas yfir nýgræðlingana og hafa fyrst um sinn. Gæta þess þó að nóg andrúmsloft sé hjá plöntunni 0g lofta um hana daglega. Einnig er gott að farga greinarnar sem eiga að skjóta rótum aðeins niður með steini eða einhverju svoleiðis til að tryggja að samband við moldina haldist.
- BIRTUSKILYRÐI: Húsfriður þolir ekki að standa í sól en vill þó helst fá góða birtu
- VÖKVUN: Húsfriðurinn má ekki þorna alveg og best er að halda jöfnum raka á moldinni. Fíngerðar greinarnar á plöntunni eru viðkvæmar fyrir því að rotna ef að moldin rennblaut og til að sporna við því er gott að vökva neðanfrá, í undirskálina og leyfa plöntunni að draga í sig vatnið en hún má ekki standa í vatninu of lengi, nokkrar mínútur duga alveg. Húsfriðurinn kýs að hafa mikinn loftraka svo að gott er að úða hana reglulega eða auka raka í kringum plöntuna með öðrum hætti.
- ÁBURÐUR: Á sumrin má gefa daufa áburðarupplausn vikulega eða jafnvel sjaldnar en húsfriður er ekki áburðarfrekur og lætur sér lítið nægja nema að þú viljir stækka plöntuna á stuttum tíma.
- HITASTIG: Venjulegur heimilishiti er fínn fyrir plöntuna og þolir hún alveg aðeins kaldari hita en það. Talað er um að 15-24 gráður séu kjörhitastig fyrir húsfriðinn.
- SKILYRÐI: Ef gamall húsfriður fer að verða tætingslegur má klippa ofan af honum, en halda samt moldinni rakri. Fyrr en varir brjótast út nýjar greinar og plantan fær brátt sínu upprunalega lagi. Snyrtingin fer svo algerlega eftir því hvernig maður vill hafa plöntuna; leyfa henni að leka fram af brúnum pottarins eða halda henni þúfulaga? Þitt er valið en mundu bara að það þarf alls ekki að henda afklippunum því það er um að gera að nota þær til að búa til nýjan húsfrið og gefa eða bara skella afklippunum á samlokuna þína eða í salatið!
VILTU LESA UM FLEIRI PLÖNTUR?
Peningaplanta
Kaktus
Rifblaðka
Friðarlilja
Indjánafjöður
Regnhlífatré
5 athugasemdir